03.03.1983
Sameinað þing: 60. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2468 í B-deild Alþingistíðinda. (2280)

Umræður utan dagskrár

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir það tækifæri sem ég fæ hér til að ræða mál utan dagskrár — mál sem hefur að undanförnu verið æðimikið rætt bæði manna á meðal og eins í fjölmiðlum. Ég hef rætt við hæstv. samgrh. og hann hefur fallist á að svara hér nokkrum spurningum varðandi þetta mál, sem fjallar um ráðningu flugmálastjóra, en í síðustu viku gerðist það að hæstv. samgrh. skipaði í stöðu flugmálastjóra Pétur Einarsson lögfræðing, þrátt fyrir að flugráð, bæði aðalmenn og varamenn, væri á einu máli um að Leifur Magnússon ætti að verða fyrir valinu. S. l. þriðjudag varð nokkur umr. um þetta mál. Hóf ég hana eingöngu til að skýra frá því, að hæstv. ráðh. gæti ekki orðið við beiðni minni fyrr en í dag af ástæðum sem þegar hafa komið fram á þingfundum.

Það er ljóst að hæstv. samgrh. hefur um árabil tekið ákvarðanir í flugmálum sem hafa þótt furðu sæta, og kastar þó tólfunum nú, þegar hann skipar flugmálastjóra þvert ofan í einhuga álit flugráðs. Ástæðan, sem hæstv. ráðh. hefur fyrst og fremst bent á sjónarmiðum sínum til stuðnings, er sú, að ekki megi það bitna á Pétri Einarssyni að hann sé framsóknarmaður.

Það eru einkum tvö atriði sem ég vil gera hér að umtalsefni: Í fyrsta lagi held ég að það sé full ástæða til þess fyrir hv. Alþingi að krefjast þess af hæstv. samgrh. að hann skýri hver séu sjónarmið að baki slíkri embættisveitingu og í öðru lagi að hann standi hér og nú fyrir máli sínu þegar hann sendir orðsendingar til flugráðs og telur störf flugráðs, einkum varðandi þetta mál, vera aðfinnsluverð.

Í Morgunblaðinu hinn 27. febr. s. l. er viðtal við hæstv. samgrh., þar sem hann segir m. a., með leyfi forseta:

„Mér finnst reyndar ekki drengilegt að ganga fram hjá manni, sem hefur gegnt starfinu aðfinnslulaust við erfiðar aðstæður í veikindum fyrrverandi flugmálastjóra. Þá hafa mér borist mörg meðmæli með Pétri og stuðningsyfirlýsingar, t. d. frá öllum umdæmisstjórum flugmálastjórnar“ o. s. frv.

Hér vitnar hæstv. ráðh. til aðila, sem ekki hafa umsagnaraðild að þessu máli, sér til afsökunar, þegar hann gengur á svig við einhuga afstöðu flugráðs. Síðar í þessu viðtali spyr blaðamaður, og er orðrétt tekið hér úr Morgunblaðinu, með leyfi forseta:

„Var ekki óþarfi að leggja málið fyrir flugráð með hliðsjón af framgangi málsins? „Mér finnst ákaflega einkennilegt hvernig staðið var að málum í flugráði. Einn ráðsmaður skrifar upp tillöguna fyrir fund ráðsins og lætur síðan hina skrifa undir fyrir fundinn. Þeir höfðu ekki einu sinni fyrir því að skoða umsóknirnar og ræða þær á fundinum. Ég er alls ekki ánægður með afgreiðslu af þessu tagi. Málið er reyndar afgreitt fyrir fram, sem er ákaflega einkennilegt“, sagði Steingrímur Hermannsson að síðustu.“

Ég vil geta þess, að á þingflokksfundi sjálfstæðismanna skýrði hv. þm. Albert Guðmundsson frá þeim umsóknum, sem borist höfðu um þessa stöðu, og þær voru ræddar á þeim fundi, þar sem hann bað um veganesti í þessu máli. Var það sjónarmið ríkjandi í þingflokknum að augljóst væri að Leifur Magnússon væri hæfastur til starfans. Mér er jafnframt kunnugt um að aðrir flugráðsmenn könnuðu umsóknir umsækjenda rækilega. Þess vegna undrast ég þessa yfirlýsingu hæstv. samgrh. og krefst þess að hann geri frekari grein fyrir máli sínu.

