01.11.1982
Sameinað þing: 10. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í B-deild Alþingistíðinda. (176)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það var ekki auðvelt að finna stefnu ríkisstj. í þeim ræðum sem hæstv. ráðh. hafa haldið hér á undan. Hæstv. fjmrh. treysti sér ekki til þess að taka afstöðu til afurðalánavaxta. Hæstv. sjútvrh. lýsti því reyndar yfir, að að hans mati mundi sú vaxtaákvörðun, sem nú hefði verið tekin, leiða til greiðsluþrots hjá fyrirtækjum. En hæstv. viðskrh., hæstv. bankamálaráðh., gerði svolitla tilraun til að skilgreina stefnu ríkisstj. Stefnan var þessi, að það ætti að fara vægilega í vaxtahækkanir, en ekki vera of mikið misræmi.

Væntanlega veit hæstv. viðskrh. að það er 60–65% verðbólga núna. Væntanlega veit hann að vextir af almennu sparifé hafa verið 34% fram undir þetta, en nú er gerð tillaga um að hækka þá í rúmlega 40%. Er þetta hæfilega mikið misræmi? Er það hæfilega mikið misræmi, að almennir sparifjáreigendur, sem leggja peninga sína inn í banka, skuli fá til baka annaðhvort 70–80 kr. í árslok þegar þeir leggja inn 100 kr.? Það er munurinn á verðbólgunni og þeim vöxtum sem hér er um að ræða. Seðlabankinn segir: Ef þú leggur 100 kr. inn í banka skulum við borga þér 80 kr. til baka. — Ríkisstj. virðist fram að þessu hafa fylgt þeirri stefnu að það skuli bara vera 70 kr. Er þetta það misræmi sem hæstv. ríkisstj. telur vera hæfilegt?

Menn tala hér mikið um útlánahliðina, en ég held að menn ættu að líta á innlánahliðina. Enginn banki hefur rétt til þess, ef peningar eru lagðir inn í hann, að stela beinlínis af mönnum 20–30 kr. á ári af hverjum 100. Það er það sem verið er að gera við þá stefnu sem verið hefur við lýði og er reyndar enn við lýði. Enginn banki hefur rétt til þess. Þess vegna á auðvitað allt sparifé að vera verðtryggt. Menn geta velt því fyrir sér, hvað þetta séu háar fjarhæðir, þessar 30 kr. eða 20 kr. sem þannig eru hafðar af hverjum einustu 100 kr. sem eru lagðar inn í bankann. Menn geta velt því fyrir sér. Samkv. þeim gögnum sem liggja fyrir voru þetta 36 þús. kr. á ári á hverja 5 manna fjölskyldu í landinu, áður en nýjasta ákvörðun Seðlabankans var kynnt. 36 þús. kr. á ári eru hafðar af hverri einustu 5 manna fjölskyldu í landinu. Þetta eru engir smáræðis peningar. Ég tel að það sé siðferðileg skylda bankakerfisins að skila aftur þeim verðmætum, sem menn skila inn til bankakerfisins, sem menn eru að lána bankakerfinu. Þetta er grundvallarstaðreyndin í þessu máli.

Hæstv. viðskrh. sagði að það mætti ekki vera of mikið misræmi. Ef ég væri vel stæður framleiðandi núna, annaðhvort í sambandi við framleiðslu á landbúnaðarafurðum eða í sjávarútvegi, mundi ég væntanlega fá afurðalán á 29% vöxtum. (Gripið fram í: SÍS er ekki í landbúnaði.) Er SÍS ekki í landbúnaði? (Gripið fram í: Nei.) Það væri hægurinn að leggja þessa peninga inn á verðtryggða bók. Það er búið að skapa svikamyllu. Það sem gerist er það, að af 1 millj. kr., sem menn fá í afurðalán, geta menn haft 310 þús. kr. í gjöf yfir árið með því að fara svona með peningana — 310 þús. kr. í gjöf af hverri millj., 31%. Og þetta eru engar smáræðis fjárhæðir. Er þetta það misræmi sem hæstv. viðskrh. telur hæfilegt?

