07.03.1983
Efri deild: 59. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2584 í B-deild Alþingistíðinda. (2450)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Þetta voru nú kannske eins greið svör og menn gátu búist við hjá hæstv. ráðh. á þessu stigi málsins. En ég held að ekki fari á milli mála að það sé mjög nauðsynlegt að gera allt sem unnt er til að fá tæki af þessu tagi til notkunar hér í sumar. Annars kunna allar framkvæmdaáætlanir að raskast og það getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir þau pláss þar sem hugmyndin var að vinna verk í sumar.

Í annan stað held ég að það sé alveg einsýnt að ríkið verði að eiga tæki af þessu tagi. Hér er um mjög sérhæft verkfæri að ræða sem nauðsynlegt er að Vita- og hafnamálaskrifstofan hafi full umráð yfir. Þess vegna nægir náttúrlega ekki að hugsa sér t. d. leigusamning um slíkt skip í sumar, það væri einungis til þess að brúa bil, heldur verður að stefna að því að Vita- og hafnamálaskrifstofan eigi tæki af þessu tagi. Ég vil minna á að það er heimild í fjárlögum til þess að kaupa borpramma sem hefur verið talið nauðsynlegt að eiga til notkunar hér á landi. Á ýmsum stöðum eru hafnarskilyrði þannig að nauðsynlegt er að vinna mikið að borunum til þess að geta sprengt. Að því er framtíðaráform varðar vildi ég þess vegna benda á þann möguleika að kannað yrði hvort með nokkru móti sé hægt að samnýta tæki til þessara tveggja verkefna, annars vegar til þess að stunda uppgröft í höfnum af því tagi sem Grettir hefur stundað, og hins vegar til þess að sinna því verkefni að framkvæma boranir, tæki sem okkur hefur vantað hér. Þessu vildi ég einungis koma á framfæri, taka undir þau sjónarmið ráðh. að það sé nauðsynlegt að Vita- og hafnamálaskrifstofan eigi tæki af þessu tagi, leggja áherslu á að reynt verði með öllum tiltækum ráðum og eins skjótlega og unnt er að fá nýtt tæki til nota hér í sumar og benda á þessa heimild í fjárlögum í sambandi við borpramma og koma því sjónarmiði á framfæri að möguleikar verði kannaðir á nýtingu þeirrar fjárveitingar líka í tengslum við það óhapp sem við höfum nú orðið fyrir.