08.03.1983
Neðri deild: 55. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2719 í B-deild Alþingistíðinda. (2559)

206. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Þegar dregur að lokum þessarar umr. er kannske rétt að rifja það upp fyrir þeim báðum hv. þdm. sem hér þreyja enn í salnum að þessi umr. er um stjórnarskrármál. Við erum hér að ræða frv. til stjórnskipunarlaga, sem m. a. felur í sér að meiri hl. þings hyggst leiða í stjórnskipunarlög að atkvæðisréttur íslenskra ríkisborgara skuli vera misjafn og það skuli fara eftir búsetu manna, að það eigi að verðleikaflokka íslenska ríkisborgara, að það skuli rétt dæmast að sumir Íslendingar skuli hafa óskertan atkvæðisrétt en aðrir skuli láta sér nægja vegna búsetu sinnar að hafa hálfan atkvæðisrétt eða jafnvel fjórða part úr atkvæðisrétti eða jafnvel fimmta part. Og það sem mest er: Að því er stefnt fullum fetum af yfirgnæfandi meiri hluta þings að þetta misrétti íslenskra ríkisborgara skuli bundið í stjórnarskrá með varanlegum hætti.

Nokkrir hv. þdm. hafa séð ástæðu til að víkja nokkrum orðum að málflutningi mínum fyrr við þessar umr., þar sem ég hef leyft mér að andmæla því að menn skuli láta sér detta í hug að leiða slíkt misrétti í lög. Ég hef reyndar lýst þeirri skoðun minni að það að leiða slíkt misrétti í stjórnarskrá sé mannréttindabrot og samræmist á engan veg grundvallarhugmyndum manna um hvað stjórnarskrá er.

Stjórnarskrá á að vera mannréttindaskrá — skrá um þau sameiginlegu almennu réttindi sem öllum þegnum ríkisins eru tryggð. En undir engum kringumstæðum á stjórnarskrá að vera pólitískt samsæri um að gera upp á milli borgaranna og skammta þeim á mjög hæpnum forsendum og vafasömum atkvæðisrétt, sem sker úr um hvort menn sitja við sama borð, hvort menn eru fullgildir þegnar í ríkinu, hvort menn eiga að njóta almennra mannréttinda, að skammta borgurunum á hæpnum forsendum mismunandi aðstöðu, mismunandi áhrif og það eftir búsetu.

Ég sýndi fram á það við umr. fyrr, að sú kenning að félagsleg aðstaða fólks fari aðeins eftir búsetu fær hreinlega ekki staðist. Ég sýndi fram á það með ærnum rökum að félagsleg aðstaða fólks fer eftir ótal mörgum öðrum þáttum og flestum öðrum þáttum reyndar en búsetu. Þessum rökum hefur ekki verið hnekkt þó að þeim hafi verið andmælt og það er ekki hægt að hnekkja þeim vegna þess að þessar röksemdir eru sannar. Um þetta þarf út af fyrir sig ekki að fjölyrða. En að því er varðar aths. nokkurra hv. þm. um þetta læt ég mér nægja að vitna til ræðu hv. 5. þm. Vestf. og tek hann sem dæmi um alla hina. Mér þykir leitt að þurfa að játa að mér fannst ræða hv. 5. þm. Vestf. í þessu máli ákaflega slæm. Forsendur í máli hans voru fyrst og fremst fordómar, uppistaðan í vefnum var rökleysa og niðurstaðan var fjarstæða. Fjarstæðan var sú að halda því fram að félagsleg aðstaða fólks í ríkinu fari fyrst og fremst eftir búsetu og tengja það síðan saman að það ætti að vega og meta atkvæðisrétt manna á þann mælikvarða. Hv. 5. þm. Vestf. sagði það illt verk og löðurmannlegt að etja saman borgurum ríkisins, að efna til ófriðar milli þéttbýlis og dreifbýlis, en uppistaðan í ræðu hans var nákvæmlega þetta. Uppistaðan í ræðu hans, innihald hennar, kjarni hennar var einmitt að ala á sundrungu, að ala á illindum milli borgara í þessu ríki einmitt eftir búsetusjónarmiðum.

