14.02.1983
Neðri deild: 38. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1916 í B-deild Alþingistíðinda. (1659)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér ásamt hv. 1. þm. Reykn. að flytja hér svohljóðandi brtt. við frv. um efnahagsaðgerðir:

„Við 3. gr. 2. mgr. orðist svo:

Útfluttar skreiðarafurðir skulu greiddar á því kaupgengi sem í gildi er þegar útflutningsskjöl eru afgreidd í banka við gjaldeyrisskil. Að öðru leyti kveður ríkisstj. nánar á um til hvaða annarra afurða þetta ákvæði skuli taka, og eru ákvarðanir hennar þar að lútandi fullnaðarúrskurðir.“

Ég þarf í raun og veru ekki að bæta miklu við þetta því að ég skýrði hér frá því í dag að ég teldi að sá gengishagnaður, sem reiknað væri með vegna skreiðarafurða, væri ekki fyrir hendi og ekkert útlit fyrir það að hann verði til í náinni framtíð. Ef skreið selst, sem eru slæmar horfur á, þurfa skreiðarframleiðendur fullkomlega á því að halda að afreikna á gildandi kaupgengi bankanna á hverjum tíma. Þess vegna er þessi till. flutt. Hún er nánast leiðrétting og viðurkenning á að þessi gengishagnaður er ekki fyrir hendi og mun ekki verða fyrir hendi. Það er óskynsamlegt að mínum dómi að ráðstafa fyrir fram slíkum hagnaði sem ekki er fyrir hendi. Ef úr rætist um sölu, sem við verðum að vona, þá er það mikill geymslukostnaður á þessum afurðum og vaxtagreiðslur, að skreiðarframleiðendum mun almennt ekki veita af gildandi gengi.