01.03.1983
Neðri deild: 47. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2359 í B-deild Alþingistíðinda. (2092)

Um þingsköp

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram. Í ljósi þess sem gerst hefur er sannarlega ástæða til þess að þjóðin fái vitneskju um það hver afstaða hv. þm. almennt er til þessa máls. Það er ekki að ástæðulausu að menn grunar að ríkisfjölmiðlarnir og fjölmiðlarnir almennt talað hafi gefið þá mynd af þessu máli að svo að segja allir þingflokkar og þm. væru um þetta sammála. Það er rangt. Við 1. umr. málsins kom í ljós að meiri hluti þeirra sem tóku til máls við þá umr. eru andvígir þessu frv. Það er því full ástæða til að taka undir og ítreka að þjóðin fái hlutlausa greiningu á því og upplýsingar um það, hver afstaða tiltekinna þm. er til málsins. Og ég tek undir það, að það á ekki bara að útvarpa formlegum umr. hér frá Alþingi, það á þá að útvarpa fundinum sem heild þegar umr. eiga sér stað. Það eiga ekki bara einhverjir tilkvaddir eða valdir ræðumenn hinna pólitísku flokka eða hugsanlegs Bandalags jafnaðarmanna að fá að ráða hér ferðinni eða umr. Þeir sem vilja taka þátt í frjálsum umr. um málið eiga að fá að tjá sig og hver sem sú skoðun er sem tiltekinn þm. hefur á hún að ná eyrum þjóðarinnar. Undir þetta tek ég ekki að ástæðulausu, því að mér hefur fundist að fjölmiðlar almennt talað gæfu þjóðinni mjög svo ranga mynd í frásögnum og upplýsingum af því hver afstaða þm. til þessa máls væri. Þetta mál er þess eðlis, að ekki er síst ástæða til þess að þjóðin sem heild fái að hlýða á umr. og vita hver afstaða tiltekinna þm. er.