01.11.1982
Sameinað þing: 10. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í B-deild Alþingistíðinda. (173)

Umræður utan dagskrár

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Hv. þm. Matthías Á. Mathiesen, 1. þm. Reykn., hefur beint nokkrum spurningum til þriggja ráðh. í sambandi við ákvarðanir Seðlabankans um vexti nú fyrir helgi. Skal ég reyna að rekja gang þess máls þannig að það komi ljóst fram, hvernig farið hefur verið með málið í ríkisstj. og hvernig þau mál stóðu þegar Seðlabankinn tók sina ákvörðun.

Ég vildi fyrst minna á fréttatilkynningar, sem Seðlabankinn gaf út 29. okt. s.l. um vaxtabreytingar og um viðskipti Seðlabankans við innlánsstofnanir. Ég held að það sé ákaflega erfitt að svara þessum spurningum án þess að gera nokkuð almenna grein fyrir málinu, aðdraganda þess og meðferð og niðurstöðum. Í fyrrnefndri fréttatilkynningu frá Seðlabankanum segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Bankastjórn Seðlabankans hefur nú að undangengnu samráði við bankaráð og ríkisstj.“ — ég undirstrika: að undangengnu samráði við bankaráð og ríkisstj. — „ákveðið hækkun vaxta af óverðtryggðum innlánum um 8% og útlánum um 6% eða 7% , en hækkun ársvöxtunar lánanna er í flestum tilvikum nokkru meiri en þetta sökum fleiri gjalddaga eða vaxtareikningsdaga á ári. Þá hækka vanskilavextir úr 4% í 5% á mánuði upp í 60% á heilu ári.

Vaxtabreyting þessi hefur verið alllengi í undirbúningi. Samfara efnahagsaðgerðunum í ágústmánuði s.l. áformaði bankastjórnin nokkru minni vaxtahækkun en nú er framkvæmd og taldi slíka aðgerð óhjákvæmilegan þátt í viðleitni stjórnvalda til þess að hamla á móti misvægi á lánamarkaði og stöðugu útstreymi gjaldeyris. Ríkisstj. taldi sér þá ekki fært að taka afstöðu til þess, hvort áform þessi samrýmdust markmiðum hennar í efnahagsmálum, svo þau voru tekin til nánari yfirvegunar í ljósi efnahagsframvindunnar síðan og í samhengi við aðrar aðgerðir í peningamálum.

Samkvæmt lögum um stjórn efnahagsmála o.fl. frá 1979 skulu útlán og tímabundin innlán verðtryggð eða vextir þeirra í meginatriðum miðast við sama mark. Aðlögunartímabilið að fullri verðtryggingu var í árslok 1980 framlengt með lögum út árið 1981, en frá upphafi þessa árs hefur verið lögskylt að ákveða og heimila vexti í samræmi við verðbólgustig. Verðbólgan hefur farið ört vaxandi undanfarna mánuði og er nú áætlað að hún nemi 60% yfir árið. Samt sem áður er aðeins stefnt að því að hækka ársvöxtun almennra, óverðtryggðra útlána upp í 47–53%. Er með þessu annars vegar miðað víð að verðbólga geti farið að hægjast nokkuð með nýju ári, enda muni stjórnvöld reyna að stuðla að því eftir megni, svo og að fyrirbyggja að stórt bil milli verðbólgu og vaxta nái að myndast á ný og festast í sessi með mjög neikvæðum raunvöxtum. Vanskilavextir verða hins vegar að fylgja verðbólgu án tafar og eru þeir því ákveðnir sem svarar 60% á ári.

Vaxtakjör endurkeyptra afurða- og rekstrarlána eru lógum samkv. háð sérstöku samþykki ríkisstj. Hefur ríkisstj. frestað um sinn að taka fullnaðarafstöðu til þess máls. Vonast Seðlabankinn til að sú ákvörðun verði tekin á næstunni, en áriðandi er að þessi vaxtakjör eigi samleið með almennum vaxtakjörum. Sú mismunun milli atvinnuvega, sem í þeim felst, er þegar orðin svo mikil að ekki er á bætandi, jafnframt því að vaxandi örðugleikum er bundið að veita þessi kjör um leið og innlánsstofnunum sé skilað lágmarksávöxtun fyrir bundnar innstæður þeirra.“ En vextir fyrir bundnar innstæður munu vera 34%, ef ég man það rétt.

