09.02.1983
Neðri deild: 36. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1829 í B-deild Alþingistíðinda. (1585)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég skal reyna að hafa ekki mörg orð um það mál, sem hér er til umr., því mér er jafnmikið í mun og mörgum öðrum að reyna að fá það afgreitt hið allra fyrsta, eins og þingflokkur Alþfl. hefur raunar boðist til að gera undanfarna daga og vikur, þannig að það hefur ekki staðið á honum. Hvati þess að ég taldi mér nauðsynlegt að koma hér í ræðustól voru nokkur orð sem vinur minn og félagi hv. þm. Vilmundur Gylfason viðhafði hér um daginn. Mér þykir lakara að hann skuli ekki sjá sér fært að vera við þessa umr. því ég ætlaði að skjóta á hann nokkrum spurningum.

Ég vil hins vegar byrja á því að segja að mér finnst það algjört grundvallaratriði, þegar við ræðum brbl. eins og nú er gert, að fulltrúar þeirra flokka sem hér koma í ræðustól geri grein fyrir tillögum flokka sinna til lausnar á þeirri efnahagskreppu sem þjóðin stendur nú frammi fyrir. Mér hefur þótt það lakara af hálfu margra þeirra manna, sem tekið hafa þátt í þessari umr. um brbl., að þar hefur ekki komið fram eitt einasta atriði, það ég man, um hvernig þeir vildu leysa málið. Ég held að það verði óhjákvæmilega að gera þá kröfu til stjórnmálaflokkanna allra að þeir geri grein fyrir tillögum sínum um úrlausn efnahagsmálanna. Það er m. a. af þeirri ástæðu sem ég kem hér upp. Ég vil minna á það í skjótu bragði, að á þessu þingi hefur Alþfl. lagt fram hvorki meira né minna en 17 frv. og till. sem öll fjalla um efnahagsmálin og hvernig unnt væri að leysa eitthvert brot af þeim vanda sem nú er við að glíma.

Ég vil líka vara mjög eindregið við þeirri tilhneigingu, sem mér finnst hafa komið fram hjá mörgum stjórnmálamönnum síðustu vikur, að slá ryki í augu landsmanna með því að gera allt of mikið úr þeim formbreytingum á þjóðfélagskerfinu sem við köllum stjórnarskrárbreytingar og kjördæmamál. Þeir slá ryki í augu fólksins með því að láta það raunverulega halda að við leysum einhvern efnahagsvanda með því að breyta stjórnarskrá lýðveldisins. Þetta er auðvitað fjarri öllu lagi og fjarri öllum sanni. Það verður ekki ráðist gegn verðbólgudraugnum með því að breyta stjórnarskrá lýðveldisins, það dæmi gengur ekki upp. Ég vil vara almenning í þessu landi við því að hlusta á þann málflutning sem fram hefur komið af þessu tagi.

Ég hafði hugsað mér að spyrja hv. þm. Vilmund Gylfason að því í mesta bróðerni og alveg áreitnislaust hvað hann, eftir ræðu sem hann flutti hér fyrir nokkrum dögum, hafi til málanna að leggja í sambandi við úrbætur í efnahagsmálum. Ég hef ekkert frá honum heyrt um það, ekki eitt einasta orð. Ég vil t. d. spyrja þann hv. þm. að því, hvort við ættum að greiða erlendu skuldirnar okkar með því að aðskilja framkvæmdavald og löggjafarvald. Er einhver grundvöllur yfirleitt fyrir því að það verði gert eða ætlum við að greiða 4500 dollara hvert okkar með því að aðskilja þessi tvö valdakerfi í landinu? Nei og aldeilis ekki. Það verður ekki gert.

Ég hefði líka viljað spyrja hann að því, hvort við mundum bæta óhagstæðan viðskiptajöfnuð með því að láta fyrirtæki fara á hausinn. Hann hefur látið það frá sér fara að sér væri nánast nákvæmlega sama um hvaða fyrirtæki og af hvaða stærð væri rætt. Ef það væri illa rekið ætti það að fara á hausinn. Nú hefði mig langað að segja við hv. þm.: Ég hef staðið í því undanfarna daga að reyna að hjálpa fyrirtæki í mínu kjördæmi, sem veitir 150 manns atvinnu. Rekstrargrundvöllur þess fyrirtækis er mjög bágborinn, en fyrirtækið sér 150 manns fyrir atvinnu. Ég spurði hv. þm.: Á ég að taka sama pól í hæðina og þú og segja: Ég vil ekki koma nálægt þessu máli, farið þið bara á hausinn. Já, var svarið. Þá spurði ég áfram: En hvað á að gera við þessa 150? Og svarið var afskaplega einfalt og í stíl: Flytja þá í burtu.

