03.03.1983
Sameinað þing: 60. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2488 í B-deild Alþingistíðinda. (2288)

Umræður utan dagskrár

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég held að hæstv. samgrh. sé nú ljóst að þm. eru almennt furðu lostnir yfir þeirri ákvörðun ráðh. sem hér hefur verið á dagskrá.

Ég vil taka það fram að málið er ekki um Pétur Einarsson, nýráðinn flugmálastjóra, eða Leif Magnússon. Það þýðir ekkert fyrir ráðh. að ætla að koma sér út úr malefnalegum umræðum um aðgerðir ráðh. í þessu máli. Við skulum halda okkur að því. Ég viðurkenni það hvar og hvenær sem er að ég átti þátt í því ásamt hæstv. samgrh. að Pétur Einarsson var ráðinn til flugráðs á sínum tíma. Ég hef aldrei þurft að sjá eftir því og staðfesti það sem ég hef sagt, að maðurinn hefur staðið sig með prýði í því starfi sem hann var ráðinn til að gegna. En hann hefur aldrei nálægt flugmálastjóraembættinu komið fyrr en fyrrverandi flugmálastjóri, Agnar sálugi Kofoed-Hansen, þurfti á sjúkrahús eða til að leita lækninga. Við erum þá að bera saman annars vegar starfsaldur sem eru 2 ár og 4 mánuðir hjá Pétri Einarssyni og 17–18 ár hjá öðrum. Það fer ekkert á milli mála að þarna er gríðarlega mikill munur á. En annar hefur flokksskírteini, rétta flokksskírteinið, hinn ekki.

Ég er alveg sannfærður um það, að ef Henry gamli Ford kæmi hér inn í Ford-umboðið og bæði um vinnu sem bílaviðgerðarmaður yrði hann fyrst spurður hvort hann hefði skírteini. Og þegar hann gæti ekki sýnt að hann væri lærður bifvélavirki, þá fengi hann ekki vinnu. Þetta er nákvæmlega það sama. Ef maður gengur inn í nýtískulegt starf, fag, og hann hefur ekki rétta skírteinið, þá fær hann ekki vinnu. Þá á ég við starfsreynslu, staðfestingu á starfsreynslu og menntun, og það að bera saman starfsreynslu, því margur maðurinn sem er miklu vitrari en ég og vitrari en hæstv. ráðh. hefur sagt að menntun hefjist að námi loknu.

Hverjum dettur í hug að bera þetta saman við starfsreynslu og sjálfsmenntun, sem fyrrverandi flugmálastjóri hafði, sem segja má að hafi flutt flugið til Íslands í þeirri mynd sem það er í dag, og byggði upp alla flugvelli og alla aðstöðu sem til er í landinu af miklum dugnaði, meiri dugnaði en stjórnvöld yfirleitt vildu viðurkenna, og hefði gert miklu meira ef hann hefði fengið réttan stuðning? Það er ekki hægt að hlífa sér bak við þann skjöld að ekki hafi fyrrverandi flugmálastjóri verið verkfræðingur. Það er bara ekki hægt. Þetta er eins billegt og að bera sig saman við Bjarna Benediktsson sáluga og hans aðgerðir. Það er alveg furðulegur málflutningur hjá hæstv. ráðh.

Virðulegur ráðh. segist hafa vanist stóryrðum hér úr þessum ræðustól frá mér. Hvenær? Ég hef aldrei þurft á því að halda að ræða við ráðh. um hans aðgerðir. Ég hef haft ástæður til þess oft og mörgum sinnum, en ég hef setið á mér. En þegar um það er að ræða að fullyrðingar hans snerta störf mín sem þingkjörins fulltrúa í flugráði, þá er kominn tími til að segja við ráðh.: Gerðu nánari grein fyrir þínum fullyrðingum. Fullyrðingum eins og hér komu fram og ég er reyndar búinn að vitna í, en ég geri það aftur með leyfi forseta: „Mér finnst ákaflega einkennilegt hvernig staðið var að málum í flugráði.“ Hvernig var það einkennilegt? Á hvern hátt var það einkennilegt? Það sem er einkennilegt í málinu er að ráðh. skuli ekki skýra frá því hvernig þessi einkennilegheit áttu sér stað. Nema það sé einkennilegt að menn skyldu koma undirbúnir til fundar.

