02.11.1982
Sameinað þing: 12. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 331 í B-deild Alþingistíðinda. (198)

Umræður utan dagskrár

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Umræður þær, sem hér hafa farið fram í gær og í dag í tilefni af fyrirspurnum hv. 1. þm. Reykn., Matthíasar Á. Mathiesen, hafa leitt í ljós slíkan leikaraskap og loddaraleik hæstv. ráðh. og ríkisstj. í heild að fá eða engin dæmi eru til slíks. Auðvitað var það og er augljóst, að ráðherrar og ríkisstj. í heild vissu nákvæmlega hvað Seðlabankinn hafði í hyggju. Fyrir ríkisstj. og einstökum ráðh. var í þeim efnum engu leynt, enda er ráðherrum í lófa lagið að stöðva ákvörðun Seðlabankans ef þeir vildu ekki að hún næði fram að ganga. Ef ríkisstj. hefði tekið afstöðu á fundi sínum s.l. fimmtudag gegn tillögum bankans hefði Seðlabankinn ekki tekið þá ákvörðun sem hann síðan gerði að sinni.

Það eru dæmi til þess áður, að Seðlabankinn hafi án bókstaflegs samþykkis ríkisstj. samþykkt vaxtahækkun. Það gerðist undir líkum kringumstæðum og nú eiga sér stað á árinu 1974. Þá var Lúðvík Jósepsson í ríkisstj. og hann muldraði eitthvað í barm sér um þessa ákvörðun Seðlabankans, en ríkisstj. leiddi ákvörðunina hjá sér að öðru leyti vegna þess að ríkisstjórnarfleyið var stjórnlaust rekald þá eins og nú.

Skýringin á þessu háttalagi ráðherranna og ríkisstj. er blátt áfram sú, að ráðherrar og ríkisstj. eru að fela sig á bak við Seðlabankann af því að þeir þora ekki sjálfir að taka ákvörðun, af því að ágreiningur er meðal þeirra um stefnuna sem taka ber í þessum efnum. Þá greinir á í þessum efnum, annars vegar hæstv. viðskrh. og hæstv. utanrrh. og hins vegar hæstv. sjútvrh. úr hópi framsóknarmanna. Þá greinir á í þessum efnum, hæstv. fjmrh. annars vegar og hæstv. félmrh. hins vegar úr hópi Alþb. Það átti að reyna að leyna þessum ágreiningi og varpa allri skuldinni yfir á Seðlabankann. Þetta er út af fyrir sig afskaplega lítilmannleg framkoma. Og það er fjarri sanni að mínu mati að Seðlabankinn sé að taka ráðin af ríkisstj. Ríkisstj. afhenti Seðlabankanum ráðin og beinlínis ýtti undir hann að taka ákvörðun í þessum efnum, enda hefur ríkisstj. haft frá því 10. ágúst s.l. og fram til þessa dags eða raunar fimmtudagsins var tillögur Seðlabankans í þessum efnum.

Það er svo vert að vekja athygli á þeirri yfirlýsingu Steingríms Hermannssonar, hæstv. sjútvrh., hér í gær að hann mundi taka þetta mál upp á ríkisstjórnarfundi nú í morgun. Við höfum saknað hæstv. sjútvrh. í umræðunum í dag. Það er fullkomin ástæða til þess að spyr ja hann um hvaða undirtektir málflutningur hans fékk í ríkisstj. í morgun. Hann lét að því liggja að Seðlabankinn hefði ekki heimild til að ákveða vaxtahækkun afurðalána, svokallaðra viðbótarlána, eða/og almennra rekstrarlána atvinnuveganna vegna þess að það gilti það sama um vaxtaákvörðun þeirra og vaxtaákvörðun endurkeyptra afurðalána. Það er fróðlegt að kynnast því hvort aðrir ráðh. eru sammála og efni til annarra utandagskrárumræðna að spyrja hæstv. sjútvrh. um úrslit mála hans á ríkisstjórnarfundi í morgun.