Hv. þm. hefur áður vísað til þeirra orða að ekki megi svo fara að íslenska þjóðin skiptist í tvær þjóðir, í borgríki hér á Faxaflóasvæðinu og svo hins vegar þjóðveldið á landsbyggðinni. Og hann boðaði ákaflega sjálfstæðisbaráttu hinna kúguðu út um hinar dreifðu byggðir. Hann sótti sér vopn í þessari sjálfstæðisbaráttu einkum og sér í lagi til Danmerkur. Öðruvísi mér áður brá.

Reyndar var það svo, að hv. 1. þm. Vestf. svaraði þessum röksemdum þannig að ekki þarf frekar um að binda. Hann leiddi þessa röksemdafærslu til rökréttrar niðurstöðu með því að spyrja: Ef Dönum þykir við hæfi að tengja sinn atkvæðisrétt að einhverju leyti við flatarmál Jótlands væri þá ekki réttara hjá okkur að gera slíkt hið sama? Eigum við ekki að mæla atkvæðisréttinn á einhverja vísitölu, skriðjökla, eyðisanda? Hann nefndi dæmi um að Austfirðingar ættu að hafa 12 þm. ef Vatnajökull væri talinn með. Og spurt var: Væri ekki nær að vega þetta á annan mælikvarða, strandlengjuna eða miðin út af viðkomandi kjördæmi eða landsfjórðungi? Við nánari umhugsun sér maður að þetta er síst vitlausari hugmynd en hin að vega eigi atkvæðisrétt á mælikvarða búsetu. Hvort tveggja er fjarstæða.

Ég spurði fyrr við þessar umr.: Fer félagsleg aðstaða einstaklinga bara eftir búsetu? Ég hef ekki fengið nein svör í þessum umræðum við þeirri spurningu. Auðvitað er augljóst mál að svo er ekki. Félagsleg aðstaða fólks fer eftir ótal mörgum þáttum. Hún getur verið stéttbundin. Hún getur markast af eignum, efnahag, tekjum, skólagöngu og ótal öðrum persónulegum og einstaklingsbundnum þáttum. Félagsleg aðstaða láglaunafólks í þéttbýli mótast fyrst og fremst af slíkum þáttum fremur en búsetu. Ef við förum að vega og meta byggðarlög landsins kemur fljótlega í ljós að tölfræðilegt mat á þessu er í fyrsta lagi út í hött og í annan stað að rökrétt samhengi milli þessa og atkvæðisréttar leiðir til algerlega fráleitra niðurstaðna.

Skýrasta dæmið um þetta er auðvitað að félagslegur aðstöðumunur er í flestum tilvikum hvað mestur innan eins og sama kjördæmis. Það er staðreynd, að bóndi sem býr afskekkt langan veg frá sameiginlegum félagslegum þjónustumiðstöðvum samfélagsins geldur þess að ýmsu leyti. Hann hefur mun verri félagslega aðstöðu en þéttbýlisbúi í sama dreifbýliskjördæmi. Ef menn segja á annað borð að atkvæðisrétt eigi að vega og meta eftir nálægð við slíkar stofnanir verða menn að draga af því þá rökréttu ályktun að atkvæðisrétturinn eigi að vera ólíkur og mismunandi innan þessa sama kjördæmis.

Dæmið sem ég tók af bóndanum á Barðaströndinni þýðir nákvæmlega þetta. Samkv. þessari rökvísi á hann að hafa tvöfaldan, þrefaldan, fjórfaldan eða fimmfaldan atkvæðisrétt á við þann þéttbýlisbúa í sama kjördæmi sem nær býr skólum, grunnskólum, framhaldsskólum, heilsugæslustöðvum eða öðrum þeim stofnunum sem verið er að tala um. Það hefur engin tillaga heyrst um að leysa mál með þessum hætti, það hefur ekki hvarflað að neinum manni, sem sýnir um leið að öll röksemdafærslan um að atkvæðisréttur manna eigi að fara eftir slíkum sjónarmiðum er fjarstæða.

Það er hægt að nefna dæmi um ótal starfshópa í þjóðfélaginu sem búa við lakari félagslega aðstöðu en annað fólk — fólk sem er hreyfihamlað eða fatlað, fólk sem af heilsufarsástæðum er síður fært til að notfæra sér sameiginlega félagslega aðstöðu. Eiga menn virkilega að svara þessu fólki því til að það eigi að bæta því þennan aðstöðumissi eða þennan aðstöðuskort upp með auknu atkvæðavægi? Svarið er ósköp einfaldlega það, að það hvarflar ekki að neinum manni og niðurstaðan er aftur sú hin sama: Þetta eru fjarstæðukenndar röksemdir.