Nú má kannske segja að hæstv. samgrh. hafi sagt þetta í hita og þunga dagsins. en þá ber þess að geta. að tveimur dögum síðar er viðtal við hæstv. ráðh. í málgagni Framsfl., Tímanum, og þar segir, með leyfi forseta:

„Steingrímur sagði jafnframt: „Um meðferð flugráðs á málinu, þá hef ég gert athugasemdir við það, að mér þótti undarlegt að það skyldi ekki gefa sér tíma til að ræða þær 11 umsóknir sem bárust um starfið, heldur var lögð fyrir fundinn í upphafi tillaga og hún samþykki án þess að málið væri nokkuð rætt. Meðal þessara 11 umsækjenda voru vissulega hæfir menn og hefði mátt skoða sumar þeirra umsókna betur. Mér finnst því að gagnrýni frá flugráði komi úr hörðustu átt. þegar þeir gagnrýna meðferð málsins“.“ Svo mörg voru þau orð. herra forseti.

Flugráð kom saman til fundar hinn 28. febr. s. l. og skrifaði þar greinargerð, sem hefur verið send alþm. Í þessari greinargerð er vikið að þessu máli allítarlega.

Í upphafi greinargerðarinnar er þess getið, að hæstv. samgrh. sýni í verki dæmalausa lítilsvirðingu á lýðræðislegum hefðum. Þá er í öðru lagi skýrt frá því, að í lögum nr. 119 frá 1950, um stjórn flugmála, standi skýrum stöfum að ráðh. skuli skipa flugmálastjóra að fengnum tillögum flugráðs. Mér er auðvitað kunnugt um að vissulega getur hæstv. samgrh. skipað annan mann til starfans, en það er held ég nánast einsdæmi að hæstv. ráðh. leyfi sér að fara gegn fullskipuðu ráði bæði aðalmanna og varamanna í slíkum efnum, einkum og sér í lagi þegar þess er gætt að flugráð er að verulegum hluta til skipað þingkjörnum mönnum.

Í greinargerð flugráðs er sagt frá því, hver tillaga var samþ. á þeim fundi ráðsins sem hafði með þetta mál að gera. Þar segir — og þá skýri ég frá hver var ályktun flugráðs, sem samþ. var, en hún er svohljóðandi:

„Flugráð leggur samhljóða og eindregið til að Leifur Magnússon verði skipaður flugmálastjóri. Hann hefur ótvírætt að baki víðtækustu reynslu og þekkingu umsækjenda á öllum þáttum íslenskra flugmála, þar á meðal varðandi starfrækslu íslensku alþjóðaflugþjónustunnar á Íslandi, ásamt öðrum alþjóðlegum samskiptum Íslands á sviði flugmála.“ Varla getur verið skýrar komist að orði.

Um hlutverk flugráðs er það að segja, að um það er sagt í 1. gr. laga um stjórn flugmála að flugráð sé skipað fimm mönnum, þrír skuli kosnir hlutfallskosningu í Sþ.. síðan skipi ráðh. tvo menn með sérþekkingu á flugmálum og með sama hætti séu síðan skipaðir fimm varamenn. Á þessu sést að þeir menn sem skipa flugráð hafa allir mjög góða þekkingu á flugmálum, enda er við þetta að bæta að í starfsreglum flugráðs er sagt að flugráð fari með stjórn flugmála, en flugmálastjóri annist framkvæmd ályktana ráðsins og daglegan rekstur flugmála. Það skiptir því afar miklu máli í þessu tilviki. eins og svo mörgum öðrum, að það sé gott samkomulag á milli flugmálastjóra og flugráðs og auðvitað hefur það meginþýðingu að flugráð hafi talsvert með þá embættisveitingu að gera.

Í greinargerðinni er síðan vikið að alþjóðaflugþjónustunni á Íslandi. Þar segir, með leyfi forseta:

„Leifur Magnússon var um 18 ára skeið fulltrúi Íslands á fjölda alþjóðaráðstefna. þar sem verkefni og framtíð íslensku flugþjónustunnar voru til sérstakrar meðferðar“.

Það hefur komið fram víða í fjölmiðlum að Leifur Magnússon hefur verið sá einstaklingur sem lagt hefur grunn að samstarfi Íslands og alþjóðaflugþjónustunnar.

Loks er í greinargerð flugráðs vikið að ráðningu framkvæmdastjóra, en þar er skýrt nákvæmlega frá því, hvernig staðið var að auglýsingu og stöðuveitingu þegar staða framkvæmdastjóra við flugmálastjórn var auglýst á sínum tíma, en það var sumarið 1980. Ég leyfi mér, herra forseti, að rekja þetta mál, en í greinargerðinni segir:

„Á 976. fundi flugráðs var vakin sérstök athygli á því, að engin skýring var veitt á verksviði framkvæmdastjórans og væntanlegir umsækjendur hafi þá þegar fengið mismunandi upplýsingar frá samgrn. um slíkt verksvið. Með bréfi til ráðuneytisins sama dag óskaði flugráð því eftir nánari upplýsingum um hvaða stöðu væri átt við með téðri auglýsingu.