Það er einnig ástæða til að spyrja framsóknarmennina nánar um þessa loðmullulegu samþykkt þeirra um vexti og lánskjaravísitölu, sem þeir gerðu á þingflokksfundi í gær, þegar þessi hrina í ákvörðunum er um garð gengin. Hér var spurt áðan: Var hæstv. viðskrh. á þessum fundi þingflokks framsóknarmanna? Þessi ályktun stingur mjög í stúf við þá tillögu sem hæstv. viðskrh. telur sig hafa flutt í ríkisstj. og er m.a. þar til meðferðar. Þessi ályktun stingur mjög í stúf við verðtryggingarstefnu hæstv. utanrrh., Ólafs Jóhannessonar, sem er höfundur svonefndra Ólafslaga, þar sem mörkuð var verðtryggingarstefna, ekki eingöngu af hæstv. utanrrh. heldur og af hæstv. ráðherrum Alþb., sem voru allir, ef ég man rétt, þá ráðherrar í ríkisstjórninni sem bar ábyrgð á Ólafslögum og þeirri vaxta- og verðtryggingarstefnu sem í þeim lögum var mörkuð. Það er ástæða til þess að spyrja hæstv. sjútvrh. nánar út í þessa ályktun sem og ekki síst hv. 3. þm. Austurl., formann bankaráðs Seðlabankans, Halldór Ásgrímsson. Ég aðvara því hæstv. forseta Sþ., að málið er engan veginn tæmt þó margar ræður hafi verið fluttar því að slíkur er tvískinnungur hæstv. ríkisstj. og einstakra ráðh., slíkur er leikaraskapur þeirra og loddaraleikur að þeir þurfa að standa nánar reikningsskil orða sinna og gerða.

Ég gat þess að tillögur Seðlabankans hefðu verið til meðferðar í ríkisstj. í tvo og hálfan mánuð. En það er rétt að vekja athygli á því, að fyrir tveimur og hálfum mánuði hljóðuðu tillögur Seðlabankans um 6% vaxtahækkun, en nú eftir tvo og hálfan mánuð, þegar mátið var á lokastigi í umræðu milli Seðlabanka og ríkisstj., hljóðuðu tillögur Seðlabankans um 9% hækkun vaxta. Tillögur Seðlabankans á tveggja mánaða tímabili hækkuðu sem sagt um 50%. Þetta er dómur Seðlabankans um verðlagsþróunina í landinu á tveggja mánaða tímabili og það tilefni sem hún gefur að mati bankans til vaxtahækkunar. Að vísu dró Seðlabankinn í ákvörðun sinni um vaxtahækkun úr seinni tillögunni um 1%, þannig að almennast var að útlánavextir hækkuðu um 8%. Er nú svo komið að úflánavextir eru 47–53%, hafa hækkað um 50–60% í tíð vinstri stjórnar frá hausti 1978. Eins og kunnugt er hefur það verið í stjórnarsáttmála þeirrar stjórnar og einkum og sér í lagi stefnuskráratriði Alþb. að lækka skyldi vexti, en þeir hafa hækkað um 50–60%. Og þótt þeir hafi hækkað um 50–60% ná þeir þó ekki kröfum Ólafslaga um að vextir skuli fylgja verðbólgu. Verðbólgustigið er nú að mati Seðlabankans, í gögnum sem hann hefur afhent ríkisstj. ásamt þessum till., 65%.

Hér er einnig margt fleira sem ástæða er til að vekja athygli á. Enn sem fyrr er misræmi milli venjulegra útlánavaxta og verðtryggðra vaxta. Þetta misræmi skapar auðvitað mismunun á milli þeirra sem njóta venjulegra útlánavaxta, sem eru þó ekki lægri en 50%, og verðtryggðra vaxta, sem eru 65%. Enn er aukið misræmið milli svokallaðra endurkeyptra afurðalána, sem enn bera 29%, og annarra afurðalána eða atvinnuvegalána, sem bera 47–53% vexti, að ekki sé talað um verðtryggingu upp á 65%. Hér gætir einnig mikillar mismununar milli einstakra atvinnuvega, eins og t.d. sjávarútvegs og landbúnaðar annars vegar og iðnaðar hins vegar, og er þó enginn ofsæll af þeim gjöldum og vöxtum sem hver atvinnuvegur þarf að greiða.

En þegar rætt er um misræmið milli. enn óbreyttra endurkeyptra afurðalána, sem bera 29% vexti, og spurt hvaða aðilar eigi að bera mismuninn sem er á milli þeirra og innlánsvaxta, sem eru e.t.v. 44–45%, að maður taki ekki verðtryggð innlán til samanburðar, þá er þeirri spurningu ósvarað. Það hlýtur að vera gengið á fé bankanna eða seðlaprentun aukin með þeirri afleiðingu að verðbólgan magnast enn.