„Að undanförnu hefur verið að myndast mjög alvarlegt misræmi milli lánskjara á verðtryggðum lánum, sem þegar nema um fjórðungi útlána innlánsstofnana auk nánast allra nýrra lána fjárfestingarlánasjóða og lífeyrissjóða, og þeirra nafnvaxtakjara sem nú er verið að breyta. Hefur þetta ekki aðeim valdið óviðunandi mismunun milli lánþega, heldur hafa miklar fjárhæðir raunverulegrar vaxtaívilnunar eða vaxtastyrks runnið með þessu móti frá sparifjáreigendum að nokkru til atvinnuvega umfram tilætlaðan rekstrargrundvöll, en að mjög verulegum hluta til almennrar eyðslu, sem einkum kemur fram í meiri innflutningi en þjóðarbúið þolir.

Framvinda efnahagsmála að undanförnu staðfestir nauðsyn aðgerða svo að ekki verður um villst. Þrátt fyrir viðleitni innlánsstofnana til útlánaaðhalds hefur lítið lát verið á misræmi inn- og útlánaaukningar og lausafjárstaða þeirra haldist álíka slæm og síðustu mánuði. Eftir lítils háttar bata af völdum tímabundins innstreymis fyrst eftir gengisbreytinguna hefur alvarlegt gjaldeyrisútstreymi magnast á ný. Hefur gjaldeyrisstaðan versnað um um það bil 350 millj. kr. frá mánaðamótum til 26. okt., en alls hefur staðan versnað um 1 650 millj. kr. á árinu (miðað við gengi 30. sept.) eða um meira en helming stöðunnar í upphafi ársins. Kemur þetta heim við tölur um vöruskiptajöfnuð, sem ná til septemberloka, er sýna að almennur innflutningur á föstu gengi hefur haldið áfram að aukast frá sama tíma fyrir ári um 4% í sept. og 9 % í jan. til sept. um leið og útflutningur hefur dregist verulega saman. Í framhaldi af þessu sýnir þjóðhagsáætlun spá um viðskiptahalla, sem nemi 6% af þjóðarframleiðslu á næsta ári að óbreyttri beitingu hagstjórnartækja, en brýn nauðsyn ber til þess að færa hallann verulega niður fyrir það mark. Að öðrum kosti blasir við hættuástand í gjadleyris- og skuldamálum þjóðarbúsins. Um leið og þessi vaxtabreyting kemur til framkvæmda ganga í gildi nýjar reglur um lánsfjárfyrirgreiðslu Seðlabankans við innlánsstofnanir, sem nánar er gerð grein fyrir í sérstakri fréttatilkynningu. Vaxtabreytingunni er m.a. ætlað að bæta jafnvægisskilyrði á lánamarkaði í þeim mæli, að innlánsstofnunum verði gert kleift að standast þær kröfur sem til þeirra verða gerðar með hinum nýju viðskiptareglum.“

Þetta er fréttatilkynning sem Seðlabankinn sendi frá sér í sambandi við ákvörðunina um hækkun vaxta. Þegar rætt er um meðferð mála af þessu tagi er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því, hver lagaákvæði eru um vexti. Er þá fyrst að vísa til þess, að í lögum um Seðlabanka Íslands nr. 10 frá 1961 eru ákvæði um vextina. Þar segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Seðlabankinn hefur rétt til að ákveða hámark og lágmark vaxta, sem innlánsstofnanir, er um ræðir í 10. gr., mega reikna af innlánum og útlánum.“ Enn fremur segir í 29. gr. laga um Seðlabankann orðrétt, með leyfi forseta: „Bankaráð hefur yfirumsjón með starfsemi Seðlabankans, og skal bankastjórnin hafa náið samráð við bankaráð um stefnu bankans almennt, svo og um ákvarðanir í mikilvægum málum, er stefnu bankans varða, svo sem um vexti og innlánsbindingu.“

En það eru fleiri lagaákvæði um vexti heldur en þessi. Í lögum nr. 13 frá 1979, um stjórn efnahagsmála o.fl., segir í ákvæði til bráðabirgða: „Vaxtaákvarðanir á árunum 1979 og 1980 skulu við það miðaðar, að fyrir árslok 1980 verði í áföngum komið á verðtryggingu sparifjár og inn- og útlána.“

Þessu lagaákvæði var breytt með lógum nr. 10/1981, þar sem ákvæðið er svohljóðandi orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Vaxtaákvarðanir skulu við það miðaðar, að fyrir árslok 1981 verði komið á verðtryggingu sparifjár og inn- og útlána.“

Í þessum efnum gilda því ákveðin lagaákvæði. Til viðbótar segir svo í lögum nr. 13 frá 1979, 37. gr.: „Seðlabankinn gefur út hvaða reglur skuli gilda um rekstrar- og afurðalán atvinnuveganna að fengnu samþykki ríkisstj.

