04.03.1983
Efri deild: 56. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2505 í B-deild Alþingistíðinda. (2323)

Umræður utan dagskrár

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Svar við fsp. hv. þm. Kjartans Jóhannssonar er stutt.

Í þessu ívitnaða viðtali hef ég ekki orðað þetta af nægilegri vísindalegri nákvæmni. Það er auðvitað ekki meiningin að flytja eigi þá tanka til sem standa þarna í hlíðinni fyrir ofan byggðarlagið og það hefur aldrei staðið til, enda býst ég við að flutningur á þeim gæti verið ýmsum vandkvæðum bundinn.

Þegar hefur verið úthlutað leyfi til byggingar tveggja nýrra tanka, sem hafi rými fyrir nær því helming af þeim eldsneytisbirgðum sem eru geymdar í hinum gömlu tönkum fyrir ofan byggðina, en það er kunnugt og hefur margoft verið rætt á Alþingi að það hefur verið talin ákaflega óheppileg staðsetning á olíugeymunum að hafa þá þarna rétt fyrir ofan byggðina og er hugsanlegt að af þeim gæti stafað mengunarhætta. Það er þess vegna um það að ræða að leyfi er til þess að byggðir séu tveir nýir tankar á þessu svæði. Það er ætlunin að þeir verði grafnir eða sprengdir í jörð niður og verða að öllu leyti þannig í jörð. Það er óbreytt frá þeim áætlunum sem um það hafa verið gerðar.

Um það, hvort það grjót sem kemur upp við þær sprengingar sem þar kunna að eiga sér stað eða grjót af öðrum stöðum kunni að verða notað í hafnargarð, er það að segja að enn hafa ekki farið fram fullnægjandi rannsóknir á því, hvort það grjót sé talið nothæft, en það eru hugmyndir uppi um það og hafa verið uppi um það að nota grjótið eða bergið, ef það reynist til þess hæft, í uppfyllingu. Þær hugmyndir eru sem sagt ennþá fyrir hendi, en nægilegar rannsóknir eru ekki taldar enn hafa farið fram á því, hvort það sé nothæft.

Út af því, sem hv. þm. spurðist fyrir um, hvort það hafi verið tafir á þessu. Það er ekki neitt nýtt að tafir hafi orðið á framkvæmdum þeim sem leyfðar hafa verið hjá varnarliðinu. Ég bendi t. d. á skýrslu mína um utanríkismál, þar sem framkvæmdir sem leyfðar hafa verið á fyrri árum, en eftir er að framkvæma, verða kannske aldrei framkvæmdar sumar hverjar, eru um þrisvar sinnum meiri en nýjar framkvæmdir sem leyfðar eru á þessu ári.

Það hafa tafist nokkuð bæði rannsóknir og teikningar. En ég hef gert það að skilyrði fyrir því að leyfi yrðu veitt til hafnargerðar eða löndunaraðstöðu að teikningar væru lagðar fyrir mig. Þær hafa ekki enn verið lagðar á mitt borð.

Ég vænti að ég hafi svarað fsp. hv. þm. með þessu.