07.03.1983
Neðri deild: 53. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2642 í B-deild Alþingistíðinda. (2466)

206. mál, stjórnarskipunarlög

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt með því að þakka hv. stjórnarskrárnefnd þeirri er deildin kaus fyrir störf að því máli er nú er til umr., sem og treysti ég því að samstarf þeirra nefnda, sem kosnar voru í báðum deildum, hafi gefist svo vel að einnig í Ed. muni afgreiðsla málsins vera með þeim hætti að vel sé fyrir öllu séð.

Ég tel e. t. v. ekki ástæðu til að fjölyrða mjög um mál þetta, þar sem ég gerði því allítarleg skil í frumræðu minni fyrir einni viku. En ég hlýt þó að minna á það, sem ástæða er til eftir þessar umr., að tvennt var það fyrst og fremst sem vakti fyrir okkur.

Það var í fyrsta lagi að ná fullum jöfnuði á milli flokka, fylgis þeirra meðal þjóðarinnar og þingstyrks. Hér er ekki um neitt sérstakt hagsmunamál flokkanna sem slíkra að ræða, heldur allra þeirra sem hyggja á framboð til Alþingis, hvort heldur þau eru borin fram í nafni stjórnmálasamtaka, sérhagsmunaaðila eða áhugaaðila. Með þessu frv. er gert ráð fyrir að framboðsaðilar fái þingstyrk í samræmi við kjósendafylgi. Minni ég þar á, að þau samtök eða þeir flokkar sem njóta 5% fylgis meðal þjóðarinnar fá örugglega þm. kjörna við úthlutun jöfnunarsæta þótt þau fái ekki kosinn mann í kjördæmi. Á hinn bóginn er einnig líka gert ráð fyrir því, að ákveðnar lágmarkskröfur séu gerðar til framboðsaðila til þess að hann hljóti kosna þm., að slíkir framboðsaðilar og flokkar hafi ákveðinn lágmarksstyrk meðal kjósenda svo að ekki verði hér um svo marga flokka að ræða sem er víða í nágrannalöndum okkar, þar sem flokkafjöldinn torveldar framkvæmd lýðræðis og þingræðis. Þetta markmið, að framboðsaðilar og flokkar fái þingstyrk í hlutfalli við kjósendafjölda, var það markmið sem við e. t. v. settum efst, og sem betur fer náðist fullt samkomulag um að gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar væru til þess að þessu markmiði yrði náð gagnstætt því sem um hefur verið að ræða allt frá 1959, að síðasta kjördæmabreyting var gerð, að ég tali ekki um það fyrirkomulag sem gilti varðandi jöfnuð á milli flokka varðandi þingstyrk áður um áratuga skeið. Síðan síðasta kosningalagabreyting var gerð 1959 hefur skort 2–6 þingsæti til þess að fullum jöfnuði væri náð á milli flokka. Við gerum okkur vonir um, allir flm. þessa frv., að nú sé tryggt að slíkum jöfnuði verði náð.

Hinu markmiðinu sem við settum okkur, að jafna kosningarrétt miðað við búsetu, hefur og verið náð að verulegu leyti. Ég hef áður látið þá skoðun mína í ljós og er ekki nein launung á henni, að ég aðhyllist þá reglu sem orðuð hefur verið svo: Hver maður — eitt atkvæði án tillits til búsetu. En ég geri mér grein fyrir að um þetta markmið er mikill ágreiningur. Þrátt fyrir þann ágreining varð þó samstaða meðal mismunandi flokka og alþm. um að misvægið vegna búsetunnar væri orðið svo mikið að nauðsynlegt væri að jafna þar nokkuð um og leiðrétta.