Hér er því raunverulega um þá verkaskiptingu að ræða, að Seðlabankinn ákveður vextina, en hann getur ekki breytt reglum um rekstrar- og afurðalán atvinnuveganna nema að fengnu samþykki ríkisstj. Þetta eru þau lagaákvæði sem gilda í þessum efnum og ég taldi ástæðu til að rifja upp í sambandi við almenna umr. um þessi mál.

Þessu næst vildi ég koma að meðferð málsins eins og það hefur verið í ríkisstj. Eins og kom fram í fréttatilkynningu Seðlabankans, þá sendi Seðlabankinn til ríkisstj. erindi um vaxtamál og fleira 11. ágúst s.l. og lagði þá til að vextir yrðu hækkaðir um 6%, ekki til þess að fá samþykki ríkisstj. heldur til þess, eins og segir í lögum, að hafa samráð við ríkisstj. um þetta mál. Seðlabankinn sendi mikil gögn með sinum tillögum og þessi gögn fengu ítarlega meðferð í ríkisstj. Bankastjórar Seðlabankans komu á fund ríkisstj. til þess að skýra sín mál og það var skipst á skoðunum um þau í ríkisstj. eins og venja er þegar slík mál eru til meðferðar. Ég átti mjög ítarlegar viðræður við bankastjóra Seðlabankans um þetta. Það er hins vegar ekkert leyndarmál að það er og hefur verið mikil tregða í ríkisstj. og stjórnarliðinu að hækka vextina verulega. Og það á kannske sinn þátt í því að þessi meðferð hefur tekið alllangan tíma, sem ég get vel viðurkennt almennt séð að sé fulllangur tími þegar um er að ræða ákvarðanir af þessu tagi. Ákvarðanir um vexti, ákvarðanir um gengi, um fjárlagafrv, og fleiri mál eru þess eðlis, að þau hafa áhrif á það hvernig menn hugsa og haga sér. Þess vegna er æskilegt að þau séu ekki mjög lengi í meðferð á milli manna.

Ég fór fram á það við bankastjórn Seðlabankans að kannað yrði hvort hægt væri að ná umræddum markmiðum um vaxtahækkun eftir öðrum leiðum, verðtryggingarleiðum. Það var gerð á vegum Seðlabankans mjög ítarleg athugun á þessu, og ríkisstj. send skýrsla um það mál. Það kom fram í henni að Seðlabankinn taldi eftir ítarlega athugun ekki fært að framkvæma þá stefnu. Síðan endurmat Seðlabankinn stöðuna í efnahagsmálum og gerði nýjar tillögur af sinni hálfu 11. okt. s.l. um 9% vaxtahækkanir. Seðlabankastjórarnir hafa síðan sótt marga fundi í ríkisstj. til að ræða þessi mál svo að þeim var fullkunnugt um afstöðu ráðherranna til málsins. S.l. fimmtudag var málið rætt seinast í ríkisstj. Seðlabankinn sýndi þá vaxandi óþolinmæði yfir því að ekki skyldi verða tekin ákvörðun, vegna þess að það hefur verið svo lengi í meðferð og menn hafa reiknað með því að einhverjar vaxtahækkanir yrðu, þó að skoðanir séu mjög skiptar um það hverjar þær mundu verða.

Á fimmtudaginn var seinast fjallað um málið í ríkisstj. Ráðamenn Seðlabankans voru þar viðstaddir. Þar gerðu menn grein fyrir sinni afstöðu. Ég gerði þá ekki tillögu í ríkisstj., það er ekki alveg rétt hjá hv. fyrirspyrjanda, heldur lét ég bóka eftir mér athugasemd, sem var á þá leið, að nauðsynlegt væri að ræða nánar um afurðalán til atvinnuveganna áður en frekari ákvarðanir væru teknar. Það kom frétt í Ríkisútvarpinu um þetta mál og var þar sagt að nauðsynlegt væri að ræða um hækkun afurðalánavaxta við Seðlabankann. Það er ekki alveg rétt, heldur hitt, að ég lét bóka að nauðsynlegt væri að ræða þessi mál frekar. Í öðru lagi, að ríkisstj. beindi þeim tilmælum til Seðlabankans, sem lögum samkvæmt ákveður vexti, að vægilega verði farið í hækkun vaxta. Og í þriðja lagi, að rækilega verði athugaðar allar tiltækar leiðir til að draga úr viðskiptahalla. Þessi bókun mín var ekki tillaga af minni hálfu heldur bókun. Það voru ekki greidd um hana atkvæði. Það er ekki venja að greiða atkvæði um mál í ríkisstj. en hún var ekki samþykki sem slík í ríkisstj. Hv. fyrirspyrjandi spurði nánast um það, hver væri stefna ríkisstj. í þessum málum. Ég vildi svara því svo, að það væri stefna ríkisstj. að fara varlega í vaxtahækkanir, en gæta þess þó að ekki skapaðist of mikið misræmi í vaxta- og verðtryggingarmálum.