Með bréfi 6. ágúst 1980 óskar samgrn. eftir umsögn flugráðs um þær fimm umsóknir um slíka stöðu framkvæmdastjóra sem borist höfðu. Í niðurlagi bréfsins segir að ráðuneytið hafi í hyggju að stofna á ný til stöðu framkvæmdastjóra flugvalla og verður meðferð þessara umsókna við það miðuð.

Eftir nánari bréfaskipti flugráðs og ráðuneytisins 7. og 19. ágúst 1980 sendir flugráð 29. ágúst ráðuneytinu athugasemdir sínar við meðferð málsins ásamt nánari skýringu.“

Er síðan vitnað til þess, að það fylgi myndir með þessu bréfi, sem ég ætla ekki að lýsa. enda nær ótækt í mæltu máli.

„Samt sem áður skipar samgrh. 3. sept. 1980,“ segir svo í þessari tilvitnun, „Pétur Einarsson í stöðu framkvæmdastjóra flugvalladeildar og jafnframt varaflugmálastjóra. Við þessar ráðningar var beitt óvenjulegri málsmeðferð og skipað í umræddar stöður án nokkurra meðmæla flugráðs þrátt fyrir að í 2. gr. laga um stjórn flugmála segi m. a. eftirfarandi:

„Ráðh. ræður og skipar fasta starfsmenn flugmálastjóra til aðstoðar, eftir því sem þörf krefur. að fengnum tillögum flugráðs.““

Á þetta minni ég hér, herra forseti, til að rifja upp hvernig áður hefur verið staðið að stöðuveitingum við flugmálastjóraembættið.

Að allra síðustu segir í þessari greinargerð flugráðs: „Í yfirlýsingu til fjölmiðla hefur samgrh. talið ástæðu til að upplýsa. að „allir umdæmastjórar úti á landi“, svo og formaður Vélflugfélagsins og formaður Félags ísl. flugumferðarstjóra, hafi lýst stuðningi sínum við Pétur Einarsson. Af því tilefni vekur flugráð sérstaka athygli á því. að umræddir umdæmisstjórar eru aðeins þrír talsins, eru jafnframt næstu undirmenn Péturs í flugvalladeild og hafa verið skipaðir í þær stöður af núverandi ráðh. Formennirnir tveir tala hér aðeins sem einstaklingar, og hvorki hlutaðeigandi stjórnir né félagsfundir hafa veitt þeim neitt brautargengi til slíkra stuðningsyfirlýsinga í nafni félaganna.“

Svo er sagt frá því, að við flugmál á Íslandi starfi 1500 manns þar af tæplega 300 hjá ríkisstofnunum, og loks segir í yfirlýsingu flugráðs að flugráð fordæmi þá fádæma valdníðslu er felst í vinnubrögðum samgrh. í máli þessu.

Hér er um þung orð að tefla og harða gagnrýni. Það er alveg ljóst að umsagnaraðildin er hjá flugráði. Ég staðhæfi að þar sem ég þekki til í öðrum slíkum ráðum, sérstaklega þar sem Alþingi kýs, hafa viðkomandi stöðuveitingayfirvöld farið að tillögum slíkra ráða í langflestum tilvikum, en þó eru undantekningar, sérstaklega ef viðkomandi ráð skiptast í meiri og minni hluta. En því var ekki að heilsa í þessu máli. Get ég sem dæmi nefnt t. d., að þegar ráðningar eru hjá Ríkisútvarpinu er föst regla útvarpsstjóra að fara að tillögum útvarpsráðs.

Herra forseti. Ég hef nú nokkuð rakið þetta mál og vitna þar til greinargerðar flugráðs. Ég ítreka að ástæðan fyrir því að ég hef beðið um skýringar hæstv. ráðh. er auðvitað fyrst og fremst að hann hlýtur að þurfa að gera hv. Alþingi grein fyrir því, hver voru sjónarmiðin að baki því að fara gegn einhuga afstöðu flugráðs í þessum efnum, jafnvel þeirra manna sem hann sjálfur hefur skipað til að gera slíkar tillögur, og í öðru lagi hvernig hæstv. ráðh. hyggst standa við það. sem hann hefur sagt oftar en einu sinni í dagblöðum, að flugráð hafi ekki sinnt sínum störfum varðandi þessa tillögugerð eins og efni standa til. Ef ekki koma haldbær svör við þessum spurningum hlýtur það að vera niðurstaðan að hér sé um óverjandi pólitíska misnotkun valds að tefla.