03.03.1983
Sameinað þing: 60. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2481 í B-deild Alþingistíðinda. (2284)

Umræður utan dagskrár

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Hér er til umr. embættisveiting sem öll skynsamleg rök segja okkur að sé af pólitískum toga spunnin. Ég ætla að ræða um þetta mál út frá athöfninni sem slíkri og þeim möguleika að hér sé á ferðinni valdníðsla af því tagi sem megi ógilda.

Máli mínu til áréttingar vil ég, herra forseti, fá að lesa úr bók Ólafs Jóhannessonar prófessors í lögum um stjórnarfarsrétt, þar sem hann fjallar um viljaágalla og valdníðslu. Vil ég nú biðja menn að taka vel eftir.

„Valdníðsla. Í fljótu bragði gæti virst, að það skipti ekki máli um gildi stjórnarathafnar, hverjar ástæður eða hvatir kunna að liggja til hennar, ef hún er gerð af hæfu og þar til bæru stjórnvaldi, með réttum hætti og í réttu formi og efni hennar er eigi sérstaklega andstætt lögum. En sú ályktun er eigi alls kostar rétt. Sérhvert stjórnvald hefur ákveðinn og afmarkaðan verkahring, svo sem gerð hefur verið grein fyrir áður. Stjórnvaldið á að miða athafnir sínar við þann verkahring, og er því auðvitað fyrst og fremst óheimilt að taka sér vald til athafna. sem heyra undir annað stjórnvald. Geri það slíkt, þá er um valdþurrð að tefla. En því ber jafnframt að beita valdi sínu í réttu augnamiði, það er að segja með þá opinberu hagsmuni eina fyrir augum, sem því ber að sýsla. Stjórnvaldið á ekki að miða athafnir sínar við óskyld og annarleg sjómannið. Fyrst og fremst er auðvitað varhugavert, að stjórnvald hafi í huga ólögmæt markmið — stefni með stjórnarathöfn að einhverju ólögmætu takmarki, enda þótt það felist ekki beint í henni.

Slík ólögmæt sjónarmið geta verið mjög margvísleg, svo sem t. d. ef stjórnvald lætur stjórnast af persónulegri vináttu eða óvild, einkahagsmunum, flokkslegum sjónarmiðum, stéttarhagsmunum, fjárhagshagsmunum annarra einstaklinga eða jafnvel hins opinbera, ef slík hagsmunagæsla er ekki í verkahring þess stjórnvalds. Hér verður raunar að taka tillit til aðstæðna hverju sinni. Þótt flokksleg sjónarmið eigi t. d. oftast að réttu lagi að vera útilokuð við val manna í opinberar stöður, þá verður þó stundum talið rétt að taka tillit til pólitískra viðhorfa umsækjenda. Er jafnvel stundum beinlínis gert ráð fyrir því, sbr. t. d. bæjarstjórastöður.“

Herra forseti. Ég skýt því inn í að hér erum við ekki að ræða um stöðu bæjarstjóra, og ég held áfram. „Ólögmæt sjónarmið leiða stundum til þess, að stjórnarathöfn er bundin ólöglegu skilyrði. Stjórnarathöfnin getur þó orðið ógildanleg vegna þessa ólögmæta skilyrðis. Hugsanlegt er þó einnig, að skilyrðið sé metið óskráð. en ákvörðun stjórnvaldsins að skilyrðinu slepptu sé að öðru leyti gild.

En hvernig fer, ef hin ólögmætu sjónarmið birtust eigi í ólöglegum skilyrðum eða með öðrum áþreifanlegum hætti? Samt sem áður hafa þau getað verkað mjög óheppilega á efni stjórnarathafnar. Sé hægt að henda reiður á þeim, gæti verið ástæða til að láta þau varða ógildingu ákvörðunar. Sú ákvörðun, sem byggð er á ólöglegum forsendum, eða stefnir öðrum þræði að óleyfilegum augnamiðum, er alltaf tortryggileg, þótt hin ólögmæta ákvörðunarástæða stjórnvalds birtist eigi beinlínis. Það getur verið full þörf á að ógilda þvílíkar stjórnarathafnir, er byggjast á ólögmætum ákvörðunarástæðum, enda þótt þeim sé ekki sjáanlega áfátt að öðru leyti.

Því er löngu játað af stjórnarfarsfræðingum, að ólögmæt sjónarmið geti verið sjálfstæð ógildingarástæða.“

Herra forseti. Í greinargerð frá flugráði, sem hefur verið ítrekuð í þessari umr. segja flugráðsmenn, með leyfiforseta:

„Flugráð fordæmir þá fádæma valdníðslu er felst í vinnubrögðum samgrh. í máli þessu.“

Samkvæmt þessu gæti hér verið um valdníðslu að ræða, sem unnt væri að ógilda samkv. gildandi lögum. Ég vil þá koma að öðrum þætti þessa máls, og mun ég reyna að forðast að ræða hæfileika og eiginleika manna, sem hér hafa verið til umræðu, en engu að síður held ég að ég verði að segja við hæstv. samgrh.: Hann orðaði það í viðtölum við blöð að framsóknarmenn mættu ekki gjalda þess að vera framsóknarmenn þegar slík mál bæri á góma eða væru tekin til ákvörðunar. Ég get vel tekið undir þetta með hæstv. ráðh., en ég vil segja við hann um leið: Þeir mega ekki heldur gjalda þess, hæfileikamennirnir, sem sækja um stöður af þessu tagi, að þeir eru hæfileikamenn þótt þeir séu ekki eyrnamerktir framsóknarmenn.

