02.11.1982
Sameinað þing: 11. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í B-deild Alþingistíðinda. (180)

37. mál, endurskoðun á lögum um fuglafriðun

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég tek undir það með fyrirspyrjanda að lögin um fuglaveiðar og fuglafriðun eru á margan hátt úrelt orðin, en að sumu leyti var bætt úr þessum vanköntum, sem eru á lögunum, með lögum, sem samþykkt voru hér á síðasta þingi, þar sem sektarákvæðin voru mjög mikið hækkuð og færð til samræmis við gildandi verðtag í landinu í því formi að lagt er á vald dómara að ákveða sektir innan þess ramma að sektir verði aldrei hærri en í millj. kr.

En sem aðalsvar við þessari fsp. vil ég að það komi hér fram, að með bréfi dags. 18. oki. 1982 hef ég leitað til Búnaðarfélags Íslands og Náttúrufræðistofnunar Íslands, Skotveiðifélags Íslands og Lögfræðingafélags Íslands um að tilnefna einn fulltrúa hvert í nefnd til að endurskoða lögin um fuglaveiðar og fuglafriðun, en formann mun svo ráðh. skipa án tilnefningar. Í þessu bréfi er tekið fram, að æskilegt sé að þeirri skipan verði komið á að þeir sem búa í þéttbýli og hafa ekki aðgang að veiðilöndum eigi þess kost að kaupa leyfi til fuglaveiða.

Ég held að ég hafi reyndar ekki ástæðu til að svara þessu öðruvísi en svona. Ég tel að eðlilegt sé að athuga með hvaða hætti þessi lög verða nú tekin fyrir til endurskoðunar að nýju. Sú nefnd, sem fjallaði um þetta, vann að sjálfsögðu mjög gott verk og skilaði af sér frv., sem margir þm. muna vafalaust eftir að hefur verið lagt hér fram ár eftir ár, en aldrei náð fram að ganga. Ég held því, að það hafi verið eðlilegt að skipa nýja nefnd í þetta. Sú nefnd mun fljótlega komast á laggirnar og frv. að nýjum lögum um fuglaveiðar og fuglafriðun eða frv. um breytingar á gildandi lögum verður lagt fyrir þing, þegar þessi nefnd, sem nú mun fljótlega hefja störf, hefur lokið verki sínu.