04.03.1983
Neðri deild: 52. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2552 í B-deild Alþingistíðinda. (2379)

230. mál, almannatryggingar

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breytingu á lögum um almannatryggingar sem ég flyt ásamt nokkrum öðrum þm. Alþfl. og Sjálfstfl. Frv. sama efnis var flutt á 104. löggjafarþingi, en hlaut þá ekki afgreiðslu.

Eins og hv. þdm. er kunnugt var í gær í þessari hv. deild fellt frv. um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt þess efnis, að ef maður hefur haft veruleg útgjöld vegna tannviðgerða og gjaldþol hans skerðist verulega af þeim sökum, þá skuli skattstjóri veita viðkomandi skattafslátt.

Við atkvgr. um þetta mál í gær upplýsti heilbr.- og trmrh. að á ríkisstj.-fundi þá um morguninn hefði verið ákveðið að almannatryggingar greiddu 20% tannlækningakostnaðar fyrir alla landsmenn, sem ákveðið yrði með reglugerð með stoð í almannatryggingalögum.

Það frv. sem ég flutti á síðasta þingi var svipaðs efnis að því er varðar hlutdeild í tannlækningakostnaði fyrir alla landsmenn og ríkisstj. hefur nú ákveðið að gera án afskipta löggjafans. Að efni til fjallaði frv. á síðasta þingi um það, að almannatryggingar greiddu 25% kostnaðar við allar tannlækningar aðrar en gullfyllingar, krónu og brýr, en fyrir þær skyldi hlutdeild almannatrygginga verða 20%. Ástæða þess að ég hef ekki fyrr endurflutt þetta frv., en kvaðst þess í stað freista þess að með lögum yrði veittur skattafsláttur vegna tannviðgerða, var að frv. um hlutdeild almannatrygginga í tannlækningum hlaut lítinn hljómgrunn á síðasta þingi, auk þess sem heilbr.- og trmrh. upplýsti þá að önnur leið kæmi til greina en frv. kvað á um, þ. e. að veita skattafslátt vegna mikilla útgjalda við tannlækningar.

Nú hefur heilbr.- og trmrh. breytt um skoðun og sagði í umr. í gær að það væri algerlega óeðlilegt að setja ákvæði af þessu tagi mn í lög um tekju- og eignarskatt. Miklu nær væri að koma með öðrum hætti til móts við þá sem þurfa að leita tannlækningar, þ. e. í gegnum almannatryggingakerfið. Jafnframt sagði heilbr.- og trmrh. orðrétt með leyfi forseta:

„Spurningin í þessu efni hefur jafnan snúist um það, hvort Alþingi væri reiðubúið til þess að stofna til þeirra útgjalda sem ákvæði af þessum toga hefði í för með sér. Samkv. því nál. sem fyrir liggur frá heilbr.- og trn. hv. deildar virðist hv. deild vera reiðubúin til slíks. Með tilliti til þess held ég og hefði talið að eðlilegra væri að nota fjármunina öðruvísi. Af þeim ástæðum var þetta mál tekið fyrir í ríkisstj. í morgun. Þar var ákveðið að heimila mér að breyta reglugerð um greiðslu sjúkrasamlaga í tannlækningakostnaði á þann veg að endurgreiða hinum tryggðu 20% kostnaðar við tannlækningaþjónustu.“

Nú er það mín skoðun, að það sé miklu meiri útgjaldaaukning í því fólgin að fara þá leið sem ráðh. upplýsti í gær, þ. e. 20% hlutdeild almannatrygginga í tannlækningakostnaði allra landsmanna, heldur en að fara skattaleiðina, þar sem hvert tilfelli er metið og einungis veittur skattafsláttur þegar um veruleg útgjöld er að ræða. Þegar ráðh. vísar í nál. hv. heilbr.- og trn., sem mælir með samþykkt frv. um skattaafslátt vegna verulegra útgjalda við tannviðgerðir, og þegar ráðh. dregur þá ályktun af því að Alþingi sé reiðubúið til þeirra útgjalda, sem ákvörðun ríkisstj. frá því í gær hefur í för með sér, þá finnst mér hann túlka það nokkuð frjálslega, þar sem ég er sannfærð um að á því er verulegur munur og ekki sambærilegt hvor leiðin hefur meiri útgjöld í för með sér. Auðvitað er margfalt ódýrara fyrir ríkissjóð að fara skattaleiðina.

