03.03.1983
Sameinað þing: 60. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2463 í B-deild Alþingistíðinda. (2276)

32. mál, hafsbotnsréttindi Íslands í suðri

Frsm. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Utanrmn. hefur rætt um þáltill. Eyjólfs Konráðs Jónssonar o. fl. um hafsbotnsréttindi Íslands í suðri á mörgum fundum og í samráði við utanrrh. var haft samband við Hans G. Andersen sendiherra. Var hann fenginn til að koma hingað til lands. Mætti sendiherrann á fund nefndarinnar og lagði þar fram mjög fróðlega og skýra grg. um réttindi okkar á þessum slóðum og benti á hvernig heppilegast væri að halda á málinu áfram.

Hér þarf að hyggja að jarðfræðilegum og jarðeðlisfræðilegum könnunum, en eins og kunnugt er hefur strandríki samkv. ákvæðum hafréttarsáttmálans fullveldisrétt yfir landgrunninu innan 200 sjómílna efnahagslögsögunnar og einnig utan þeirra marka, allt frá útjaðri landgrunnsbrekkunnar, svo sem nánar er skilgreint í ákvæðum hafréttarsáttmálans.

Það sem skiptir máli varðandi yfirráð strandríkisins yfir landgrunni er að tiltekið svæði sé eðlilegt framhald af landinu sjálfu, og koma þar til álita bæði sjónarmið varðandi landslag á sjávarbotni og jarðfræðileg sjónarmið, eins og ég gat um áðan.

Nefndin var eftir þessar umr. sammála um að leggja til að tillgr. orðist svo sem getið er í nál. á þskj. 321. Með leyfi forseta er brtt. svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að vinna að samkomulagi við Færeyinga, Breta og Íra um yfirráð Hatton-Rockall hafsbotnssvæðisins í samræmi við ákvæði hafréttarsáttmálans.

Alþingi felur utanrmn. að starfa með ríkisstj. að framgangi málsins.“

Í till. hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar var gert ráð fyrir að sérstök nefnd væri skipuð til að starfa með ríkisstj. að framgangi málsins. Utanrmn. taldi eðlilegt að þetta væri á verksviði utanrmn., en gekk út frá því að utanrmn. mundi þá væntanlega skipa undirnefnd, þar sem þingflokkar ættu sinn fulltrúa, til að fylgjast með málinu, ef það þætti auðveldara í meðferð málsins.