Ég hef haldið því fram hér á þingi áður, að af hálfu íslenskra stjórnvalda hafi ríkt tiltekið stjórnleysi í flugmálum þessarar þjóðar. M. a. af þeirri ástæðu fluttu ég og flokkur minn till. um opinbera stefnu í flugmálum, sem m. a. hæstv. samgrh. tók undir að nokkru leyti, ekki öllu leyti, við umr. fyrr á þessu ári.

Ég hef sjálfur gagnrýnt embættisfærslur ráðh., en mun ekki fara fleiri orðum um það. Ég vil taka það fram, að einhver mjög alvarleg átök hljóta að eiga sér stað á milli flugráðs annars vegar og hæstv. ráðh. hins vegar, et marka má það frv. sem hann hefur nú flutt ásamt ríkisstjórninni um stjórn flugmála. Þar er beinlínis lagt til að flugráð verði lagt niður, hvorki meira né minna, eða völd þess stórlega skert.

Þá vil ég geta þess, að ég tel að Alþingi beri mikla ábyrgð gagnvart flugráði og þegar flugráð telur að það hafi verið gengið þvert á vilja þess álykta ég sem svo, að það hafi verið gengið þvert á vilja Alþingis, vegna þess að Alþingi kýs fulltrúa í flugráð.

Ég vil hins vegar segja það, að í þessu máli þurfa menn auðvitað ekki að fara í neitt skæklatog. Það er alveg augljóst hvernig á ákvörðun ráðh. stendur. Það þarf ekki mörg orð að hafa um það. Úr því að ráðh. tók sér í munn orðið „drengilegur“ hefði hann bara átt að koma hingað upp og segja að núverandi flugmálastjóri hefði verið valinn í þetta embætti af því að hann er framsóknarmaður. Það hefði verið mun drengilegra af ráðh. en að fara í einhverja orðaleiki, orðahnippingar og orðaskak við menn um það, hvernig að þessu máli hefur verið staðið, hver aðdragandinn er o. s. frv.

Hér hafa verið raktar og ræddar umsagnir ýmissa aðila um þá menn sem til greina komu í þessa stöðu. Ég ætla ekkert að fara nánar út í það, en ég ætla að geta þess að á fundi framkvæmdastjórnar Verkfræðingafélags Íslands í gær var samþykkt ályktun í þessu máli. Ég ætla að fá að lesa hana, með leyfi hæstv. forseta:

„Framkvæmdastjórn Verkfræðingafélags Íslands hefur kynnt sér gögn varðandi umsækjendur um starf flugmálastjóra og nýlega skipun yðar í það embætti. Stjórnin vill af því tilefni koma á framfæri við yður, herra samgrh., eindregnum mótmælum félagsins. Við þessa stöðuveitingu er gróflega gengið fram hjá þeim umsækjanda sem hlaut einróma og eindregin meðmæli lögboðins umsagnaraðila, flugráðs. Hann er jafnframt félagi í Verkfræðingafélagi Íslands. Þó ekki sé getið um sérstakar kröfur um menntun flugmálastjóra í núverandi lögum um stjórn flugmála fer ekki á milli mála að verkfræðimenntun væri þar sjálfsögð krafa eða a. m. k. langæskilegasti kosturinn, líkt og gildir um stjórnendur hliðstæðra tæknistofnana sem heyra undir samgrn.“

Hér vil ég skjóta inn í, að þarna er auðvitað átt við Vita- og hafnamál, Vegagerðina og fleiri slíkar stofnanir.

„Á það skal einnig bent, að auk Leifs Magnússonar sóttu fjórir aðrir verkfræðingar um þessa stöðu, þ. e. einn flugverkfræðingur, tveir flugvélaverkfræðingar og einn rafeindaverkfræðingur, sem allir eru félagsmenn í VFÍ. Framkvæmdastjórn Verkfræðingafélags Íslands telur að með þessari stöðuveitingu sé verið að vanvirða tæknimenntun, sérfræðilega þekkingu og starfsreynslu. Með því að velja í embættið reynslulítinn umsækjanda án flugtæknilegrar menntunar og fagþekkingar er stofnað til kringumstæðna sem hæglega geta leitt til truflana og tafar á eðlilegri framþróun íslenskra flugmála. Því ítrekar framkvæmdastjórn Verkfræðingafélags Íslands hér með mótmæli sín og minnir á að fimm ágætlega hæfir verkfræðingar sóttu um embætti flugmálastjóra.“

Nú ætla ég ekki að leggja dóm á niðurstöðu framkvæmdastjórnar Verkfræðingafélagsins um þann ugglaust ágæta mann sem valinn hefur verið til starfans. Ég hirði ekki um það, herra forseti, að fara nánar út í þetta mál, ekki í þessari umferð a. m. k., en gefist til þess tilefni eru nægar ástæður til þess að koma með mörg rök af ýmsu tagi gegn þessari ákvörðun hæstv. samgrh. Ég verð að segja það eins og er, að ég harma að hæstv. ráðh. skyldi taka þessa ákvörðun. Mér finnst það slæmt meðal annars vegna þess, að þessi ákvörðun er áfall fyrir íslensk stjórnvöld og það mátti ekki á það bæta að mínu mati.

Ég endurtek það, að eins og ráðh. sagði sjálfur, að hann vildi ekki láta sína flokksbræður gjalda þess að þeir væru framsóknarmenn, þá geri ég þá siðferðilegu kröfu til hæstv. samgrh. að hann láti ekki aðra menn gjalda hæfileika sinna, menntunar, þroska og þekkingar á störfum framvegis.