Einnig er það mín skoðun, að draga verði í efa að ráðh. geti með einfaldri reglugerðarbreytingu farið þá leið sem ákveðin hefur verið af ríkisstj., þar sem í almannatryggingalögum er talað um reglugerðarákvæði, sem heimilar víðtækari hjálp vegna veikinda en ákveðin er í þeirri grein laganna, þ. á m. að láta réttindi til greiðslu kostnaðar við tannlækningar ná til fleiri hópa — ég undirstrika það, að hér er talað um hópa en ekki alla landsmenn — en gert er ráð fyrir í almannatryggingalögum og ákveða með hliðsjón af ákvæðum þeirra greina hvernig þátttöku skuli hagað í tannlækningakostnaði viðbótarhópa. Hér er einungis talað um viðbótarhópa, eins og ég segi, og því dreg ég í efa að heilbrmrh. hafi þessa heimild. Ég tel að mjög frjálslega og djarflega hafi verið túlkuð sú reglugerðarheimild sem fyrir hendi er.

Ég hef haft samband við Gunnar Möller lögfræðing, sem á sæti í tryggingaráði og hefur setið þar mjög lengi og er manna kunnugastur almannatryggingalöggjöfinni, og hann telur þetta mjög hæpna lagatúlkun. Þess má líka geta, að hann átti sæti í nefnd sem undirbjó breytingu á almannatryggingalöggjöfinni, sem kvað á um að útgjöld fyrir tiltekna hópa yrðu greidd gegnum almannatryggingarnar, og hann telur þetta mjög hæpna lagalega túlkun. Ég tel því að ákvörðun ríkisstj. í þessu máli sé í alla staði hæpin.

Nú virðist svo vera, sem mig óraði ekki fyrir, að vilji sé fyrir því og hljómgrunnur hér á Alþingi að fara þá leið sem ég lagði til á síðasta þingi og lagði fram frv. um. Því hef ég lagt fram þetta frv., því að ég tel eðlilegt að Alþingi samþykki þá ákvörðun að fara þessa leið, bæði vegna þess að hér er um veruleg útgjöld að ræða og eins að löggjafinn taki af allan vafa um að svo skuli gert, en ekki sé einungis stuðst við reglugerðarákvæði sem frjálslega eru túlkuð af framkvæmdavaldinu og hæpið að hafi stoð í lögum. Í útvarpinu í gærkvöld var haft eftir hæstv. fjmrh. að þessir fjármunir væru til. Þeir yrðu teknir af tekjuafgangi ríkissjóðs og eðlilegt væri að ráðstafa þeim í þessu skyni. Það virðast m. ö. o. vera til peningar til að stofna til þessara útgjalda. Þá er auðvitað eðlilegt að löggjafinn fjalli um þetta mál og samþykki að fara þessa leið, sem mér heyrist að sé mjög víðtæk samstaða um á Alþingi.

Ég vil geta þess, herra forseti, að í því frv. sem ég lagði fram í fyrra og hef ásamt nokkrum öðrum þm. endurflutt nú, er kannske ekki um nákvæmlega sömu leið að ræða eins og ríkisstj. leggur til. Þar er talað um 25% kostnaðar við tannlækningar og 20% við gullfyllingu, krónu- og brúaraðgerðir. Ég tel auðvitað eðlilegt að nefndin fjalli um þetta, og ef hún telur eðlilegt að taka upp óbreytta þessa ákvörðun ríkisstj. og setja inn í lögin, þá get ég auðvitað sætt mig við það.

Herra forseti. Ég óska eftir því að þessu máli verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. heilbr.- og trn.