04.03.1983
Neðri deild: 51. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2526 í B-deild Alþingistíðinda. (2350)

22. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. minni hl. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Hér er um að ræða mál sem varðar tekjustofna sveitarfélaga. Ég er einn af þeim sem hafa haldið því fram, að sveitarfélögin ættu sjálf að ráða yfir sínum tekjustofnum og það hljóti að vera á valdi hverrar sveitarstjórnar fyrir sig að veita afslátt eða lækka álagningu á þessu gjaldi, fasteignagjaldi. Við vitum mörg dæmi þess, að sveitarfélögin hafa gert það.

Þetta mál hefur verið til meðferðar hér á Alþingi oftar og ég vil benda á það sérstaklega að stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga, sem skilaði áliti um þetta mál, lagði eindregið til — bæði nú og eins áður þegar þetta mál hefur verið til umr. — að þetta frv. yrði ekki að lögum. Það hafa komið umsagnir frá fleirum í sambandi við þetta mál, m. a. frá hreppsnefnd Kjósarhrepps, sem mælti eindregið gegn frv. og færði fyrir því margvísleg rök sem ástæða hefði verið til að rekja hér, en til að tefja ekki tímann mun ég ekki gera það.

Ég tek fram í mínu nál. að ég hafi vissa samúð með sumarbústaðaeigendum. Ég tel að leiðrétta þurfi þær álögur sem á þeim eru. Og ég vil benda á að eins og hér liggur fyrir eru sumarbústaðir, sem byggðir eru á vegum stéttarfélaga, launþegahreyfingarinnar í landinu, þegar undanþegnir þessum gjöldum. Svo er einnig um nokkra fleiri aðila. Ég hef bent á það að eðlilegra væri að létta álögur á sumarbústaðaeigendum að því er varðar sýsluvegasjóðsgjald og gæti rökstutt það nánar. Ég hef þegar fært það í tal í samgn., sem fjallar núna um vegalögin, og einmitt í dag er verið að gera útreikning á því hvað þetta gjald vegur þungt í sýsluvegasjóð. Ég geri ráð fyrir því að það komi í ljós þegar nál. frá samgn. í því máli kemur fram. Það er miklu eðlilegri leið að þar sé gerð leiðrétting gegnum löggjöf, en að sveitarfélögin sjálf ráði hvað þau gera með sína ákveðnu tekjustofna, sem þau eiga eðlilega að ráða yfir.

Herra forseti. Ég legg því til að þetta frv. verði fellt.