02.03.1983
Neðri deild: 48. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2450 í B-deild Alþingistíðinda. (2227)

77. mál, útvarpsrekstur

Flm. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég skal tala örstutta stund.

Það er athyglisvert, sem kemur fram hjá hæstv. ráðh., að hann virðist vera stuðningsmaður meginstefnu frv. sem útvarpslaganefnd samdi á sínum tíma. Hann lýsir því jafnframt yfir að hann hafi ekki fengið stuðning í ríkisstj. og ekki í sínum flokki. Það þykir mér athyglisvert með tilliti til þess, að Markús Á. Einarsson, formaður útvarpslaganefndar, er einn af varaþm. Framsfl.

Varðandi Video-son vil ég segja það, af því að hæstv. ráðh. efaðist um að þetta fyrirtæki fengi leyfi til að reka sína starfsemi, að samkv. tillögum útvarpslaganefndar eru það sveitarfélögin sem hafa fyrst og fremst ráðstöfunarrétt á slíku og það er á grundvelli afstöðu þeirra sem útvarpsréttarnefnd hefði veitt leyfið. Það liggur fyrir að Reykjavíkurborg hefur samþykkt starfsemi Video-son, sem ugglaust stríðir gegn íslenskum lögum, þannig að það eru miklar líkur á að starfsemin hefði fengið að vera í friði að mínu áliti. En það finnst mér furðulegt. að eftir þrjú ár, sem það fyrirtæki hefur fengið að starfa, skuli, í stað þess að fylgja fram frv., sem hæstv. ráðh. segist vera fylgjandi, saksóknari ríkisins taka upp á því að kæra og hefja málsókn á hendur fyrirtækisins og taka það eitt fyrirtækja sinnar tegundar út úr til að stöðva starfsemi þess.

Þessar yfirlýsingar gera það að verkum, herra forseti, að ég tel afar brýnt að mál það sem hér er til umr. komist til nefndar og fáist á það reynt hvort ekki sé meiri hl. hv. alþm. fyrir málinu.