16.02.1983
Neðri deild: 41. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2073 í B-deild Alþingistíðinda. (1783)

195. mál, viðmiðunarkerfi fyrir laun

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Það er öllum hv. alþm. fullkunnugt að verðbólgan hefur verið höfuðmeinsemd í íslensku efnahagslífi í æðimörg ár. Allir eru sammála um að það þarf að vinna að hjöðnun hennar og helst að útrýma henni að fullu og öllu. Margar tilraunir hafa verið gerðar til þess að ráða niðurlögum hennar. Flestar hafa þær misheppnast. En þó erum við allir sammála um það að eitthvað verður að gera, eitthvað verður að hamla gegn þessum vágesti.

Nú liggur hér fyrir frv. til laga um nýtt viðmiðunarkerfi fyrir laun o. fl. Ég er ekkert hissa þó að menn líti þetta frv. misjöfnum augum. Sínum augum lítur hver á silfrið. En mér er kunnugt um að þetta mál hefur verið æðilengi á dagskrá hjá ráðamönnum þjóðarinnar og þetta frv. er vandlega unnið og undirbúið. Þegar frv. kemur fram af þessu tagi, þurfum við líka að gera aðeins meira en skiptast á skoðunum um efni þess og hvaða tökum við tökum það. Við þurfum líka að gera okkur grein fyrir því að þjóðin fylgist með því sem gerist hér á hv. Alþingi. Að mínum dómi er Alþingi nú í æðimikilli lægð í augum þjóðarinnar. Þetta þurfum við að hafa í huga og taka þess vegna hvert alvarlegt viðfangsefni, sem okkur berst á borð, með nokkuð mikilli alvöru þó að við ræðum það gaumgæfilega. Við þurfum að minnast þess að við megum ekki verða þess valdandi að hér verði „hrafnaþing kolsvart í holti fyrir haukþing á bergi.“ Ég held að við getum öll verið sammála um þetta. Ég ætla ekki að ræða þetta frv. efnislega. Það munu aðrir gera og hafa gert. Ég ætla aðeins að beina þeim tilmælum til hv. alþm. úr öllum flokkum að þeir leggi sig fram um að þetta frv. fái greiða þinglega meðferð, að því verði sem fyrst vísað til n. þar sem það verður athugað vandlega. Síðan getum við séð hver örlög þess verða. Þessum tilmælum vildi ég koma á framfæri við hv. alþm. í fullri alvöru.