Hæstv. ráðh. hafa lýst því yfir að lánskjaravísitalan mæli meiri hækkun en nemur launahækkunum í þjóðfélaginu og því sé það óbærilegt fyrir launþega að standa undir verðtryggðum lánum. Undir það skal tekið að slík er þróunin, en í þessu felst auðvitað viðurkenning stjórnarherranna á því, að þeir hafa æ ofan í æ skert verðbætur á laun, skert laun almennt, enda væri ella ekki um það að ræða að lánskjaravísitalan mældi meiri hækkun en launahækkunum nemur.

Eins og kunnugt er miðast lánskjaravísitalan annars vegar við framfærsluvísitölu að 2/3 og hins vegar við byggingarvísitölu að 1/3, og því er út af fyrir sig ljóst af þessu að stjórnarherrarnir, sem lofuðu að halda samningunum í gildi og töluðu um að kosningar væru kjarabarátta, hafa þannig svikið loforðin að eigin sögn.

Stjórnarherrarnir hafa og sagt að verðtrygging hafi gengið sér til húðar. En það var síðast nú fyrr á þessu ári að stjórnarherrarnir voru að miklast af ágæti sínu vegna þess að þeir hefðu gefið sparifjáreigendum kost á þriggja mánaða verðtryggðum innlánsreikningum. Það er út af fyrir sig góðra gjalda vert, en það verður að skoða báðar hliðarnar í einu. Þeir sem fá verðtryggingu innlána sinna fá þá verðtryggingu greidda af þeim sem fá lánið til afnota um tíma, og þeirra er gjaldabyrðin að greiða verðtrygginguna í 65% verðbólgu.

Sannleikurinn er sá, að öll þessi mál sýna og sanna að við erum komin í algjört öngstræti. Við erum komin í strand. Þetta er gjaldþrotayfirlýsing núv. ríkisstj. vegna þess að hækkun vaxta og þessi háa verðtrygging er fyrst og fremst afleiðing, sjúkdómseinkenni, þeirrar stefnu sem ríkisstj. hefur fylgt. Það þarf gagngera uppstokkun og skipulags- og kerfisbreytingu í þessum efnum og við sjálfstæðismenn höfum bent á nokkur atriði er að því lúta.

Við teljum að breyta eigi viðskiptum á milli Seðlabanka annars vegar og viðskiptabanka hins vegar. Nú sem stendur eru viðskiptabankarnir taldir vera í um þúsund milljón króna yfirdrætti í Seðlabankanum. Þar á móti kemur að vísu einhver innistæða hjá þeim í Seðlabankanum vegna innlánsbindingar. En sú innlánsbinding átti, sem kunnugt er, að standa á bak við myndun gjaldeyrisvarasjóðs og endurkaup á afurðalánunum. Við sjálfstæðismenn höfum bent á að rétt væri að breyta endurkaupum á afurðalánum og fella niður innlánsbindinguna til að fjármagna afurðalánin og til að fjármagna nauðsynlegan gjaldeyrisvarasjóð. Við viljum að viðskiptabankarnir sjái í stað þess sjálfir um lánin til atvinnuveganna og séu sjálfir ábyrgir að lána ekki meira eigið fé, en gjaldeyrisstöðu og stjórn peninga í umferð verði fremur séð farborða með bindingu fjármagns viðskiptabanka í hlutfalli við útlán þeirra en innlán.

Varðandi stefnu í vaxta- og verðtryggingarmálum er ekki unnt að taka ákvörðun um hæð vaxta eða fylgi við verðtryggingu til meðferðar út af fyrir sig. Það verður aðeins gert í tengslum við aðrar ákvarðanir í efnahagsmálum þjóðarinnar. Forsenda þess að heilbrigt efnahagslíf þróist er að sparnaður eigi sér stað. Sparifjármyndun verður að standa undir fjárfestingu í þjóðarbúinu og vera nægileg til þess að sjá fyrir rekstrarfjárþörfum, ef vel á að vera, þótt óhjákvæmilegt sé þegar um arðbærar framkvæmdir er að ræða, að taka erlend lán, sem nú eru orðin þó svo mikil að ekki verður lengra gengið á þeirri braut, eins og kunnugt er.

