09.02.1983
Neðri deild: 36. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1813 í B-deild Alþingistíðinda. (1571)

Umræður utan dagskrár

Forseti (Sverrir Hermannsson):

Þessar umræður gefa mér tilefni til þess að rifja upp fyrir hv. þdm. eðli og tilgang umr. utan dagskrár. Utan dagskrár er hv. þm. gefið orðið til að koma á framfæri brýnum málefnum, sem þeir vilja vekja athygli á, eða leita svara við áríðandi málefnum hjá stjórnvöldum. Hér var að vísu um það að tefla að hv. þm. hafði beðið með það heila viku í samráði við forseta að koma spurningum sínum á framfæri við ráðh., en hæfilegt hefði verið, eins og þetta mál er vaxið, að þeim fsp. hefði verið komið á framfæri á eins og 5 mínútum, en ekki 15, og svo svarinu öllu helst á eins og 10 mínútum, en ekki 50. Ég vil taka það skýrt fram að alveg er útilokað að ég verji öllum reglulegum fundartíma deildarinnar til umr. utan dagskrár og bið menn að hafa það í huga.