01.11.1982
Sameinað þing: 10. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í B-deild Alþingistíðinda. (172)

Umræður utan dagskrár

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Það hefur vakið athygli manna hverjar hafa verið yfirlýsingar ráðh. í fjölmiðlum núna um helgina vegna þeirrar vaxtahækkunar sem Seðlabanki Íslands hefur ákveðið að undangengnu samráði við bankaráð Seðlabanka Íslands og ríkisstj. Það hefur verið á vitorði allra, sem fylgjast með þessum málum, að bankastjórn Seðlabanka Íslands lagði tillögur sinar um vaxtahækkun fyrir ríkisstj. í ágústmánuði s.l. Það var hins vegar ekki fyrr en í síðustu viku að ríkisstj. hafði tíma til að fjalla um þessi mál og láta í ljós skoðun sína með þeim eftirmálum ráðh. í fjölmiðlum sem munu vera einsdæmi þegar um vaxtabreytingu hefur verið að ræða.

Afgreiðsla þessa máls er enn eitt dæmið um stefnuleysi núv. ríkisstj., þann glundroða sem er á stjórnarheimilinu, og staðfestir það betur en nokkuð annað að ríkisstj. hefur ekki þrek til að horfast í augu við staðreyndir efnahagslífsins og takast á við þann vanda sem við blasir. Málum er ýtt á undan sér, e.t.v. þægilegra að geyma afgreiðslu mála þar til stefnuræðu forsrh. er lokið og umr. um hana, enda var ekki vikið einu orði að þessum málum af hálfu stjórnarliða í þeim útvarpsumr.

Þegar svo ákvörðun var tekin af Seðlabankanum, eins og segir í tilkynningu hans, að höfðu samráði við ríkisstj., eins og venja hefur verið, koma ráðherrar fram fyrir alþjóð og áttu ekki von á neinni vaxtabreytingu, höfðu ekkert heyrt um vaxtabreytingu, eins og mátti skilja á orðum hæstv. fjmrh. í útvarpinu s.l. föstudag þegar hann sagði að þessi vaxtabreyting hefði komið sér mjög á óvart.

Ekki tók nú betra við þegar viðtal var haft við hæstv sjútvrh. Formaður Framsfl., hæstv. sjútvrh., lýsti sig þá þegar alfarið á móti vaxtastefnu Seðlabankans. En það er einmitt varaformaður Framsfl., hv. þm. Halldór Ásgrímsson, sem er formaður í bankaráðinu og því til viðbótar má benda á að ritari Framsfl., hæstv. viðskrh., fer með bankamál í ríkisstj. og endanleg ákvörðun Seðlabankans var að lokum, eins og kom fram í viðtali hans í útvarpi, samkvæmt tillögum hans frá ríkisstjórnarfundi.

Það var haft eftir hæstv. sjútvrh. í sjónvarpinu s.l. laugardagskvöld, að hann væri sannfærður um að það kæmi til greiðsluþrots hjá fjölda einstaklinga og fyrirtækja ef fylgt yrði stefnu Seðlabankans í vaxtamálum. Hann sagði að bæði Landsbankinn og Útvegsbankinn væru nú látnir greiða Seðlabankanum, eftir vaxtaákvarðanir Seðlabankans, 269% refsivexti á ári, og hann bætti við að þessar vaxtabreytingar þýddu 200–250 millj. kr. viðbótarútgjöld fyrir útflutningsatvinnuvegina og Þjóðhagsstofnun teldi að þetta kallaði á 10% gengissig. Hæstv. sjútvrh. sagðist vera ákaflega svartsýnn á stefnu Seðlabankans og ekki fá annað séð en nýjar reglur um útlán bankanna leiddu til algerrar rekstrarstöðvunar. Þessu til svara voru ummæli Jóhannesar Nordals seðlabankastjóra í sjónvarpinu í gærkvöldi, að það væri skoðun Seðlabankans að engin þörf væri fyrir gengissig. Hann sagði það jafnframt álit Þjóðhagsstofnunar að þetta rýrði ekki afkomu fiskvinnslunnar frá síðustu fiskverðsákvörðun.

Hvað er hér að gerast? Ráðh. og bankastjóri Seðlabanka Íslands senda hvor öðrum orðsendingu um vaxtastefnu ríkisstj. og Seðlabankans í ríkisfjölmiðlum og þeir eru ekki aldeilis sammála. Það liggur auðvitað í augum uppi, að sú vaxtahækkun sem ákveðin hefur verið veldur útflutningsatvinnuvegunum auknum útgjöldum, en það er líka ljóst að vaxtahækkunin er afleiðing vaxandi verðbólgu en ekki orsök, eins og Seðlabankastjórinn benti á.