Það hefur nýlega verið upplýst að þróun sparnaðar er slík, að í stað þess að hann var fyrr örfáum árum — mig minnir tveim árum — 25% af þjóðarframleiðslunni er hann minni en 19% af þjóðarframleiðslunni nú. Þetta er afleiðing rangrar efnahagsstefnu. Skýring seðlabankastjóra var sú, að þessi minnkun sparnaðar ætti sér ekki síst sína skýringu í því að sparnaður innan atvinnufyrirtækja, innan atvinnuveganna, hefði minnkað. Hvers vegna hefur sparnaður í atvinnufyrirtækjunum og atvinnuvegunum horfið? Það er vegna verðbólguþróunar fyrst og fremst. Það er vegna óraunhæfrar verðlagsstefnu og stefnu í verðlagsmálum. Það er vegna aukinnar skattbyrði sem þessi ríkisstj. ber ábyrgð á.

Það má rek ja sömu ástæður fyrir því að dregið hefur úr auknum sparnaði einstaklinga og bæta þar við kaupskerðingunum, sem eru staðreynd í tíð þessarar vinstri stjórnar og fyrri. En þær kaupskerðingar hafa þó ekki dugað í baráttu gegn verðbólgu, heldur orðið einhliða lífskjaraskerðing launþeganna án þess að koma heildinni að gagni og þeim sjálfum til lengdar.

Auðvitað hlýtur að vera nauðsynlegt til lengdar að sparifjáreigendur og sparendur almennt séu öruggir um að sparifé þeirra sé jafnmikils virði þegar á þarf að halda og þegar það myndaðist. En til viðbótar þarf tvennt að koma til: Einstaklingar og fyrirtæki þurfa að eiga eitthvað afgangs eftir útgjöld líðandi stundar til að spara og einstaklingar og fyrirtæki, sem þurfa á lánsfé að halda, verða að geta greitt fjármagnskostnaðinn, vexti eða verðtryggingu.

Það er útilokað, hvernig sem á það er litið, að fyrirtæki og atvinnurekstur eða einstaklingar eða húsbyggjendur geti staðið undir 40, 50, 60% vöxtum eða fjármagnskostnaði. Slíkt er vonlaust. Í þessu felst gjaldþrot efnahagsstefnu núv. ríkisstj.

Það er alveg augljóst og jafnvíst, að sparnaður hverfur og fer í tafarlausa eyðslu ef sparendur hafa ekki tryggingu fyrir verðmæti sparnaðar síns. Við erum þess vegna ekki eingöngu í stjórnmálalegri sjálfheldu, svo notuð séu orð hæstv. forsrh., heldur í efnahagslegri sjálfheldu. Við erum strand. Og verðbólgan er höfuðmeinið. En í baráttunni gegn verðbólgunni hefur ríkisstj. gefist upp.

Ríkisstj. sem hefur gefist upp er gjarnan þeim einkennum gædd, sem við höfum heyrt hér af hálfu hæstv. ráðherra, að spyrja hvað stjórnarandstaðan vill. Ég hlýt að undirstrika, að ríkisstj. sem þarf að spyrja stjórnarandstöðu hvernig á að stjórna landinu er auðvitað sjálf þrotin öllum ráðum og á þegar af þeirri ástæðu að fara frá. En við höfum hér lýst því af hálfu sjálfstæðismanna hvað þurfi að breytast til þess að við komumst af strandstað og stefnan sé mörkuð til betri lífskjara. Hér þarf með alhliða og samræmdum efnahagsaðgerðum að koma á jafnvægi, en ekki að segja eitt í dag en annað á morgun, gera eitt í dag og annað á morgun.

Ég minni á að fyrir viðreisn ríkti vöruskortur og jafnvel skömmtun. Fyrir viðreisn ríkti hér gjaldeyrisskortur og gjaldeyrir var seldur á svörtum markaði, eins og nú ríkir fjármagnsskortur og peningar eru leigðir á svörtum markaði. Við verðum að afmá þessa smán, sem núv. ríkisstj. ber ábyrgð á og hefur leitt yfir þjóðina, með endurreisn í líkingu við viðreisnina fyrr.