Sannleikurinn í þessu máli er sá, að það er búið að skipta lántakendum á Íslandi í tvennt: annars vegar atvinnurekstri, atvinnurekendum, og hins vegar venjulegu fólki, venjulegum lántakendum og venjulegum launþegum. Þeir fá ekkert nema verðtryggð lán. Þeir verða að greiða hverja einustu krónu, jafnvel eftir vísitölu sem mælir hraðar en kaupgjaldið hjá þeim hækkar. En atvinnureksturinn, atvinnurekandinn, má græða 300 þús. kr. á ári af hverri milljón sem hann fær að láni. Þessi mismunur — (Gripið fram í.) Nei, þeir sem hafa þessi kjör. (AG: Þú átt að taka það fram.) Ég tók ákveðin dæmi áðan, Albert Guðmundsson, og þau standa enn. Þessi mismunun er hrikaleg. Þessa mismunun getum við auðvitað ekki þolað. Þetta er of mikið misræmi, hæstv. viðskrh. Það er búið að búa til svo mikið óheilbrigði í kerfinu að úr er orðin ein allsherjarsvikamylla.

Launþegar búa við það, að á almennum sparifjárreikningum voru hafðar af þeim 20–30 kr. af hverjum 100 sem þeir leggja inn á sparireikning. Ef þeir taka lán eru þau verðtryggð upp í topp, en atvinnurekendur geta hins vegar fengið lán sem þeir græða yfir 30% á á ári sumir hverjir, þeir sem eiga möguleikana á því. Þetta misræmi er algerlega óviðunandi, að sumir geti fengið vildarkjör af þessu tagi á lánum og ef menn kunni á kerfið með þessum hætti geti þeir stórgrætt.

Ég varð ekki var við neina stefnu hjá neinum þeirra sem tóku hér til máls áðan að því er vaxtamálin varðar, hvorki hjá talsmanni Sjálfstfl., Alþb. eða Framsfl., enga stefnu. En stefnan á auðvitað að vera sú í fyrsta lagi, að þegar menn lána peninga til bankanna fái menn sömu verðmæti til baka. Það á að vera grundvallarstefnan. Það er siðferðileg skylda að framfylgja þeirri stefnu og allt annað býður upp á óheilbrigði í fjármálalífi og efnahagslífi. Þess vegna á allt sparifé að vera verðtryggt.

Nú segja talsmenn ríkisstj. stundum að sparifé sé verðtryggt, en það er ekki nema helmingurinn, það sparifé sem er inni á verðtryggðum reikningum, og tæplega það. (Gripið fram í.) Það gildir jafnt hjá öllum, er það ekki? Gamla konan, sem ekki treystir sér til að vera með fé sitt inni á bundnum reikningum vegna þess að hún vill eiga það handbært, hefur hún einhvers konar annars konar skattfrelsi en stofnunin eða sjóðurinn sem kann á verðtryggðu reikningana og getur möndlað með kerfið?

Í annan stað er það svo, að um það bil 3/4 hlutar af innlánum, 1/4 hlutar af þeim peningum sem koma inn í bankakerfið, koma frá launþegum, en þeir fá bara 3/4 af útlánum. Þeir eru sveltir. Menn eru í rauninni að gefast upp við að eignast íbúð. Bankakerfið kemur ekki til móts við menn. Jafnvel þótt þeir eigi — launþegar í heild —3/4 hluta af innlánunum skulu útlánin ekki vera nema að 1/4 til launafólks. Það að launþegar skuli eiga svona stóran hlut í innlánunum skapar þeim rétt til þess að njóta eðlilegrar fyrirgreiðslu í bankakerfinu þegar þeir þurfa á peningum að halda, t.d. til þess að eignast íbúð, eins og við Alþfl.-menn höfum flutt tillögur um þing eftir þing.

Í þriðja lagi verður stefnan að vera sú, að það sé bærilegt samræmi í lánakjörum, en ekki búnar til svikamyllur af því tagi sem ég rakti hér áðan, þegar sumir geta fengið að græða stórlega á því kerfi sem við lýði er.

Og í fjórða lagi verður að haga útlánum og verðtryggingu með þeim hætti að greiðslubyrði launþega af lánum fari ekki fram úr kaupgjaldsþróun. Um þetta hefur Jóhanna Sigurðardóttir, þm. Alþfl., flutt frv. fyrir okkar hönd, sem hefur legið hér fyrir þinginu frá því 12. okt., þar sem gert er ráð fyrir að lánstími lengist þegar greiðslubyrði stefnir upp fyrir þróun kaupgjalds. Þetta eru þau fjögur atriði sem menn verða fyrst og fremst að hafa í huga þegar þeir hyggja að stefnu í vaxtamálum, ef menn ætla að koma hér á heilbrigðu efnahagslífi.