Í þessu sambandi hefur sú leið verið nefnd, að rétt væri að gera landið allt að einu kjördæmi. Við heyrðum það og hér í dag af hálfu hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar. Ég vil lýsa sem minni skoðun, að ég er því algerlega andvígur. Ég tel að það væri spor aftur á bak að gera landið allt að einu kjördæmi. Við hljótum að gera okkur grein fyrir að við höfum hér á Íslandi mismunandi aðstæður og búum við breytileg skilyrði frá einum landshluta til annars og það er eðlilegt og sjálfsagt að þeir sem fjalla um löggjöf landsins og þau verkefni sem Alþingi á að inna af hendi hafi kunnugleika á og séu fulltrúar fyrir mismunandi landshluta eða réttara sagt: fyrir landsmenn í mismunandi landshlutum. Ég tel einnig að ef við gerum landið að einu kjördæmi sé stefnt í slíka miðstýringu að óviðunandi sé. Auðvitað kemur hér samhliða til greina að nauðsynlegt er að stefna að auknu valdi sveitarfélaganna svo að unnt sé að færa valdið heim í héruðin þar sem fólkið á heima.

Það má auðvitað spyrja þeirrar spurningar: Hvort markmiðið er réttara, hvort á að ráða meira, ef fórna verður að einhverju leyti öðru hvoru markmiðinu, jöfnuði atkvæðisvægis eftir búsetu eða jöfnuði á þingstyrk flokka miðað við kjósendafylgi? Þá held ég að það sé engum blöðum um að fletta að það hlýtur að ráða meira um afstöðu manna á löggjafarþingi þjóðarinnar hvaða stjórnmálaskoðun þeir aðhyllast, en hvar þeir eru búsettir eða fyrir hvern landshluta þeir eru fulltrúar. Ég hygg að það sé þess vegna eðlileg leið, sem farin hefur verið, úr því að ekki náðust þessi bæði markmið í einum áfanga, að setja ofar það markmið, sem ég hef greint frá, þ. e. fullan jöfnuð á milli flokka.

Það er að vísu talað um að það sé óheimilt að semja um afsal mannréttinda. Þá er átt við að allir menn eigi að hafa jafnan atkvæðisrétt hvar sem þeir búa. Nú er það svo, að það er ekki verið að semja um afsal neinna mannréttinda vegna þess að menn hafa aldrei notið þeirra mannréttinda að hafa fullan og jafnan atkvæðisrétt án tillits til búsetu. Það er verið að semja um áfanga að því markmiði að ná fullum jöfnuði að þessu leyti. Og niðurstaðan, sá áfangi sem náð er, er í stuttu máli sú, að í stað þess að Suðvesturlandið hafði 22 þm. af 60 fær Suðvesturlandið nú 29–30 þm. af 63. Ég tel þetta markverðan áfanga og þótt meiri hluti landsmanna búi á Suðvesturlandi er sem betur fer ekki meira á munum en að ætlast verður til þess að afstaða manna, þegar tryggður er fullur jöfnuður milli flokka og framboðsaðila, sé ekki bundin við búsetuna, heldur hvað landinu öllu og þjóðarheildinni kemur best.

Það er auðvitað annmarki að kjördæmunum er tryggð í stjórnarskrárlögunum ákveðin lágmarkstala þm., en það verður þó að líta á að fámenniskjördæmin fjögur t. d., þ. e. Vesturland, Vestfirðir, Norðurl. v. og Austurland, hafa í raun og veru einum þm. færra eftir en fyrir breytinguna og þar að auki er um það að ræða að í stað þess að þessi kjördæmi hafa alla jafna fengið 6 þm., en fá væntanlega ekki meira en 5, í undantekningartilviki 6, þá er fólgið í þessum breytingum að 5. þm. þessara kjördæma er bundinn jöfnuði á landsvísu, þótt svo sé gert ráð fyrir að til breytinga á úrslitum samkv. kjördæmum, ef litið er á hvert kjördæmi fyrir sig, komi mjög sjaldan.

Ég held að miðað við þann áfanga, sem náðst hefur, sé ekki horfandi í þá fjölgun þm. sem um er að ræða, svo mikilvægt er að hér sé um sem víðtækasta samstöðu að ræða og ekki síst ef við lítum til þess að við stöndum frammi fyrir mjög alvarlegum efnahagsvanda sem nýtt þing verður að snúa sér að að leysa. Ég hygg einnig að menn séu í raun og veru farnir að gera sér grein fyrir að forsenda þess að þing leysi þann vanda er einmitt þessi breyting á stjórnskipunarlögunum, kjördæmaskipan og kosningalögum, hvort heldur sem efnahagsráðstafanir verða gerðar að einhverju eða mestu leyti áður en kosið er eftir þessum nýju lögum, vegna þess að spá mín er sú, að þessi breyting til bóta muni og breyta pólitísku andrúmslofti og samstarfsgrundvelli þm. á milli.

