21.02.1983
Neðri deild: 42. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2118 í B-deild Alþingistíðinda. (1832)

195. mál, viðmiðunarkerfi fyrir laun

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Það hefur áður komið fram að við Alþb.-menn erum andvígir þessu frv. og munum beita okkur fyrir því eins og við framast getum að það nái ekki fram að ganga.

Það er kjarni þessa máls, að frv. þetta er ekki flutt af ríkisstj. Það er ekki samkomulag um efni þessa máls í ríkisstj. og því hefur þetta frv. komið fram á vegum forsrh. persónulega, en nýtur ekki stuðnings stjórnaraðila. Við munum sem sagt beita öllu afli okkar til að koma í veg fyrir að frv. þetta nái fram að ganga og ég hygg að svo muni verða um fleiri sem sæti eiga hér á hv. Alþingi. Ég held að það hafi verið að koma æ betur á daginn seinustu dagana, að frv. þetta nýtur ekki þingfylgis, nýtur ekki fylgis meiri hl. þingsins, og er því óeðlilegt að þetta mál verði til að tefja störf þingsins um of nú á næstu dögum. Ég hygg reyndar líka, að frv. þetta sé fram komið meira til kynningar en það hafi verið raunveruleg von þeirra sem að því standa að það yrði samþykkt hér á hv. Alþingi. Þeir sem að því standa hafa, eins og stundum vill verða, viljað láta það liggja ljóst fyrir hver væri stefna þeirra í þessum umdeildu og umræddu vísitölumálum og því hafa þeir flutt þetta frv. En ég á bágt með að trúa því, að nokkur hafi gert sér von um eða ímyndað sér að frv. þetta gæti haft áhrif á vísitölugreiðslur eða verðbætur á laun um n. k. mánaðamót.

Eins og mörgum er kunnugt verður að reikna út verðbætur á laun með nokkrum fyrirvara fyrir hver mánaðamót til þess að unnt sé að koma greiðslum til viðtakenda í tæka tíð. Þannig stendur á hjá ríkissjóði, að það verður að hefja tölvukeyrslu á launum fyrir hver mánaðamót með a. m. k. einnar viku fyrirvara. Nú stendur svo á, að mánuðurinn sem er að líða er óvenjulega stuttur, 28 dagar, og það er því þegar ljóst og getur ekki verið nokkur minnsti vafi á því, að verðbætur á laun verði ekki reiknaðar 1. mars eftir því kerfi sem hér er gerð tillaga um. Málið er enn til 1. umr. hér á Alþingi. Það á eftir að fara til nefndar. Nefndin á eftir að leita umsagnar um það og fjalla um það með formlegum hætti. Síðan á það eftir að koma hér til 2. og 3. umr. og mjög margir þurfa að segja álit sitt á því. Þar á eftir á málið að fara til Ed. og fá þar umfjöllun, ef það fengi afgreiðslu hér í hv. Nd. En ríkissjóður verður að keyra út sín laun þegar á morgun og getur ekki dregið það deginum lengur. Hefði raunar þurft að hefja útreikning á vísitölubótum og launaútreikningi þegar í dag, ef niðurstaða kauplagsnefndar hefði legið fyrir. Því miður liggur niðurstaða kauplagsnefndar ekki enn fyrir og því er ekki hægt að hefja keyrslu launanna í tölvum Skýrsluvéla fyrr en á morgun, en lengur má það ekki dragast ef laun eiga að greiðast á réttum tíma og í samræmi við gerða samninga. Jafnvel þótt þetta mál væri hér til 3. umr., en ekki 1. umr., væri það alveg jafnvonlaust hvað snertir launaútreikninga um næstu mánaðamót þegar af þessari ástæðu. Málið er sem sagt allt of seint á ferðinni.

