16.02.1983
Neðri deild: 41. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2078 í B-deild Alþingistíðinda. (1798)

193. mál, Vestfjarðaskip

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég hefði nú talið að þetta væri samgöngumál og vekur því nokkra undrun að það eigi að fara til fjh.- og viðskn., en látum það gott heita.

Vissulega er það rétt að Vestfirðir eru einangraðir og búa við hvað erfiðastar samgöngur á Íslandi. Ég hygg að á seinustu árum hafi þó orðið jákvæðastar framfarir varðandi samgöngur á sjó með tilkomu þeirrar uppbyggingar sem orðið hefur hjá Skipaútgerð ríkisins. Margt bendir til þess, að ef við lítum svo á að Vestfirðir eigi ekki aðeins að hafa viðskiptaleg tengsl við Reykjavík, heldur einnig við Norðurland, hljóti að vera hagkvæmara að halda uppi heildarsamgöngukerfi fyrir landið allt með ströndum fram og standa þannig að því verki að Skipaútgerð ríkisins verði efld svo að hún geti sinnt sínu hlutverki eins og best verður á kosið.

Ég vil vekja athygli á því að ef Vestfjarðaskip færi frá Ísafirði og svo á Vestfjarðahafnirnar til Reykjavíkur yrði t. d. ein höfn skilin eftir, sem er viðkomustaður í dag, þ. e. í Norðurfirði á Ströndum.

Mér sýnist að við þurfum í þeirri stöðu sem þetta mál er í að athuga fyrst og fremst hvort sú stefna hafi verið raunhæf að farþegaflutningar með skipunum eru nánast úr sögunni, því að það er vissulega rétt, sem hér kemur fram hjá flm., að þessi vetur hefur verið það harður og illviðrasamur að sú samgönguleið, sem mest hefur verið notuð á umliðnum vetrum varðandi farþegaflutninga, þ. e. flugið, hefur átt mjög í vök að verjast. Aftur á móti varð sú breyting gerð á flutningum Skipaútgerðarinnar að farþegaflutningar eru þar nánast úr sögunni. Ég hygg, þó að ég sé ekki sammála flm. um að skynsamlegt sé að taka Vestfirðina eina út úr hvað þetta snertir, að ekki fari milli mála, og ég er sammála því markmiði sem hér kemur fram, að það sé brýn nauðsyn að halda áfram að efla samgöngur við Vestfirði.