Það má öllum vera ljóst af því sem ég hef hér sagt, að um grundvallarágreining er að ræða um leiðir í efnahagsmálum milli fulltrúa ríkisstj., sem ber ábyrgð á útflutningsatvinnugreinunum, og Seðlabanka Íslands, þ.e. hæstv. sjútvrh. og bankastjórnar Seðlabanka Íslands. Á meðan þessu öllu fer fram blasir við allsherjar stöðvun atvinnuveganna og ríkisstj. aðhefst ekkert til þess að tryggja rekstrargrundvöll þeirra, þannig að unnt sé að greiða eðlilegt afgjald af þeim fjármunum sem atvinnufyrirtækin hafa til starfsemi sinnar. Þá eru úrræðin að hækka vexti vegna vaxandi verðbólgu og hækka refsivexti í viðskiptabönkum í 269%, eins og sjútvrh. sagði, þegar viðskiptabankarnir hafa neyðst til þess að fleyta atvinnuvegunum áfram á yfirdrætti frá Seðlabankanum. Hvers vegna? Vegna þess að frá ríkisstj. kemur ekkert frumkvæði til að skapa heilbrigðan rekstrargrundvöll atvinnuveganna, sem gæti skapað sparnað í landinu.

Alþingi á kröfu á því að vita hver er afstaða ráðherranna. Alþm. eiga ekki að þurfa að hlýða á orðsendingar þeirra í fjölmiðlum. Þeir eiga að gera grein fyrir þeim hér á Alþingi. Þeir eiga að mínum dómi hér og nú að gera grein fyrir afstöðu sinni í þessu máli og gera grein fyrir hvert verði framhaldið, hvenær það verði ef það verður þá nokkuð.

Ég hef leyft mér að koma hér með fsp. til þeirra þriggja ráðh. sem hafa látið í sér heyra eftir þessa vaxtaákvörðun, hæstv. viðskrh., sem fer með bankamálin, hæstv. sjútvrh. og hæstv. fjmrh.

Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. viðskrh.:

1. Ber að skilja brtt. viðskrh. við tillögu Seðlabankans sem tillögu í og stefnu ríkisstj. í vaxtamálum?

2. Voru allir ráðherrar ríkisstj. sammála þeim brtt. sem viðskrh. lagði til við Seðlabanka Íslands eftir ríkisstjórnarfund?

3. Hvers vegna dróst svo mjög hjá ríkisstj. að taka afstöðu til tillagna Seðlabankans frá því í ágúst?

4. Hvenær má búast við afgreiðslu ríkisstj. á tillögum Seðlabankans varðandi afurðalánavexti og afstöðu til þeirra?

Ég vil leyfa mér að beina eftirfarandi spurningum til hæstv. sjútvrh.:

1. Telur sjútvrh. að vaxtahækkun sú, sem áformuð hefur verið og tók gildi í dag í samráði við ríkisstj., muni valda svo miklum útgjaldaauka hjá fiskveiðiflotanum og fiskvinnslunni að hætta sé á rekstrarstöðvun?

2. Hver er afstaða sjútvrh. til tillagna Seðlabanka Íslands um hækkun vaxta á endurkeyptum afurðalánum útflutningsatvinnuveganna?

3. Er sjútvrh. kunnugt um að við síðustu fiskverðsákvörðun hafi verið gert ráð fyrir þeim vaxtakjörum sem nú hafa verið ákveðin eða telur sjútvrh. að með því gengissigi, sem verið hefur að undanförnu, sé fyrir þeim viðbótarútgjöldum séð sem útflutningsatvinnuvegirnir verða nú fyrir?

Til hæstv. fjmrh. leyfi ég mér að heina eftirfarandi spurningum:

1. Ber að skilja ummæli hæstv. fjmrh. í Ríkisútvarpinu frá því á laugardag á þann veg, að hann sé ekki sammála vaxtabreytingum þeim sem Seðlabankinn nú hefur ákveðið að höfðu samráði við ríkisstj.?

2. Hver er afstaða fjmrh. til þeirra tillagna Seðlabankans sem fyrir ríkisstj. liggja um hækkun vaxta á endurkeyptum afurðalánum útflutningsatvinnuveganna?