Það er illt verk að ala á sundurþykki, úlfúð og illindum milli borgara í ríkinu eingöngu eftir því hvar þeir eru búsettir á landinu. Og spurningin er: Hverjir eru það sem upphefja slíkar deilur? Eru það talsmenn þess fólks sem sannanlega og óvefengjanlega býr við það að því er ætlað samkv. þeim till. sem hér liggja fyrir að una því áfram að fulltrúar minni hluta þjóðarinnar ætla að skammta þeim hálft vægi atkvæða, hálft atkvæði eða þaðan af minna, og leiða slíkt misrétti í stjórnlög ríkisins? Eru það þeir sem slíku misrétti eru beittir sem vekja upp þessar deilur þó að þeir fari fram á að fá að sitja við sama borð og aðrir þegnar ríkisins? Nú er ekki langt gengið í þeim brtt. sem hér hafa verið fluttar. Það er ekki farið raunverulega fram á annað en þessi meiri hl., sem styðst við minni hl. þjóðarinnar, láti vera að beita valdi sínu til að binda þetta misrétti í stjórnarskrárlög, sem líka er fjarstæðukennd hugmynd að gera. Það er nú allt og sumt. Það er nú allt offorsið. Það eru nú öll illindin, sem verið er að efna til.

Það er verið að setja fram sanngirniskröfur með ærnum rökum og það er búið að sýna fram á það og því hefur ekki verið svarað og því verður ekki hnekkt, að öll hugmyndin um að tengja atkvæðisrétt manna við búsetu er svo fjarstæðukennd að fyrir henni verða ekki flutt nein rök sem haldbær geta talist. Þetta eru ósköp einfaldlega fordómar, sleggjudómar, og af þessum fordómum kviknar sú illskáa umræða að það eigi að bæta fólki upp aðstöðumun, sem stafar af ótal öðrum þáttum en búsetu, með því að tryggja þeim kjördæmum sem á landsbyggðinni eru eða þegnum þeirra meiri atkvæðisrétt en öðrum. Menn verða ósköp einfaldlega, sem þessu halda fram, að svara því: Ef forsendan á að heita að vera rétt eru þeir þá reiðubúnir að leiða í lög, koma með tillögur um það, að einstakir starfshópar eða einstök byggðarlög, að einstaklingar eftir stéttum innan sama kjördæmis með nákvæmlega sömu rökum hafi ólíkan atkvæðisrétt? Á þá atkvæðisréttur manna að breytast, ef þeir skipta um starf, alveg eins og atkvæðisrétturinn breytist ef menn skipta um bústað?

Það er alkunna að Vestfirðingar sem flytja brott, og þeir eru margir því meiri hluti Vestfirðinga býr reyndar utan Vestfjarða, verða að skilja eftir 4/5 atkvæðisréttar síns þegar farið er um Gilsfjarðarbotn. Ætti bóndinn sem hættir búskap, en flytur við skulum segja af Barðaströndinni á Patreksfjörð, að sitja uppi með sem því svarar minni atkvæðisrétt en ætti að tryggja honum sem bónda vegna fjarlægðar frá heilsugæslustöð í Búðardal?

Auðvitað sjá allir menn við nánari umhugsun að öll þessi röksemdafærsla er reist á sandi. Hún fær ekki staðist. Hún er ekkert annað en fordómar. Hún er fordómar af nákvæmlega sama taginu og kveðnir voru niður í þessu þjóðfélagi fyrir mörgum áratugum, þegar forréttindastéttir þessa lands töldu sjálfsagt að gildir bændur, eignamenn, ættu að hafa atkvæðisrétt, en fátækt fólk og umkomulaust ætti ekki að hafa atkvæðisrétt. Þetta eru nákvæmlega sömu fordómarnir og þegar því var haldið fram að karlmenn ættu að hafa fullgildan atkvæðisrétt eða a. m. k. sumir þeirra, en konur, helmingur þegnanna, væru ekki verðugar þeirra mannréttinda að njóta atkvæðisréttar.

