03.11.1982
Neðri deild: 7. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í B-deild Alþingistíðinda. (212)

Um þingsköp

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ástæða þess að ég kveð mér hér hljóðs um þingsköp er sú, að í umr. utan dagskrár í gær í Sþ. var því margítrekað beint til hæstv. forseta Sþ. að hann beitti sér fyrir því að 15. mál, sem lagt var hér fram í Nd. Alþingis, yrði tekið til umr. vegna þess að um það mikið og stórt mál væri að ræða að skipt gæti nánast sköpum fyrir stóra hópa í þjóðfélaginu, þ.e. um breytingu á lánskjaravísitölunni.

Ástæðan fyrir því að þetta er tekið upp sérstaklega er sú, að í umr. sem áttu sér stað utan dagskrár var því lýst yfir, bæði af hæstv. félmrh. sem formanni Alþb. og hæstv. fjmrh. sem háttsettum aðila í þeim herbúðum líka, að sá flokkur hefði miklar áhyggjur af því ef ekki yrði gerð breyting í þessum efnum. Ég skildi þá samþykkt þingflokks framsóknarmanna svo, sem að vísu var að ég heyrði við upplestur hálfgert hrófatildur, en ég skildi hana eigi að síður svo að því er þennan þátt varðaði, að þingflokkur framsóknarmanna væri einnig sammála því og styddi að efnisatriði frv. næðu hér fram að ganga. Þetta skiptir líka miklu máli í tengslum við það sem hugsanlega kann að gerast 1. des. n.k., þ.e. þegar kjaraskerðingaþáttur brbl. á að taka gildi.

Ég spyr því hæstv. forseta hvort honum sé um það kunnugt að hæstv. forseti Sþ. hafi gert tilraunir til að beina þessu máli inn á brautir umr. fyrr en mér sýnist gefið til kynna á dagskrá þessa fundar í dag.