28.02.1983
Neðri deild: 46. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2327 í B-deild Alþingistíðinda. (2071)

206. mál, stjórnarskipunarlög

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Allt frá því að umr. um kjördæmamálið fóru að færast inn á alvarlegra og mótaðra stig varaði ég eindregið við því að menn slitu úr samhengi kjördæmamálið og stjórnarskrárbreytingarnar. Ég óttaðist það, að sá hvati, sem breytingarnar á kjördæmamálinu yrðu til þess að knýja á um stjórnarskrárbreytingarnar, sá hvati, sem það mál og lausn þess yrði í sambandi við stjórnarskrármálið, mundi glatast ef kjördæmamálið yrði slitið úr samhengi. Það hefur því miður gerst nú, að þessi tvö mál hafa verið slitin úr samhengi. Frv., sem nú liggur fyrir, fjallar eingöngu um tvö veigamikil atriði að vísu og má segja með rétti að þar náist nokkur jöfnuður á milli flokka í sambandi við vægi atkvæða svo og jöfnuður á milli kjördæma. Ég hef hins vegar ætlað mér þann rétt að gera aths. við þessa afgreiðslu málsins, vegna þess einfaldlega að ég tel nú orðið svo tímabært að breyta stjórnarskrá íslenska lýðveldisins að það megi ekki bíða miklu lengur. Ég tel að þær stjórnarskrárbreytingar, sem nauðsynlegt er að gera nú, séu þess eðlis að eftir þeim megi ekki bíða í 8 ár eða 12 ár í viðbót, eins og nú stefnir í og allt bendir til að verði gert.

Ég vil strax, herra forseti, taka það fram, að ég er persónulega andvígur því að stefnt verði að tvennum kosningum með skömmu millibili. Ég lít svo til, að það frv. sem hér liggur fyrir sé ekki þess eðlis og ekki það stórt í sniðum að það réttlæti tvennar kosningar með skömmu millibili, sem munu hafa þau áhrif og valda því jafnframt að hér verður vart komin starfhæf ríkisstjórn fyrr en í ágúst-sept. á næsta hausti. Satt best að segja tel ég hvorki þm., þing né landið hafa efni á því að bíða eftir starfhæfri ríkisstjórn í svo marga mánuði.

Það sem ég hef lagt höfuðáhersluna á af stjórnarskrárbreytingunum er í fyrsta lagi 1. gr. í till. um endurskoðun stjórnarskrárinnar, sem fram hefur komið, þar sem fjallað er um að stjórnarskráin skuli orðast svo, að Ísland sé frjálst og fullvalda ríki og lýðræði, þingræði og jafnrétti séu grundvallarreglur stjórnskipunar Íslands. Ég tel ákaflega mikilvægt að þetta komi sem allra fyrst inn í nýja stjórnarskrá.

Annað atriði vildi ég nefna. Það er ákvæði um stuðning við ríkisstj., þ. e. að ríkisstj. skuli njóta meiri hl. Alþingis eða hlutleysis. Ég held að þeir atburðir sem hafa orðið hér á þingi frá því í ágúst s. l. færi okkur heim sanninn um að það er mjög mikils virði að þetta ákvæði komi inn í nýja stjórnarskrá sem allra fyrst.

Ég vil í þriðja lagi nefna, herra forseti, þingrofsréttinn. Ég tel að núv. ríkisstj. og slímuseta hennar sýni okkur og sanni að það verður að koma fram breyting á þingrofsréttinum og eins og segir í tillögum Alþfl.-manna við 23. gr. till. stjórnarskrárnefndar: „Forseti lýðveldisins getur rofið Alþingi, ef Alþingi samþykkir till. þar um.“ Þetta færir Alþingi mikinn rétt í þessu máli. Þetta styður þingræðið og eflir það og á því er einnig mikil nauðsyn.

Ég vil ennfremur í fjórða lagi minna á heimild til útgáfu brbl., þar sem Alþfl. hefur í tillögum stjórnarskrárnefndar lagt til að greinin falli niður úr stjórnarskránni, en aðrir nm. hafa lagt til að greinin hljóðaði í þessa veru, með leyfi forseta: „Þegar brýna nauðsyn ber til, getur forseti að tillögu ráðherra gefið út brbl. milli þinga.“ Þetta dregur strax úr rétti ríkisstjórna til útgáfu á brbl., og útgáfurétt brbl. ber að þrengja að mun frá því sem nú er. Þess vegna er þetta ákvæði ákaflega mikils virði.

Í fimmta lagi vil ég geta þess, sem er kannske eitt mikilvægasta atriðið í mínum huga, og það er það ákvæði 29. gr. að Alþingi skuli starfa í einni málstofu. Þetta er gamalt baráttumál Alþfl. og nú síðast flutti Benedikt Gröndal frv. um þetta mál. Ég tel að mikið nauðsynjamál sé að fá þessu framgengt.

Ég vil í sjötta lagi koma að sjálfstæði sveitarfélaga, sem ég tel að sé orðið mjög brýnt að auka, og vísa þá í till. stjórnarskrárnefndar við 56. gr. um að landið skiptist í sveitarfélög, sem ráða sjálf málefnum sínum með umsjón ríkisstj., og að stjórnir sveitarfélaga skuli kjörnar í almennum, leynilegum kosningum.