Ég hef vitnað til þess áður og vitna til þess enn að það hefur sögulega séð verið hlutverk þess stjórnmálaflokks sem ég tilheyri að kveða niður slík fornaldarviðhorf, og það er ósæmandi öllum mönnum sem kenna sig við lýðræðislega jafnaðarstefnu að vekja upp slíka fornaldardrauga.

Hv. 5. þm. Vestf. brigslaði mér um að hafa skipt um skoðun í þessu máli. Hann hélt því fram með miklu offorsi að á þeim árum þegar ég var búsettur í hans núverandi kjördæmi, þar sem ég reyndar er fæddur og uppalinn, hefði ég haft allt aðra skoðun á þessu máli. Líka þessi fullyrðing hv. 5. þm. Vestf. er ósönn og fjarstæða.

Það vill svo til að um tveggja ára skeið, ef ég man rétt átti ég sæti í stjórnskipaðri nefnd, sem hafði það verkefni að gera tillögur til forsrn. um dreifingu ríkisstofnana um landið. Af því tilefni flutti ég á árinu 1976 erindi í Ríkisútvarpið, þar sem hugmyndir, sem þá voru ræddar innan þessarar nefndar, voru meginumræðuefnið. Þar tók ég það sérstaklega fram að sem landsbyggðarmaður væri ég ekki þeirrar skoðunar að dreifbýlisbúar og landsbyggðarmenn ættu að heyja baráttu sína fyrir jöfnun félagslegs aðstöðumunar með þeim rökum eða á þeim forsendum að þann mun ætti að bæta upp með misvægi í atkvæðisrétti. Slík rök stæðust ekki. Þar væri verið að blanda saman óskyldum málum. Það sem ætti að gera, og það sem væri rétta leiðin í þessu máli, væri auðvitað að landsbyggðarmenn ættu að gera kröfu til þess að hluta af því mikla miðstjórnarvaldi, sem búið væri á undanförnum árum og áratugum að safna á hendur ríkisstjórnar, stjórnarráðs, sérfræðinga og embættismannavalds hér í höfuðborginni, ætti að skila aftur út til fjórðunganna, út til sveitarfélaganna. Ég setti fram þær hugmyndir og þá stefnu, að landsbyggðarmenn ættu að geta sameinast um að gera kröfu um valddreifingu frá miðstjórnarvaldi ríkisins til hinna dreifðu byggða. Þeir ættu að gera tillögur um með hvaða hætti sveitarfélög og stærri einingar sveitarfélaga, og þá einkum og sér í lagi fjórðungarnir, ættu að fá tryggt í stjórnskipan ríkisins, að þeir fengju vald til þess að taka sjálfir ákvarðanir um helstu verkefni og framkvæmdir hver í sínum landsfjórðungi og fá til þess tekjustofna þannig að saman færu tekjustofnar, ákvörðunarvald og ábyrgð. Þetta væri reyndar með mest aðkallandi umbótum á stjórnkerfi ríkisins, sem ástæða væri til að berjast fyrir í okkar þjóðfélagi.

Ég hef m. ö. o. alls ekki skipt um skoðun í þessu máli. Ég er enn nákvæmlega sömu skoðunar og ég var á, þegar ég var um átta ára skeið bæjarfulltrúi á Ísafirði og forseti bæjarstjórnar þar um tíma. Ég hef ekki skipt um skoðun. Ég er nákvæmlega þeirrar sömu skoðunar, að sú leið sem landsbyggðarmenn eigi að fara sé þessi. Og það vill svo til að sá flokkur sem ég tilheyri hefur lýst því yfir í stefnuskrá sinni og fylgt þeirri stefnu sinni eftir með flutningi mjög merkilegs þingmáls hér á þingi, og vísa ég þá til þáltill. hv. þm. Magnúsar H. Magnússonar, þar sem hann mótar þá stefnu að færa tekjustofna og verkefni frá miðstjórnarvaldi ríkisins yfir til sveitarfélaganna jafnframt sem að því skuli stefnt að sameina sveitarfélögin í stærri stjórnsýslueiningar þannig að þau fái ráðið við þau verkefni sem þau ættu þannig að taka við frá miðstjórnarvaldi ríkisins.