Ég hef ekki ástæðu til að fjalla um einstök atriði sem hér hafa komið fram hjá þm. Ég vil þó umfram það sem ég hef þegar vikið að ræðu hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar taka aðeins til meðferðar þá staðhæfingu hans, að nú hefði átt að afgreiða stjórnarskrármálið í heild. Ég held að undirbúningur stjórnarskrármálsins í heild hafi því miður ekki verið kominn á það stig að þetta þing hefði verið fært um að taka það til heildarafgreiðslu. Ef um hefði verið að ræða einstaka þætti, sem víðtæk samstaða hefði getað náðst um, hefði málið horft öðruvísi við, en heildarafgreiðsla var ekki möguleg vegna þess að mál þetta hefur ekki hlotið þá umr., hvorki með þingflokkum, á þingi né meðal þjóðarinnar, sem breytingar á kjördæmaskipun og kosningalögum þó hafa fengið.

Það er ekki heldur ástæða til að fjölyrða um ræðu hv. þm. Vilmundar Gylfasonar. Hv. þm. minnir mig á fimm ára gamlan dótturson minn. Sá fimm ára segir gjarnan þegar honum liggur mikið á hjarta: Skilurðu, skilurðu? Þegar hv. þm. Vilmundi Gylfasyni liggur mikið á hjarta segir hann gjarnan: Það er einmitt kjarni málsins. Hann sagði þessa setningu held ég 10–20 sinnum í sinni löngu ræðu í dag. En það er sá munur á þeim fimm ára og hv. þm. Vilmundi Gylfasyni að maður skilur það sem sá fimm ára segir, en hv. þm. Vilmundur Gylfason vefur og flækir svo mál sitt að maður er fjær því að þekkja kjarna málsins eftir hans málflutning en nokkru sinni áður. Hann minnir mann í raun og veru á þm. sem sagði gjarnan: Í þessu máli eru margar þungamiðjur.

Sannleikurinn er sá, að það er merkilegt hvernig jafnskynsamur og skýr maður og ég tel nú hv. þm. Vilmund Gylfason vera getur talað svona mikið um það sem hann segir ekkert vera. Ég tók undir ósk hans um að hafa útvarpsumr. um þetta frv. til stjórnskipunarlaga í góðri trú, vegna þess að ég tel hér um merka bót að ræða á kjördæmaskipun og kosningalögum og góða grein gerða fyrir því hvernig þessi breyting er hugsuð og þess vegna væri full ástæða til að skýra þetta allt sem allra best. Þær skýringar hafa að vísu átt sér stað í fjölmiðlum, en alltaf má gott betur gera. En hv. þm. Vilmundur Gylfason segir þessa breytingu enga vera. Þess vegna er merkilegt hve lengi hann getur talað um ekkert og hvers vegna hann óskar eftir útvarpsumr. úr því að frv. er ekki meira að vöxtum eða merkilegra en hann vill vera láta.

Ég skal ekki fjölyrða um hugmyndir hv. þm. um breytingu á stjórnatskránni eða stjórnskipun að því leyti til að hann ætlar að láta kjósa forsrh. almennum kosningum yfir landið allt, forsrh. skipi síðan ríkisstjórn og beri ábyrgð á framkvæmdavaldinu. Þarna sé kosningarréttur jafn eftir búsetu, en hins vegar ætlar hann að una við misvægi atkvæðisréttar eftir búsetu, sem nú ríkir, 1:4.2 a. m. k., þegar um er að ræða kosningu á löggjafarsamkomu þjóðarinnar. Nú er það svo, að löggjafarsamkoma þjóðarinnar hlýtur að setja framkvæmdavaldinu lög til að fara eftir og starfsreglur. Þar má misvægið halda áfram að vaxa, þar á misjafn kosningarréttur enn að líðast. Þetta segir hv. þm. Vilmundur Gylfason sem þm. í Reykjavík væntanlega. Hann er ánægður með þetta fyrir Reykvíkinga að hafa kannske 1/3–1/4 atkvæðisréttar á við aðra, þegar um löggjöf landsins er að ræða, þegar um það er að ræða að ákveða heildarstefnu sem fara skuli eftir í stjórnmálaþróun landsins. En þegar hann kemur svo að framkvæmdavaldinu, þ. e. ráðstöfun fjár sem er á valdi framkvæmdavaldsins umfram það sem löggjafarvaldið, sem setur fjárlög, segir til um, og þegar hann er að fjalla um framkvæmd í ríkisbönkum og öðru slíku, þá er allt í lagi að kjósa einn mann, forsrh., sem síðan á að skipa ríkisstjórn og hafa í raun og veru framkvæmdavaldið í landinu öllu með höndum.