Ég vitna ennfremur í 58. gr. till., þar sem segir: „Rétti íbúa sveitarfélags til þess að kjósa eftir atkvgr. um málefni sveitarfélagsins skal og skipað með lögum.“

Báðar eru þessar greinar nýmæli og eru mjög mikilvægar, enda hefur Alþfl. flutt tillögur um eflingu sjálfstæðis sveitarfélaga.

Í sjöunda lagi vil ég nefna mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar. Í tillögum stjórnarskrárnefndar, 62. gr., kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Allir skulu njóta frelsis, mannhelgi og jafnréttis að lögum.“

Og í 63. gr. stendur, með leyfi forseta: „Mannréttinda skulu menn njóta án manngreinarálits vegna kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernis, kynþáttar, litarháttar, efnahags eða stöðu sinnar í öðru tilliti.“

Báðar þessar greinar eru nýmæli og það er mjög brýnt að þær komist í nýja stjórnarskrá sem fyrst til þess að tryggja m. a. rétt minnihlutahópa í þjóðfélaginu. Ég vil líka minna á það, að Íslendingar hafa undirritað tvo sáttmála um mannréttindamál, þ. e. Mannréttindasáttmála Evrópu og Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna, en eftir sem áður eru þessi ákvæði ekki í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

Í áttunda lagi tel ég mjög mikilvægt að ákvæði um þjóðaratkvæði verði afgreidd hið allra fyrsta með nýrri stjórnarskrá. Í 82. gr. tillagna stjórnarskrárnefndar kemur fram tillaga um að greinin hljóði á þessa leið, með leyfi forseta:

„Fjórðungur alþingiskjósenda getur óskað eftir því, að fram fari ráðgefandi þjóðaratkvgr. um einstök málefni“ o. s. frv.

Ég að vísu er ósáttur við orðalagið „ráðgefandi þjóðaratkvgr.“ Ég tel að hún eigi að vera bindandi. Þá vil ég, herra forseti, í síðasta lagi, þegar ég vitna til tillagna stjórnarskrárnefndar, nefna till. um ármann Alþingis, þar sem kveðið er á um að Alþingi skuli kjósa fulltrúa, sem nefnist ármaður, en hlutverk hans skuli vera að gæta þess að stjórnsýsluyfirvöld skerði ekki rétt manna í störfum þeirra, og skuli nánar um það fjallað í lögum.

Ég hef verið þeirrar skoðunar, að með því að afgreiða kjördæmamálið eitt og sér séum við raunverulega að sleppa fram hjá okkur tækifæri til að knýja á um stjórnarskrárbreytingar, sem eru mjög mikils virði og þurfa að komast til framkvæmda hið allra fyrsta, vegna þess hve langt er liðið síðan stjórnarskráin hefur verið endurskoðuð og margt hefur breyst á þeim tíma. Ég verð að segja það eins og er, að mér þykir það heldur slök eftirtekja af langri og mikilli vinnu, stífum fundasetum forustumanna fjögurra stjórnmálaflokka, að þegar upp er staðið hefur ekki náðst samkomulag um neitt nema það að fjölga þm. um þrjá og lækka kosningaaldur niður í 18 ár. Þetta er mjög rýr eftirtekja og ég harma hana. Ég hef í þingflokki Alþfl. allt frá því að umr. um þetta mál hófst bent á þetta og talið að það yrði þinginu til vansa ef það afgreiddi kjördæmamálið eitt og sér.

Ég skal hins vegar játa að það frv. sem hér liggur frammi hefur fólgið í sér jöfnuð á milli flokka og það hefur fólgið í sérjöfnuð á milli kjördæma.

Herra forseti. Ég held að ég þurfi ekki að eyða meira af tíma þessa fundar til að gera grein fyrir afstöðu minni til þessa máls. Mig langar þó aðeins í lokin að geta þess, að í pósthólf mitt voru áðan komnar niðurstöður skoðanakönnunar um jafnan kosningarrétt, sem Samtök áhugamanna um jafnan kosningarrétt hafa efnt til. Þetta er eitthvert furðulegasta plagg sem ég hef nokkru sinni fengið í hendurnar. Ég held að hið háa Alþingi ætti að gera kröfu til þess að það þyrfti að jafna rétt landsmanna til skoðanakannana, því að það er auðvitað fyrir neðan allar hellur að slík skoðanakönnun skuli fara fram á tveimur þéttbýlustu svæðum landsins, það skuli ekki vera kannaður hugur annarra landsmanna, dreifbýlismanna svokallaðra, til þessa máls. Ég held að það segi meiri sögu og lengri en mörg orð að það eru ekki nema rúmlega 16% kjósenda í Reykjavík sem svara þessum spurningum. Ég vænti þess að það bendi til þess að Reykvíkingar hafi kannske talsvert vit umfram þessa menn, sem að þessu hafa staðið, og vilji ekki taka þátt í þessum skrípaleik.