Herra forseti. Ég endurtek að fullyrðingar og brigslyrði hv. 5. þm. Vestf. um að skoðanir mínar í þessu máli hafi farið eftir því hvar ég var búsettur á landinu eru rangar og ég vísa þeim heim til föðurhúsa. En hitt er staðreynd, að frá og með þeim degi að ég fluttist búferlum frá Ísafirði hlaut ég að lúta þeirri nauðung að skilja 4/5 hluta af atkvæðisrétti mínum eftir í því kjördæmi sem ég flutti úr. Fyrir því eru engin rök, hvers vegna maður sem flytur búferlum úr einu kjördæmi í annað á að verðleikaflokkast af þeim sökum á allt annan máta.

Hv. 1. þm. Vestf. Matthías Bjarnason, sem um leið er fulltrúi Sjálfstfl. í stjórnarskrárnefnd, lýsti efasemdum sínum og andstöðu sinni við þær tillögur sem við dr. Gylfi Þ. Gíslason fluttum í stjórnarskrárnefnd um breytingar á kjördæmaskipun. Þessar tillögur eru birtar í skýrslu stjórnarskrárnefndar um kjördæmamálið, sem sendar voru af þingflokkum í byrjun jan. s. I. Hér er fyrst og fremst um það að ræða að stjórnarskrárnefnd setti fram ýmsa kosti, ýmsar tillögur fyrir þingflokkana að velja úr. Ein af þessum till. var sú, að í framhaldi af kjördæmabreytingunni 1959 yrði skrefið stigið lengra og í stað átta kjördæma yrði tekin upp kjördæmaskipun byggð á fornri umdæmaskipan landsins — kjördæmaskipun sem markaðist af landsfjórðungunum og höfuðborginni, þar sem kjördæmin yrðu fimm, höfuðborgin og landsfjórðungarnir fjórir. Þess vegna nefni ég þetta að einmitt þessi till. samræmist mjög vel hugmyndum mjög margra sveitarstjórnarmanna. Forsendan fyrir óskum okkar og vonum um að valdinu verði dreift frá miðstjórnarvaldi ríkisins til sveitarfélaganna nær því fólki sem staðarþekkinguna hefur er einmitt sú, að sveitarstjórnarumdæmin verði stækkuð. Þessi till. er í fullkomnu samræmi við sögulegar erfðir okkar og hún er þegar af þessum ástæðum, vegna þess að hún tengist hugmyndum manna um umbætur á sveitarstjórnarskipuninni, hin ágætasta till. Það er svo aukaatriði þessa máls að við útreikninga á því hvernig þessi kjördæmaskipan félli að þeim mælikvörðum, sem við gjarnan settum á allar þær tillögur, þ. e. hvernig vægi atkvæðisréttar eftir búsetu hefði komið út samkv. þessari tilteknu till., þá kom það á daginn að þetta var sú till. sem bestum árangri skilaði til þess að draga úr misvægi atkvæðisréttar eftir búsetu — bestum árangri skilaði t. d. á þann mælikvarða. Og ef saman fer að þar með er stigið stórt skref í rétta átt og við það bætist að þessi kjördæmaskipan gæti í leiðinni greitt götuna fyrir því að nýjum máttarstoðum yrði rennt undir sveitarstjórnarskipunina, sem aftur væri forsenda fyrir valddreifingu frá ríkinu til byggðanna, þá er þetta eins og ég sagði áðan hin ágætasta till. Og mig furðar satt að segja á því að menn, sem gera sér eðlilega samkv. sinni starfsreynslu mjög títt um hagsmuni sveitarfélaganna, skuli ekki taka betur undir slíka till.

Hv. 1. þm. Vestf. Matthías Bjarnason taldi líka mikla annmarka á þeim till. sem við dr. Gylfi Þ. Gíslason settum fram í stjórnarskrárnefnd um landið eitt kjördæmi, sem eins og kunnugt er er eina till. sem tryggir öllum þegnum ríkisins skilyrðislaust, hvar svo sem þeir búa eða hver sem félagsleg aðstaða þeirra er að öðru leyti, sömu mannréttindin, sama atkvæðisréttinn um land allt. Hann hreyfði þeim mótbárum, sem oft eru nefndar í þessu samhengi, að slík skipan mundi leiða til óþolandi flokksræðis. Þau rök hafa í hálfa öld verið færð gegn þessum tillögum. Því er til að svara, að hjá þessum annmarka er hægt að komast vegna þess að þó að kosningaskipanin væri sú að kosið yrði samkvæmt hlutfallskosningum um landið allt er auðvitað hægt að framkvæma þær kosningar í kjörsvæðum og það má leggja til grundvallar núverandi kjördæmaskipun þess vegna eða fjórðunganna. Slík skipan mundi ekki koma í veg fyrir að kosningaúrslit á landinu öllu yrðu samkv. reglunni einn maður — eitt atkvæði, en engu að síður væri með slíkum hætti hægt að koma við persónulegu vali kjósenda á kjörsvæðum. Þetta nefni ég til þess að sýna fram á að það er hægt að sníða þessa agnúa af, það er hægt að mæta þessari gagnrýni og komast hjá þessum ókostum.