Ég hefði líka viljað spyrja hv. þm. að því og mun gera, hvort menn ætli sér að draga úr atvinnuleysi eða koma í veg fyrir það með frjálsum samningum.

Ég hefði líka viljað spyrja hann að því, hvort við mundum auka fiskistofnana með frjálsu fiskverði. Ég geri kröfu til þess að menn sem hafa setið á þingi um árabil og fjallað um þessi mál taki þau öðrum tökum en þessum.

Nú vil ég ekki einskorða þessar patentlausnir við þennan tiltekna þm. Mér finnst sem alltof margir þm. taki undir það að við getum leyst allan vanda þjóðarinnar með því að breyta stjórnarskrá lýðveldisins og kjördæmaskipan. Það sér hver maður í hendi sér að þetta er tvennt ólíkt, sem á sáralitla eða enga samleið. Með þessu er ég ekki að segja, herra forseti, að það sé ekki nauðsynlegt og eðlilegt að réttlæta og færa til betri vegar þau mál sem miður fara samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins og vegna misvægis í atkvæðum, en ég geri þá kröfu til allra þeirra manna, sem sitja á þingi og hafa undanfarna daga og vikur farið eins og köttur í kringum heitan graut í kringum það sem raunverulega skiptir máli, að þeir fari að ígrunda hvernig á að koma þessari þjóð út úr því kreppuástandi sem hún er að komast í — eða er það virkilega svo að menn taki ekki mark á því að flest helstu atvinnufyrirtæki þjóðarinnar eru að stöðvast og það er yfirvofandi umtalsvert atvinnuleysi? Ætla menn þá að koma inn og segja: Við leysum þetta á einfaldan hátt með því að breyta stjórnarskránni? Ætla menn að greiða niður erlendu skuldirnar, sínar eigin skuldir, með því? Nei og aftur nei, það verður ekki gert. Þess vegna, herra forseti, vara ég við trúðleik af þessu tagi, sem felur það í sér beint og óbeint að segja fólkinu í landinu og telja því nánast trú um það, að með einföldum stjórnarskrárbreytingum bætum við efnahagslífið. Þetta er auðvitað svo fáránlegur málflutningur að engu tali tekur.

Það sem hefur gerst í umr. um brbl. er fyrst og fremst það, að menn hafa verið að skakast hér í gjörónýtum hlutum, verið að þrefa og þrástagast um það sem nákvæmlega engu máli skiptir. Ég hef orðað það svo, að við höfum staðið hér inni viku eftir viku og jafnvel mánuð eftir mánuð og talað um það sem engu skiptir á meðan verðbólgan æðir fyrir utan dyrnar hér. Við höfum vart hreyft fingur til að bæta það ástand.

Herra forseti. Ég sagði að ég gerði þá kröfu til stjórnmálaflokkanna að þeir gerðu grein fyrir því hvað þeir vildu gera, hverjar væru þeirra áætlanir og hverjar væru þeirra hugmyndir. Ég vil minna þá á sem hér eru inni, að 1978 lagði Alþfl. fram ítarlegar, vandaðar og vel ígrundaðar tillögur um efnahagsmálin. Það hafði verið unnið geysilegt verk um fjögurra mánaða skeið til að koma þessum tillögum saman. Í þeim fólst sú björgunaraðgerð sem unnt hefði verið að framkvæma ef vilji hefði verið fyrir hendi. Þegar flokknum varð ljóst á árinu 1979 að hvorki Framsfl. né Alþb. höfðu kjark eða dug til að framfylgja þessum tillögum sleit hann stjórnarsamstarfinu. Það hefur annar flokkur á Íslandi vart gert í stjórnmálasögunni að standa svo harður á tillögum sínum að ef samstarfsflokkarnir ekki fylgdu honum eftir og fylgdu með honum væri hann farinn.

Í stjórnarmyndunarviðræðum 1979 og 1980 ítrekaði flokkurinn þessa till. æ ofan í æ, en því miður fékk hann engan hljómgrunn. Þá sögðu Alþfl.-menn: Herrar mínir. Þið eruð að stofna til kreppu á Íslandi. Þessi kreppa er því miður komin. — Það var ekki hlustað á okkur, heldur var höggvið í sama gamla knérunninn með því að endurtaka skammtímalausnir frá degi til dags. Þjóðinni var ekki sagður hálfur sannleikurinn um ástand efnahagsmála. Henni var talin trú um að þetta væri allt í lagi, það mundi gerast kraftaverk, það mundi fara að veiðast fiskur sem ekki var til í sjónum. Þessi sóunarstefna, sem hefur átt sér stað hér á undanförnum árum og leiðir okkur nú í algjörar ógöngur, hefur líka bitnað á fiskstofnunum.