Það hefur legið lengi fyrir, að ekki væri samkomulag við Alþb. um þá tillögugerð sem felst í þessu frv. Við sögðum það alveg skýrt og ákveðið þegar á haustmánuðum að við værum ekki reiðubúnir að fallast á þær tillögur sem felast í þessu frv. Þess vegna hefði auðvitað verið hægt að láta reyna á það hér í þinginu löngu fyrr hvort þingheimur væri inni á því að afgreiða málið eða ekki. Það hafa hins vegar farið fram samkomulagsumleitanir um málið og dregist hefur að frá því væri gengið. Það er sem sagt löngu orðið ljóst að frv. getur ekki haft áhrif á launaútreikning 1. mars n. k.

Ég nefndi það hér, að viðræður og samkomulagsumleitanir hefðu farið fram um þetta mál á vegum ríkisstj. um alllangt skeið. Ástæðan fyrir því er auðvitað einfaldlega sú, að það er skoðun allra stjórnaraðila að eðlilegt sé að gera breytingar á núverandi vísitölukerfi. Við Alþb.-menn höfum ekki dregið dul á að við værum alveg reiðubúnir til samkomulags við aðra flokka um breytingar á því kerfi sem í gildi er. En við erum ekki tilbúnir að samþykkja hvað sem er. Við látum ekki segja okkur hvað við séum tilbúnir að samþykkja. Við höfum því haldið fast fram okkar stefnumálum, okkar skoðunum í þessu efni, og höfðum ekki trúað öðru en að samstarfsaðilar okkar í ríkisstj. mundu gera það að niðurstöðu þessa máls sem allir þrír stjórnaraðilar gætu verið sammála um. Það eru auðvitað ekki eðlileg vinnubrögð að knýja einn stjórnaraðila til að samþykkja eitthvað sem hann getur ekki fallist á. Því gat aldrei náðst samkomulag um þær tillögur, sem hér liggja fyrir, og skal ég víkja nánar að því á eftir.

Þetta vísitölumál er býsna sögulegt mál og hefur verið hér til umr. um áratuga skeið, hefur nánast verið aðalumræðuefni í stjórnmálum seinustu 30 árin, og það hefur verið eitt mesta ágreiningsefnið sem finnanlegt hefur verið í íslenskum stjórnmálum. Það eru ófá verkföllin sem háð hafa verið vegna verðtryggingarmála og vísitölumála, vegna viðleitni stjórnvalda til að skammta launafólki minni verðbætur en það hefur átt rétt á.

Ég minnist þess, að það var eitt fyrsta verkið sem viðreisnarstjórnin sáluga, sem kom hér til valda haustið 1959, framkvæmdi að taka verðbætur á laun algerlega út úr kerfinu og vísitöluna algerlega úr sambandi. Þannig var þetta ástand um nokkurra ára skeið. En eftir að reynslan hafði kennt þáv. ríkisstj. að hyggilegt væri að vera í sæmilega góðu samstarfi við verkalýðshreyfinguna varð það ofan á með samþykki þeirrar stjórnar að taka upp verðtryggingu launa á nýjan leik.

Í ríkisstjórninni sem hv. þm. Sjálfstfl. Geir Hallgrímsson myndaði 1974 og Framsfl. og Sjálfstfl. áttu aðild að var einnig reynt að afnema verðtryggingu á laun. Afleiðingin af því varð engin önnur en sú, að kjarasamningar voru gerðir til mjög skamms tíma í einu, stundum ekki nema til þriggja mánaða, stundum fjögurra mánaða. Það voru því endalausar samningalotur, sem ríkisstj. og aðilar vinnumarkaðarins þurftu að heyja, og menn fundu að ef ekkert verðtryggingarkerfi væri væru menn í staðinn fyrir útreikning vísitölu á þriggja mánaða fresti að bjóða upp á kjarasamninga á þriggja mánaða fresti með viðeigandi hættu á verkföllum og vinnudeilum og tapi í undirstöðuatvinnuvegunum vegna þeirrar röskunar sem af því leiddi. Menn sáu því þegar fram liðu stundir, að við svo búið gat ekki staðið, og þó að menn væru ekki ásáttir við verðtryggingu launa fannst mönnum þó skömminni til skárra að semja um það mál og geta þá gert kjarasamninga til a. m. k. hálfs eða eins árs í senn. Þetta varð niðurstaðan.