Herra forseti. Hér liggja fyrir margar brtt. frá hv. 4. þm. Reykv. Vilmundi Gylfasyni. Sú till. sem er viðamest er á þskj. 522. Hún fjallar um þjóðkjörinn forsrh. Hún er m. ö. o. hluti af þeim till. sem fimmti flokkur þjóðarinnar hefur sett fram hér á hv. Alþingi um svokallað franskt kerfi. Ég hef áður vikið að þessum hugmyndum. Hv. 4. þm. Reykv. svaraði því fyrr við þessar umr., en á svo ófullkominn hátt að ég held að ástæða sé til að fjalla rækilegar um spurninguna: Hvaða afleiðingar hefði það að öllum líkindum fyrir íslenskt stjórnarfar ef slíkar tillögur næðu fram að ganga?

Við skulum aðeins skoða ástandið í íslensku þjóðfélagi eins og það er. Ef lýsa ætti stjórnmálaástandinu hér og nú þessi misserin með einu orði hygg ég að vandfundið sé annað orð sem betur lýsir því en þetta eina: stjórnleysi. Hér ríkir algert stjórnleysi í efnahagslífinu. Mælikvarðinn á þetta stjórnleysi er 100% verðbólga, þ. e. 100% stjórnleysi, því verðbólga er í innsta eðli sínu í raun og veru stjórnleysisástand. Hvers vegna er ríkjandi hér stjórnleysi? Það er m. a. vegna þess að upp er kominn alger árekstur vegna framkvæmdar handhafavaldsins, ríkisstjórnarinnar sem er kölluð, og Alþingis. Sú ríkisstjórn sem hér situr er í reynd eins konar starfsstjórn, þar sem hún styðst ekki lengur við neinn þingmeirihluta og kemur þar af leiðandi engum málum fram. Þetta ástand kallar hæstv. forsrh. starfsstjórnarinnar stjórnskipulega sjálfheldu. Þessi ríkisstjórn hefur setið hér í allan vetur án þingmeirihluta og þar sem hún er án þingmeirihluta er hún pólitískt getulaus. Stjórnarandstaðan hefur ekki heldur afl atkv. til þess að koma þessari stjórn frá völdum né heldur afl atkv. til þess að mynda annan meiri hluta. Niðurstaðan er einföld: Stjórnkerfið er lamað. Þetta ástand hefur verið viðvarandi allt frá því að Alþingi var sett á s. I. hausti. Hugsandi menn í öllum flokkum hryllir við þeirri tilhugsun að þetta ástand haldi áfram að kosningum loknum. Líkurnar á því aukast þó dag frá degi eftir því sem framboðsaðilum fjölgar og hin pólitíska upplausn vex. Líkurnar á því að unnt verði að mynda starfhæfa meirihlutastjórn, þingræðisstjórn, að kosningum loknum minnka að sama skapi.

Herra forseti. Hér höfum við fyrir augunum í hnotskurn afleiðingarnar af alvarlegum árekstri framkvæmdavalds og löggjafarvalds. Afleiðingin er í einu orði sagt stjórnleysi.

Nú er það eftir öðru að á upplausnartímum koma fram á sjónarsviðið sem endranær innblásnir mannkynsfrelsarar sem tala tungum og sjá sýnir og boða lýðnum patentlausnir á öllum vanda. Tillaga hv. 4. þm. Reykv. um hið svokallaða franska kerfi er einmitt slík patentlausn. Hver eru meginatriði þessarar till.?

Till. er um að taka upp forsetaveldi og afnema þingræði í þeim skilningi að ríkisstjórn verði að styðjast við meiri hl. þings eða vera umborin af því. Flm. kennir þessar hugmyndir sínar við franskt kerfi, en þegar nánar er að gáð kemur á daginn að þetta er misskilningur hv. flm. á franska kerfinu.