Herra forseti. Ég held að það hljóti allri þjóðinni að vera ljóst að sú fjárfestingarstefna, sem hér hefur verið viðhöfð, bæði í sambandi við togarakaup, við fjárfestingu í landbúnaði og fleiri greinum, er gjörsamlega út í hött. Þjóðin er búin að fjárfesta svo skiptir tugum milljarða. Og með hvaða hætti hefur hún gert það? Hún hefur tekið til þess erlend lán. Allar þessar staðreyndir blasa við okkur. Þrátt fyrir allt þetta ber okkur fram til ársins 2000 samkv. reiknitölum glöggra manna að skapa í þessu landi 30 000 ný atvinnutækifæri. Þessu vil ég einkum og sér í lagi beina til ungs fólks sem er að fara út á hérlendan vinnumarkað. Ég vil að það spyrji stjórnmálamennina: Hvar á að skapa þessi nýju atvinnutækifæri? Hvar eru þau? Hvar á ég að vinna þegar ég er búinn í mínu skólanámi? Það hafa engin svör fengist við þessu.

Ég vil, herra forseti, nefna nokkur þeirra atriða sem ég tel að við verðum að horfast í augu við, að við verðum að takast á við á næstu misserum og árum ef við ætlum að reyna að rétta úr kútnum. Og þar kem ég auðvitað í grundvallaratriðum að þeim ráðum og aðferðum sem Alþfl. vildi beita þegar 1978. Um flest af því sem ég nefni nú hefur flokkurinn flutt frv. og till. sem hafa komið fram hér á þingi, en hafa ekki fengið umr. og því síður afgreiðslu.

Í fyrsta lagi vill Alþfl., eins og ástand mála er nú, að komið verði á afkomutryggingu fyrir þær fjölskyldur, sem eiga að lifa af tekjum einnar fyrirvinnu á óyfirborguðu taxtakaupi.

Þá viljum við að tekinn verði upp nýr og raunhæfur vísitölugrundvöllur. Sá grundvöllur sem nú er við að berjast mælir ekki rétt. Hann mælir rangt. Það verður að breyta honum.

Við viljum líka skila húsnæðislánakerfinu tekjustofnum sínum og gera því kleift að hækka lán til þeirra sem byggja í fyrsta sinn og lengja lánstímann. g held að það sé eitt mesta þjóðarbölið, sem nú er við að glíma, hversu miklar byrðar eru lagðar á það fólk sem nú er að byggja.

Við viljum líka að greiðslubyrði húsnæðis- og lífeyrissjóðslána miðist við ófalsaða kaupgjaldsvísitölu.

Við viljum auk þess reyna að efla innlendan sparnað með því að allir almennir sparisjóðsreikningar verði verðtryggðir og vextir af sparifé verði færðir og greiddir mánaðarlega.

Við viljum líka að þeir sem spara reglulega geti áunnið sér aukin lánsréttindi þegar þeir byrja að byggja. Við mótmælum því, að launþegar einir beri byrðarnar af hrikalegum hagstjórnarmistökum Kröfluflokkanna.

Við krefjumst þess, sem hefur verið krafa Alþfl. um langt árabil, að útflutningsuppbætur verði afnumdar í áföngum. Ég hef sagt að það er ekki fráleitt í mínum huga þó að hluti af þessum útflutningsuppbótum yrði notaður til að endurbæta landbúnaðinn í landinu á fyrstu árunum, til þess að auka framleiðni og til þess að fjölga greinum í landbúnaði. Þá viljum við að hægt verði að miða búvöruverð til framleiðenda við laun launþega.

Við viljum stöðva erlendar lántökur umfram erlendan kostnað arðbærra framkvæmda og nauðsynlegan gjaldeyrisvarasjóð.

Við viljum banna innflutning fiskiskipa í tvö ár. Við viljum gera tilraun með aukið frjálsræði í viðskiptum, þar sem samkeppni á markaði telst vera nægileg. Við viljum að ríkisvaldið sjálft gangi á undan með góðu fordæmi þegar almenningur er krafinn um fórnir með því að takmarka umsvif ríkisins og tekjurnar verði ákveðnar fyrst og svo útgjöldin. Við krefjumst þess sem sagt að ríkið hætti að lifa um efni fram. — Ég vil aðeins reyna að kristalla þetta betur. Hvaða fjölskyldu farnast vel ef hún ákveður útgjöld sín áður en hún ákveður tekjur sínar? Slíkt getur ekki gengið.