Það mætti ræða margt fleira um þessi mál. Varðandi meðferðina var ákveðið á ríkisstjórnarfundinum á fimmtudaginn að fjórir ráðherrar athuguðu málið nánar. Þeir komu saman í framhaldi af þeirri ákvörðun og ræddu málið. (MÁM: Hvenær var það?) Það var sama daginn, fimmtudaginn. Það varð ekki niðurstaða í málinu. Ég skýrði seðlabankastjórninni frá því hvernig málin stæðu í ríkisstj. Eins og ég sagði í útvarpinu og hv. fyrirspyrjandi vitnaði til í framhaldi af því tók Seðlabankinn sínar ákvarðanir. (Gripið fram í: Eru vaxtarverkir í ríkisstj.?) Já, það eru vaxtarverkir í ríkisstj. Vaxtarverkir hafa nú ævinlega verið taldir merki þess að menn væru að vaxa, væru að stækka, þannig að það má segja að það séu vaxtarverkir í ríkisstj., hv. þm.

Um vextina og verðbólguna mætti flytja langt mál. Ég skal ekki gera það að sinni. Ég er þó þeirrar skoðunar, að vextirnir, ákvörðun vaxta sé afleiðing af verðbólgunni. Og mér er miklu nær skapi að það séu gerðar haldgóðar ráðstafanir til þess að lækka verðbólguna í staðinn fyrir að hækka vextina til að reyna að ná henni. Í því sambandi get ég ekki stillt mig um að gera aðeins að umræðuefni afstöðu Sjálfstfl. til þeirra mála sem snerta verðbólguna um þessar mundir.

Fyrir Alþingi liggja bráðlega brbl. ríkisstj. sem þurfa staðfestingu Alþingis. Því hefur verið lýst yfir af hálfu Sjálfstfl. og Alþfl. að þeir muni fella þessi brbl. þegar þar að kemur. Hvað þýðir þetta, að fella brbl.? Það þýðir það, að mati þeirra sem til þekkja og hafa lagt mat á það hver verðbólgan muni verða ef þetta gerist, að verðbólgan mun fara upp í 75–80% þegar fer að líða að miðju næsta ári. Það er það sem það þýðir.

Nú hefur ríkisstj. lýst yfir ákveðinni stefnu í efnahagsmálum og ákveðnum aðgerðum, sem voru birtar þjóðinni 21. ágúst s.l. Samkv. þeirri stefnu má fullyrða, ef ekki gerist annað, að verðbólga muni taka að lækka á næsta ári og nálgast 40% þegar fer að líða á árið. En hverjar eru tillögur stjórnarandstöðunnar í verðbólgumálum um þessar mundir? (Gripið fram í: Að þið farið frá.) Segja þeir það? Það er gömul tillaga, hv. þm. Það er tillaga sem hefur legið fyrir þingi af hálfu stjórnarandstöðunnar frá því að ríkisstj. var mynduð. En það læknar í sjálfu sér ekki mikið ef menn hafa ekki á takteinum ráð til þess að koma í veg fyrir það verðbólguflóð sem sannarlega flæðir yfir þjóðina ef brbl. verða felld. Það gerir það ekki. Ég geri þetta að umræðuefni vegna þess að það er ástæða til að vekja athygli á þessu, að á sama tíma sem stjórnarandstaðan lýsir því yfir að hún ætli að fella brbl. ríkisstj. liggur það fyrir, að ef það gerist og ekkert annað kemur í staðinn muni verðbólga flæða upp í 75–80% á miðju næsta ári. Það liggur líka fyrir að stjórnarandstaðan hefur ekki gert Alþingi eða þjóðinni grein fyrir tillögum til að koma í veg fyrir þessa þróun mála og væri þó sannarlega ástæða til þess. Í sambandi við almennar umræður eins og þessar um vaxtamál, sem eru enn þýðingarmikill þáttur í efnahagsmálunum, er ekkert síður ástæða til þess að stjórnarandstaðan geri Alþingi og þjóðinni grein fyrir hvaða tillögur það eru, sem hún vill gera til þess að stemma stigu við því verðbólguflóði sem fram undan er, ef brbl. ríkisstj. verða felld.