Staðreyndin er sú, að verðbólga hefur alls ekki verið neitt minni hér á landi þegar vísitala hefur verið tekin úr sambandi en þegar vísitala hefur verið látin mæla til hagsbóta fyrir launafólk í landinu. Það er engin leið að færa rök að því að á þeim árum þegar verðtrygging launa var afnumin með lögum hafi stjórnvöldum gengið eitthvað betur í baráttunni við verðbólguna. Því miður sýnir reynslan það alls ekki. Menn munu áreiðanlega minnast þess, að einmitt í kjölfar þess að verðtrygging launa var afnumin á árinu 1974 var hér gífurleg verðbólga á árunum 1975 og 1976. Það eina sem gerðist var ósköp einfaldlega það, að launafólkið í landinu dróst verulega aftur úr þeirri verðþróun sem átti sér stað á sama tíma. Kaupmáttur launa féll verulega á árunum 1975 og 1976. Þá lækkaði kaupmáttur um u. þ. b. 20% og á vissu skeiði allt að 25%. Og hvernig átti öðruvísi að fara þegar verðlag æddi áfram vegna ríkjandi aðstæðna og lítill hemill var hafður á því, en það eina sem ekki mátti mæla var sú vísitöluuppbót, sú verðtrygging, sem launafólk átti kröfu á að fá á sín laun? Þá hlaut afleiðingin að verða sú, að launafólkið drægist aftur úr, jafnvel þótt forustumenn verkalýðshreyfingarinnar hefðu sig alla við að reyna að halda kaupmættinum uppi með því að gera kjarasamninga til eins stutts tíma í einu og nokkur kostur var. Það færðust sem sagt mikil illindi í kjarabaráttuna og það var ekki fyrr en á árinu 1977 sem kaupmátturinn treystist á nýjan leik og samið var á nýjan leik um vísitölukerfi.

Nú má að vísu til sanns vegar færa að hér er ekki verið að afnema verðtryggingu launa. Ekki skal því haldið fram að það felist í þeirri till. sem hér liggur fyrir í frv.-formi. En mergurinn málsins er sá, að hér er um svo viðkvæmt mál að ræða, mál sem snertir svo hag alls almennings í landinu, að það er útilokað að frá því sé gengið nema aðilar vinnumarkaðarins komi þar við sögu og samþykki þá breytingu sem tillögur eru uppi um að gera.

Ég hef nefnt það þegar og vil ítreka það, að ég er alls ekki sáttur við vísitölukerfið eins og það er nú. Ég gæti gert ýmsar tillögur um bætt vísitölukerfi. Ég er í fyrsta lagi mjög eindregið samþykkur því, að nýr vísitölugrundvöllur sé tekinn upp. Satt best að segja kynni það að verða niðurstaðan af umr. um þetta vísitölumál hér í þinginu að samstaða tækist milli meiri hluta þm. um að taka upp nýjan vísitölugrundvöll, taka það upp úr þessu frv. sem nýtilegt er og gagnlegt, en sleppa því sem grundvallarágreiningur er um og engin samstaða um að verði hér afgreitt á þeim fáu dögum sem eftir eru til þingloka. Ég held að það sé ófært með öllu að láta núverandi vísitölugrundvöll standa öllu lengur. Hann er úreltur, hann er mjög gamaldags og satt að segja mesta furða það langlundargeð sem verkalýðshreyfingin hefur sýnt að krefjast ekki breytinga á vísitölugrundvellinum fyrir langa löngu.