Við viljum líka minnka hlutdeild fjárfestingar í þjóðarframleiðslunni nú þegar þjóðartekjur dragast verulega saman og erlendar skuldir eru komnar umfram hættustig.

Við viljum líka, herra forseti, draga úr óarðbærri fjárfestingu í hnignandi greinum, sem komnar eru að endimörkum vaxtar, en auka fjárfestingu í vaxtargreinum, orkufrekum iðnaði, smáiðnaði, fiskeldi og nýjum búgreinum. Við viljum draga úr lögbundinni sjálfvirkni ríkisútgjalda. Þetta hefur verið eitt af baráttumálum Alþfl. um árabil, að festa ekki framlög til ríkisútgjalda til sjóða ríkisins eins og gert hefur verið.

Þá höfum við lagt mikla áherslu á að endurskoða tekju- og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga með því að færa fleiri verkefni ásamt fjármunum og ábyrgð yfir til sveitarstjórna. Um þetta hefur t. d. hv. þm. Magnús H. Magnússon og fleiri Alþfl.-menn flutt mjög ítarlegt frv.

Þá viljum við auka sjálfsforræði sveitarfélaganna yfir gjaldskrám sínum og við viljum afnema tekjuskatta til ríkisins, en sveitarfélögin fái þann tekjustofn til umráða.

Auk þess viljum við samræmt lífeyrisréttindakerfi fyrir alla landsmenn samkvæmt gegnumstreymiskerfi. Og við viljum merkilegt nokk, þó að hv. þm.

Vilmundur Gylfason hafi talið það eitt af ágreiningsefnum sínum og Alþfl., afnema Framkvæmdastofnun ríkisins í núverandi mynd. Sameina alla fjárfestingarlánasjóði atvinnuveganna í einn sjóð sem rekinn verði á viðskiptagrundvelli og lánskjör verði samræmd.

Þá viljum við, herra forseti, að stjórnmálamenn hætti pólitískri ráðstjórn yfir fjárfestingarákvörðunum og lánsfjárskömmtun í atkvæðaskyni. Við krefjumst þess nefnilega að þeir haldi sig við leistann sinn, sem er að setja lög, móta almenna stefnu og fylgjast með og fylgja eftir framkvæmd laga.

Herra forseti. Um alla þessa málaflokka höfum við flutt frv. eða till. hér á þingi. Við höfum efnahagsstefnu sem við höfum endurmetið frá 1978, 1979, 1980 og aftur nú. Ég taldi nauðsynlegt, af því mér þótti það málefnalegt, að gera grein fyrir því hvað við teljum að verði að gera á næstu misserum og árum. Ég tel það út í hött, eins og hér hefur komið fram mjög oft að undanförnu, að menn ræði þessi mál án þess að leggja fram sínar eigin till. Till. Alþfl. liggja á borðinu. Þær hafa verið klárar allt frá árinu 1978. Og ég mótmæli því enn á ný, herra forseti, ef nokkrum misvitrum stjórnmálamönnum ætlar að takast að telja þessari þjóð trú um að með því einu að breyta stjórnarskrá lýðveldisins og kjördæmaskipan, leysum við allan efnahagsvandann á einu bretti. Þetta er nákvæmlega það sem sumir stjórnmálamenn eru að telja þjóðinni trú um. Ég skal taka undir það enn á ný að ég er hlynntur því að meiri jöfnuði verði náð á öllum sviðum, í stjórnarskrármálum eins og öðrum, en ég tek ekki undir það og mun aldrei gera, að það verði lausnarorðið í þeim vanda sem við er að glíma núna.

Lausnarorðið í þeim vanda sem við er að glíma núna er það, að þeir ábyrgu stjórnmálamenn, sem enn sitja á þingi, taki höndum saman og fari að vinna eins og menn í stað þess að haga sér eins og hér hefur gerst að undanförnu, að menn hafa ekki unnið saman, þeir hafa ekki náð saman. Og hver er niðurstaðan? Upplausn og ringulreið, sem blasir hvarvetna við í þjóðfélaginu. Sú ringulreið mun koma okkur í koll, einfaldlega vegna þess að hún rennir stoðum undir þá aðila og það fólk í samfélaginu sem telur að lausnina sé alltaf að finna einhvers staðar annars staðar í stað þess að reyna að breyta þeim flokkum sem það starfar í. Lausnin hljóti að felast í einhverjum patenthugmyndum sem komið er fram með. Þetta tel ég rangt, þetta tel ég hættulegt og ég tel að við verðum að sporna við þessu.