01.11.1982
Efri deild: 6. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í B-deild Alþingistíðinda. (159)

41. mál, fóstureyðingar

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Til þess að enginn misskilningur verði:

Ég gat þess áðan að ég hefði skýrt nánar hvað ég hefði átt við þegar ég hefði sagt að fóstureyðingar væru frjálsar eða svo gott sem frjálsar. Þá átti ég við fóstureyðingar sem framkvæmdar eru þegar fóstur er innan við 12 vikna gamalt. Ég skýrði þetta mál og ég vil að þetta komi hér fram.

Hv. 3. þm. Vesturl. sagði svo, að ef þetta væri svona væri lögunum ekki framfylgt. Það má orða það svo. En þegar lögin voru samþykkt var ágreiningur um hvað heimildir til fóstureyðinga ættu að vera rúmar. Sumir vildu hafa þær algerlega frjálsar eins og við þekkjum. En þegar þetta frv. var á lokastigi sagði oddviti þeirra sem harðast stóðu fyrir frjálsum fóstureyðingum og fyrrv. heilbr.- og trmrh.: „Þó að lögin verði ekki eins og ég óskaði, þá eru þau þess eðlis, að fóstureyðingar verða í framkvæmd frjálsar.“ Þetta geta menn séð í Alþingistíðindunum, en ég hef ekki blaðsiðutalið hér til þess að vitna í. — Ég vildi aðeins að þessar upplýsingar kæmu fram.