Annað atriði, sem ég mundi vilja benda sérstaklega á en er nú alls ekki í þessu frv., er sú spurning, hvort á að greiða hlutfallslegar verðbætur á öll laun. Það er gamalt og ég vil segja gott deilumál vegna þess að það vantar mikið á að vakin sé nægilega athygli á því í þessum umr. að það kæmi svo sannarlega til greina að breyta þar einhverju. Er eðlilegt þegar kartöflur hækka í verði, við skulum segja að þær tvöfaldist í verði og vísitala hækkar af þeim sökum um ákveðna prósentu, — er þá eðlilegt að hálaunamaðurinn, sem hefur fjórum sinnum þær tekjur sem vísitölufjölskyldan hefur, fái fjórfalda vísitöluuppbót vegna þessarar hækkunar á kartöflunum? Engum dettur í hug að hann ætli sér og hans fjölskylda að borða fjórfaldan kartöfluskammt á við vísitölufjölskylduna eða verkamannafjölskylduna, en staðreyndin er nú samt sú, að vegna slíkrar hækkunar á kartöflum fengi sá maður, sem hefur t. d. fjórfaldar verkamannatekjur, fjórfaldar bætur vegna þessarar breytingar á kartöfluverðinu.

Á hinn bóginn eru ákveðin atriði sem mæla með því að allir fengju ákveðnar lágmarksbætur þegar verðtrygging launa er útreiknuð. Það mætti sem sagt hugsa sér, að það væri bæði sett gólf og þak á vísitöluna og í vísitöluna, þannig að allir fengju ákveðið lágmark, sem væri vísitölubætur á laun, sem væru dálítið yfir lægstu launum, og á hinn bóginn mætti hugsa sér að það væri sett þak á vísitölugreiðslur þannig að enginn fengi hærri krónutölu en sem næmi ákveðnu hámarki. Því miður er það hins vegar svo, að það hefur nú ekki tekist samkomulag um að haga þessu á þennan veg, enda þótt ýmsir telji að svo ætti að vera, og ég vek sérstaklega athygli á að Verkamannasamband Íslands hefur margsinnis verið með tillögugerð í þá átt að hafa bæði gólf og þak á vísitölunni, en það hefur fyrst og fremst strandað á vinnuveitendum, að þeir samþykktu að fallast á slíkt fyrirkomulag. Það er Vinnuveitendasamband Íslands sem fyrst og fremst hefur staðið gegn því að takmörk væru sett upp á við á vísitölugreiðslur. Ég vil vekja á því athygli í þessu sambandi, að í tilboði, sem fjmrn. sendi BSRB í maímánuði 1980, í fyrstu kjarasamningunum sem ég átti aðild að við opinbera starfsmenn, þá gerðum við þeim einmitt tilboð um að í vísitölunni væri ákveðið gólf, þannig að þeir lægst launuðu fengju meiri vísitölubætur en þeir ættu kannske rétt á, ef hlutfallslega væri reiknað, og á hinn bóginn fengi enginn meiri vísitölubætur en sem næmi hlutfalli verðtryggingar á meðallaun eða á laun sem væru í efri kanti meðallauna.

Herra forseti. Ég hef vakið hér athygli á því, að margt er hér að skoða, sem þetta mál varðar, og ég hef þegar nefnt tvennt, sem væri alveg sérstök ástæða til að ræða í þessu samhengi. En ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð neitt óhóflega mörg eða ræðu mína óeðlilega langa. Ég hef vakið athygli á því, að það er útilokað með öllu að mál þetta geti komið til framkvæmda 1. mars þegar af þeirri ástæðu að það verður að hefja útreikning launanna helst í dag, en ef ekki í dag, þá á morgun. Það var löngu fyrir fram vitað. En ef ræða á málið að öðru leyti, hvað á að gera í sambandi við breytingar á vísitölu, getur svo margt annað komið til greina en það sem nefnt er í þessu frv. sérstaklega. Félmrh., formaður Alþb., Svavar Gestsson, gerði hins vegar að umtalsefni alla meginþætti þessa frv. og afstöðu okkar til þess og ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða þá um málið að svo stöddu, en áskil mér að sjálfsögðu rétt til að taka frekari þátt í þessum umr. á síðara stigi, ef mér sýnist svo. En ég vildi sérstaklega koma þeim sjónarmiðum á framfæri sem ég hef nú gert að umtalsefni.