Ég held að þessi till. hv. þm. sé ekki spor í rétta átt og þjóni alls ekki þeim tilgangi sem hann vill vera láta að hann vilji ná. Það sem hér skiptir auðvitað mestu máli til þess að einstaklingurinn í þjóðfélaginu nái rétti sínum er að ríkisvaldið sé ekki með nefið ofan í hvers manns kirnu. Það er að afskipti ríkisvaldsins af málefnum einstaklinga séu ekki svo mikil sem hv. þm. Vilmundur Gylfason sem sósíaldemókrati og aðrir ríkisafskiptamenn hafa innleitt hér á Íslandi, en Sjálfstfl. einn allra flokka staðið á móti. Og þess vegna held ég að hv. þm. Vilmundur Gylfason ætti að endurskoða þessar tillögur sínar og gera sér grein fyrir því, að hann á að fylgja stefnu okkar sjálfstæðismanna og draga úr ríkisafskiptum. Hann á að láta frjáls samskipti einstaklinga í þjóðfélaginu ráða meira, frjálsan markaðsbúskap, sem er réttlátari til þess að ná tilgangi efnahagslífsins, bættum kjörum til handa öllum landsmönnum, heldur en opinber afskipti, úthlutun og skömmtun, höft, boð og bönn. Þeirri stefnu hefur hv. þm. ásamt öðrum sósíalistum hingað til gjarnan fylgt. (VG: Er það Framkvæmdastofnun ríkisins sem við er átt?) Ég hygg að hv. þm. viti vel að áætlunarbúskapur, sem var ær og kýr þeirrar stofnunar í upphafi vega, er runninn undan rótum þess flokks sem hann sóttist eftir varaformennsku í — ekki lengra síðan en á s. l. hausti.

Við verðum t. d. að átta okkur á því að brtt. hv. þm. Vilmundar Gylfasonar eru svo forkostulegar að um leið og hann er að kvarta yfir því að löggjafarsamkoman sé að missa völd sín í hendur sérfræðinga ætlar hann að gefa sérfræðingunum frítt spil með því að aðskilja framkvæmdavaldið frá löggjafarvaldinu með þeim hætti að gera ekki kröfur til þess að framkvæmdavaldið hafi stuðning meiri hluta löggjafarvaldsins. Og hvað á svo löggjafarsamkoman að gera eftir þessa breytingu? Já, hugsið ykkur það virðulega hlutverk. Löggjafarsamkoman á að hafa eftirlit með framkvæmdavaldinu. Sem dæmi nefndi hv. þm. að þingnefndir ættu fyrir opnum tjöldum að fjalla t. d. um það ef læknar gæfu út of marga lyfseðla. Það á að vera hið virðulega hlutverk nefnda Alþingis. Er ekki ástæða til að ætla að það sé réttlátara þjóðfélag og meira réttaröryggi í þjóðfélagi þar sem slík rannsókn sé annars vegar í höndum embættismanna og hins vegar í höndum dómstóla heldur en einhverjir þm. séu að reyna að slá sér upp í sjónvarpi og með fréttamenn yfir sér að fjalla um hvort einn læknir hafi gefið út of marga lyfseðla eða ekki? Ég held að þetta dæmi, sem hv. þm. tók sjálfur, sýni það best að hv. þm. gerir sér ekki grein fyrir eigin tillögum.

