17.02.1983
Sameinað þing: 54. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2097 í B-deild Alþingistíðinda. (1807)

186. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. 10. þm. Reykv. fyrir þau orð sem hann lét hér falla um þessa þáltill. Hann er vel kunnugur þessum málum vegna setu sinnar í Rannsóknaráði ríkisins og í framkvæmdanefnd ráðsins og þess vegna eðlilegt að hann taki þátt í þessum umr. og leggi þar gott til. Ég sé einnig ástæðu til að þakka Rannsóknaráði ríkisins, sem ég er reyndar vegna stöðu minnar formaður í, og ekki síst framkvæmdanefnd þess fyrir ákaflega gott samstarf við mig og mitt rn. um þessi mál. Ég hygg að óhætt sé að segja að af hálfu ráðsins og þeirra manna sem þar vinna daglega að málum sé reynt að kynna sem allra best hlutverk og starfsemi ráðsins og ég efa ekki að náðst hefur mjög mikill árangur í þeim efnum.

Hitt er annað mál, að það kann að vera að enn sé erfitt að vekja almennan áhuga alþm. á þessum málum, eins og sjá má af því hversu fámennt er hér nú í hv. þingi. En hvað sem því líður er hér um mikið mál að ræða og ég vil endurtaka það, herra forseti, að mér þætti ákaflega miklu varða að þetta mál fengi lausn á þessu þingi, þ. e. að þessi þáltill. yrði í öllum meginatriðum samþykkt nú, áður en kemur til þingloka, því hér er um mjög mikilvægt mál að ræða. Ég minni enn á það að þetta er í raun og veru framhald af starfi, sem hófst fyrir um það bil 10 árum og hefur eiginlega verið markvisst unnið að síðan, þ. e. að marka það sem við köllum langtímastefnu, þó að það sé reyndar um 5 ára áætlun hverju sinni að ræða, og það væri mjög mikilvægt ef Alþingi gæti lokið þessu máli.

En það sem ég vildi sérstaklega minnast á að nýju er þetta stóra mál sem varðar Flórens-sáttmálann svonefnda, sem fjallar um það að fella niður aðflutningsgjöld og tolla af tækjum til vísinda- og rannsóknarstarfsemi. Þetta er mjög mikilvægt mál og eins og ég gat um í örfáum orðum í ræðu minni er Flórens-sáttmálinn orðinn 33 ára gamall og hefur mjög víða verið staðfestur. Íslendingar hafa þó ekki tekið þátt í því og að því er virðist hefur verið mjög erfitt að ná samstöðu milli ráðuneyta og í ríkisstjórn um þetta mál. Vafalaust er hér um eitthvert fjárhagsmálefni að ræða fyrir ríkissjóð ef þannig er á litið. Hins vegar er alveg jafnljóst að þetta yrði til þess að efla vísindarannsóknir stórlega og að því leyti mundi það draga úr þörf fyrir stórhækkandi fjárveitingar til rannsóknastarfseminnar beint á fjárlögum. Ég vil líka undirstrika það, ég vona reyndar að það hafi komið nógu skýrt fram í minni ræðu hér, að það sem hvað merkast er eða athyglisverðast í sambandi við þá ályktun sem hér er til umr., langtímaáætlun og hugmyndir um hana, er einmitt það að gera rannsóknarstarfsemina óháðari opinberum framlögum en verið hefur og leggja megináhersluna á það að tekjur til rannsóknarstarfseminnar komi frá einkaaðilum og fyrirtækjum. Þarna er um mjög mikilvæga stefnumörkun að ræða, sem ég hygg að sé ástæða til að vekja sérstaka athygli á, enda er um mjög mikilvægt mál að ræða.

Ég vil svo að lokum þakka hv. 10. þm. Reykv. fyrir hans góðu undirtektir undir þetta mál og vænti enn, herra forseti, að málið fái greiðan gang í gegnum þingið.