Það er í rauninni fráleitt að hæstv. sjútvrh. skuli segja að framkvæmdin á stefnu efnahagsmála, hvort heldur er í sjávarútvegi eða öðrum greinum skilst mér, sé með þeim hætti, að ef það séu ekki afhentar gjafir af þessu tagi, niðurgreidd lánskjör um helming, muni atvinnulífið stöðvast á Íslandi. Þetta er fyrst og fremst dómur yfir þeirri efnahagsstefnu sem hefur verið fylgt. Hann er að segja: Ef ég fæ ekki að stela 1.8 milljörðum kr. á ári frá sparifjáreigendum, frá launþegum, til þess að afhenda það atvinnulífinu eins og ég hef búið að því, þá fer það á hausinn. — Þetta er það sem hann er að segja. Þess vegna er þetta fyrst og fremst dómur yfir stjórnarstefnunni. Þetta getur aldrei verið partur af stefnu í efnahagsmálum, að menn eigi að haga sér með þessum hætti. Þetta er fyrst og fremst dómur um hvernig stjórnarstefnan sé í reynd. — Og það furðaði mig, að þegar hæstv. fjmrh. stóð upp áðan var hann eingöngu að tala um atvinnulífið og atvinnureksturinn, en hann gleymdi launafólkinu í landinu. Hann talaði ekki um lán til húsbyggjenda, til íbúðaröflunar. (Gripið fram í: Jú, jú.) Ó ekki, vinur, nei, nei, nei, nei. Hann talaði fyrst og fremst um atvinnulífið, lánin til atvinnurekendanna, hvernig þau þyrftu að vera til þess að allt gæti bjargast. Hann var að fella sama dóm og hæstv. sjútvrh. yfir þessari ríkisstj. og stefnu hennar.

En það er kannske athyglisvert að hæstv. sjútvrh. talaði hér m.a. um að byggingarvísitalan væri verri en lánskjaravísitalan, hún drægi lánin enn þá meira upp. En hvernig er framkvæmd ríkisstj. sjálfrar í þessum efnum? Það stendur í lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins að lánin skulu verðtryggð samkv. lánskjaravísitölu, en allt fram á þennan dag hefur það verið framkvæmt með byggingarvísitölu, sem gefur enn þá meiri greiðslubyrði hjá lántakendum hjá Húsnæðisstofnun, hjá venjulegu launafólki, en lánskjaravísitalan. Þarna er nú umhyggjan fyrir launþegunum. Þetta er eini sjóðurinn þar sem fyrst og fremst launþegar eru lántakendur. Þá hafa menn látið það gott heita að það væri sú vísitala sem verst er, byggingarvísitalan, sem væri notuð, ekki lánskjaravísitalan. Svona er nú umhyggjan fyrir launþegunum, svona er umhyggjan fyrir venjulegum almenningi á Íslandi hjá þessari ríkisstjórn!

Herra forseti. Þú beindir því til mín að ég stytti frekar mál mitt. Ég mun þess vegna ekki tala jafnlengi og t.d. hv. síðasti ræðumaður. En ég vil ítreka að stefnan í vaxtamálum getur ekki byggst á því að það sé nauðsynlegt til þess að atvinnulífið komist ekki í greiðsluþrot að launþegar séu stórlega hlunnfarnir, að stolið sé af sparifjáreigendum 36 þús. kr. af hverri 5 manna fjölskyldu á ári, 1.8 milljarð á ári. Hún getur ekki byggst á því. Stefnan í vaxtamálum verður að byggjast á því, að menn séu að koma sér upp heilbrigðu efnahagslífi, að menn viðurkenni að þegar einhver lætur peninga af hendi við bankann eigi hann að fá sömu verðmæti til baka og menn viðurkenni að það megi ekki auka greiðslubyrðina hjá almenningi umfram það sem kaupgjald vex, eins og frv. Jóhönnu Sigurðardóttur og fleiri Alþfl.-manna gefur til kynna. Og það má ekki framkvæma vaxtastefnuna með þeim hætti að misræmið sé svo hrikalegt að menn geti grætt 30% eða 300 þús. af hverri milljón sem þeir fá að láni, eins og núna er, og geti búið sér til svikamyllu í bankakerfinu sem malar þeim gull af því að þeir sitja á réttum stað í þjóðfélaginu, þar sem þeir hafa aðgang að lánum á vildarkjörum. Það er þetta sem skiptir máli, ef menn ætla að hafa hér heilbrigt efnahagslíf.