Hv. þm. Vilmundur Gylfason varpaði einni spurningu til mín og spurði: Hver kaus Gunnar Thoroddsen forsrh. í kosningunum í des. 1979? Ég get vel verið sammála því, sem hlýtur að vera forsenda þessarar fsp. hv. þm., að óeðlilega hafi verið staðið að stjórnarmynduninni í febrúar 1980 í kjölfar kosninganna í des. þar á undan. Þar var alveg á mörkum þess að þingræðið væri virt og að mínu mati var það alls ekki gert þá. En látum það liggja á milli hluta í bili. Hins vegar liggur í spurningu hv. þm. að hann teldi betra að forsrh. hefði verið kosinn almennum kosningum. En hvað segir reynslan okkur í vetur og allt frá því í ágúst í sumar um það? Frá því í ágúst í sumar er ljóst að núv. hæstv. ríkisstj. hefur ekki starfhæfan meiri hluta á Alþingi. Það er þetta ástand sem allir þm. hafa í raun og veru liðið undir og þjóðin þó allra mest. En þetta gæti verið viðvarandi ástand ef brtt. hv. þm. Vilmundar Gylfasonar næðu fram að ganga. Og það er ógæfulegt, jafnvel þótt ríkisstj. hafi nú í vetur haft bjarghring einu sinni, tvisvar eða oftar, — bjarghring eins og hv. þm. Vilmundur Gylfason var ríkisstj. við afgreiðslu frv. um skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði nú í dag.

Ég held líka að það sé ákaflega mikil sýndarmennska hjá hv. þm. Vilmundi Gylfasyni þegar hann ber sér á brjóst og talar um að það sé rétt að flytja prófkjörin inn í kosningarnar sjálfar. Hann telur sjálfan sig, að vísu með röngu, upphafsmann prófkjara. (VG: Hvar hefur það komið fram, hv. þm.?) Ef svo er ekki skal ég gjarnan taka þau orð aftur, vegna þess að það er mjög ánægjulegt að það kemur ljóst fram að hv. þm. er það ekki. (Gripið fram í.) Hins vegar lagði hann töluvert upp úr prófkjörum í Alþfl. fyrir kosningar 1978 og 1979, en stofnar svo sjálfur flokk og ber sig ekki eftir því sem hann prédikaði 1978 og 1979. Þess vegna er ekki að ófyrirsynju að hann var spurður um hvenær verði prófkjör í hans eigin pólitíska flokki. Um þau hefur ekkert verið kunngert og enn sem komið er er auðvitað ekki búið að flytja prófkjörin inn í kosningarnar sjálfar.

Hv. þm. Stefán Valgeirsson spurði hvort í mínum huga væri svo stórum áfanga náð í stjórnarskrármálinu að rétt væri að fresta stjórnarskrármálinu að öðru leyti. Ég get svarað því til að að vísu er deilt um hversu mikla nauðsyn ber til að gera breytingar á stjórnarskránni að öðru leyti en varðar kjördæmamálið og kosningalögum í kjölfar þess. En án þess að taka afstöðu til þess ágreinings hygg ég, eins og ég gat um fyrr í minni ræðu, að stjórnarskrármálið sé ekki svo vaxið að unnt væri að afgreiða það á þessu þingi, en hins vegar sé svo brýnt að ná þeirri leiðréttingu á misvægi atkvæða eftir búsetu og ná þeim jöfnuði á þingstyrk flokka og kjósendafylgi sem fylgir þessum stjórnskipunarlögum að áherslu beri að leggja á að fá þessar breytingar í lög. Um leið undirstrika ég það, að ég tel ákaflega mikinn ávinning nú, þegar okkur Íslendingum er mikill vandi á höndum, að ná sem víðtækastri samstöðu um þessar breytingar. Þótt ég sé ekki ánægður með að markmiðinu um fullt jafnvægi atkvæða eftir búsetu sé ekki náð, þá er þó þeim áfanga náð sem ég tel mikils virði og til þess fallinn að forsendur skapist fyrir því að við ráðum einnig við vandamál okkar á öðrum sviðum.