14.02.1983
Neðri deild: 38. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1939 í B-deild Alþingistíðinda. (1678)

Um þingsköp

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Nú háttar svo til með þá sjálfstæðismenn sem styðja ríkisstj. að þeir eru allir ráðherrar. Vilji þeir koma málum á framfæri við hv. Alþingi eiga þeir þess vegna ekki kost á að leita til almennra þm. um málafylgju, heldur verða þeir að taka málin upp sjálfir. Af þessum ástæðum er það væntanlega sem hæstv. forsrh. hefur kosið að bera hér fram frv., sem er auðvitað ekki stjfrv, heldur frv. frá forsrh.

Frv. er flutt þrátt fyrir harða andstöðu Alþb. Af þeim ástæðum hefur Alþb, mótmælt þeim fundi fjh.- og viðskn. Nd., sem haldinn verður í fyrramálið til þess að fjalla um þetta sérkennilega frv., og mun Alþb. ekki taka þátt í þeim fundi sem þannig er til boðað.

Það er ljóst, herra forseti, að ef hæstv. forsrh. telur að hann geti komist af án stuðnings Alþb. við að flytja stjfrv. verður það ekki skilið á annan veg en þann, að hann geti einnig komist af án stuðnings Alþb. við fleiri mál. Verður það tekið til gaumgæfilegrar athugunar næstu daga.