Við sátum í mörg og löng ár saman í flugráði hæstv. ráðh. og ég. Ég minnist þess aldrei að hann hafi hlýtt mér sérstaklega yfir til að vita hvað ég væri vel undirbúinn. Ég lagði það nú ekki heldur á mig að hlýða honum yfir. En við áttum margar góðar stundir saman og vorum yfirleitt sammála. Það var afskaplega gott samstarf okkar á milli. Okkur hefur líklega tekist að fela fávisku okkar í þessum málum ef hann hefur ekki komið undirbúinn. En ég get fullyrt að það kom nú fyrir jafnvel meðan ráðh. sat í flugráði að ég kæmi undirbúinn.

Síðan fullyrðir hæstv. ráðh. og ætlar að láta fólk í landinu trúa því: „Einn ráðsmaður skrifar upp till. fyrir fund ráðsins og lætur síðan hina skrifa undir.“ Hvernig dettur hæstv. ráðh. í hug að segja slíkt? Hafa þm. yfirleitt þá reynslu hver af öðrum að þeir láti einn eða annan skrifa undir eða gera yfirleitt það sem þeir ekki vilja gera? Svo heldur hann áfram: „Þeir höfðu ekki einu sinni fyrir því að skoða umsóknirnar.“ Við höfðum ekki fyrir því að skoða umsóknirnar. En það er staðfest hér af hv. varaformanni Sjálfstfl. að ég leitaði einmitt stuðnings í Sjálfstfl., til þeirra sem ég er tilnefndur af hér til hv. Alþingis, um afstöðu til ákvörðunar minnar, sem ég hafði sjálfur komist að eftir að hafa kynnt mér allar þær umsóknir sem lágu fyrir. Ég bar þá ákvörðun undir þingbræður mína og systur til þess að vita hvort mitt mat var rétt eða rangt í þeirra augum. Og það reyndist rétt. Svo fullyrðir ráðh. fyrir alþjóð í virtasta og útbreiddasta blaðinu, Morgunblaðinu, að menn skoði ekki gögn. Hvaðan hefur ráðh. þetta? Ekki svarað. Síðan segir hann að umsóknir hafi ekki einu sinni verið til umræðu á fundinum. Þær voru til umræðu, en flugráðsmenn töldu ekki þörf á því að lesa þær aftur upp, hafa eflaust verið búnir að margfara yfir þær sjálfir heima, enda kom það í ljós. Slíkur málflutningur er ráðh. ekki til sóma. Hann getur kallað það stóryrði eða hvað sem hann vill, þegar hann heyrir sannleikann, því sannleikurinn er oftast nær það sem ráðh. vill síst af öllu fá að heyra.

Ég hef ekkert vikið að Pétri Einarssyni í starfi flugmálastjóra. Það er hæstv. ráðh. sem hefur komið að því. En ég vil segja það að hann hefur ekki nokkra reynslu í því, ekki nokkra. Ég vona bara þjóðarinnar vegna, vegna þess að þetta er áríðandi starf, að hann reynist eins vel þar og hann reyndist sem flugvallarstjóri. Þess starfs er ráðherra alltaf að vitna til þegar hann talar um að Pétur Einarsson hafi staðið sig vel. (Sjútvrh.: Var hann ekki varaflugmálastjóri?) Hann var varaflugmálastjóri líka, það er alveg rétt. En við skulum bara fá skilgreiningu á störfum varaflugmálastjóra og flugmálastjóra. Það eru ekki sambærileg störf né heldur ábyrgð, en við skulum vona að Pétur Einarsson reynist maður til að axla þau störf úr því sem komið er.

Ég veit ekki hvaða óljósa grun ráðh. var að tala um. Af hverju má ekki þingheimur vita hvað er óljóst? Ég held að ég hafi talað þannig hér áðan að lítið væri eftir ósagt eða óljóst í mínu máli. Það er yfirleitt ekkert óljóst þegar ég þarf að koma skilaboðum til annarra manna, sérstaklega ef þau eru áríðandi. Það sem er óljóst er sú heilaflækja sem býr í kollinum á ráðh. og ekkert annað.

Ég vil taka það alveg skýrt fram að ekkert af því sem hefur komið fram hjá ræðumönnum hér í dag snertir persónu Péturs Einarssonar, störf hans eða framtíð. Þó hún sé — og hans væntanlegu störf séu mjög áríðandi þá er það ennþá meira áríðandi að ráðherra Íslands, hver sem hann er hverju sinni, kunni að fara með þau völd sem Alþingi Íslendinga felur honum í hendur.