Lagt er til að forsrh. verði kosinn beinni kosningu um land allt. Ólíkt því sem er í franska kerfinu á að kjósa forsrh. með allt annarri kosningaaðferð en þingið. Vægi atkv. á að vera jafnt þegar forsrh. er kosinn, handhafi framkvæmdavaldsins: einn maður — eitt atkv.

Þar sem meiri hl. þjóðarinnar, um 60% nú, býr í þéttbýli, þá gefur auga leið að framkvæmdavaldið mun heldur hallast inn á þéttbýli, eins og viðurkennt er berum orðum í grg. með till. Þetta er enn betur tryggt með því að forsrh. á að kjósa í tveimur umferðum, sem þýðir að hann verður að ná meirihlutakosningu. Það fer ekki milli mála að allar líkur benda til þess að samkv. þessu kosningakerfi verði forsrh., handhafi framkvæmdavaldsins, kosinn af meiri hl. þjóðarinnar og endurspegli það í pólitískum skilningi.

Þessi forsrh, á síðan að skipa sína ríkisstjórn og það sem meira er: það er tekið fram í till. að þingrofsréttinn eigi að afnema. Það er gerólíkt því sem er í franska kerfinu, því að það er eitt meginatriðið í þessu franska kerfi að handhafi framkvæmdavaldsins hefur þingrofsrétt. Fyrsta verk Francois Mitterand Frakklandsforseta, þegar hann hafði náð kosningu sem forseti Frakka, var að beita þessu þingrofsvaldi til að senda þingið heim til þess að efna til nýrra þingkosninga, til þess þar með að tryggja sér nýjan þingmeirihluta þannig að ekki kæmi til áreksturs, sem er meginhættan í þessu kerfi, milli forsetavalds og löggjafarvalds.

Ólíkt því í þriðja lagi sem er í Frakklandi á samkv. þessum till. að kjósa löggjafarvaldið eða Alþingi með allt annarri kosningaaðferð. Þar gerði flm. ráð fyrir óbreyttri kjördæmaskipan og óbreyttum kosningalögum. Hvað þýðir það? Það þýðir að flm. ætlast til þess að minni hl. þjóðarinnar í hinum fámennari kjördæmum skuli áfram hafa yfirgnæfandi meirihlutavald á Alþingi. M. ö. o.: þessar tillögur hljóða upp á að meirihlutavaldið á Alþingi verði kosið með allt öðrum hætti en framkvæmdavaldið. Þetta þýðir að meiri hl. Alþingis verður allt öðruvísi saman settur en sá meiri hl. sem kýs forsrh. Það þýðir að tillögumaður, sem kennir sig við jafnaðarstefnu, ætlar um ófyrirsjáanlega framtíð að bjóða meiri hl. þjóðarinnar í tveimur fjölmennustu kjördæmunum, Reykjavík og Reykjanesi, að fara með aðeins 1/4 eða 1/5 part úr atkv. þegar kosið er til Alþingis. Það má orða á annan veg: Samkv. till. hv. 4. þm. Reykv. á aðeins 1/4 eða 1/5 og bráðum kannske aðeins 1/6 hver kjósandi í Reykjavík að hafa atkvæðisrétt í alþingiskosningum. Þetta misrétti, þetta misvægi atkvæðisréttar, á samkv. hugmyndum hv. 4. þm. Reykv. að binda í stjórnarskrá alveg eins og nú er og með svipaðri búsetuþróun og verið hefur má slá því föstu að þetta misvægi atkvæðisréttar muni fara hraðvaxandi á næstu árum.

Til hvers konar ástands mun þetta stjórnkerfi, sem hér er stungið upp á, að öllum líkindum leiða? Það blasir alveg við augum. Hin stjórnskipulega sjálfhelda núv. hæstv. forsrh. er innbyggð í þetta kerfi. Þetta kerfi mun fyrirsjáanlega leiða til óleysanlegra árekstra milli framkvæmdavalds og löggjafarvalds. Það mun fyrirsjáanlega leiða til lömunar stjórnkerfisins í einu orði sagt. Það mun leiða til stjórnleysis sem varanlegs ástands þess ástands sem þjóðin stynur undan nú og biður til guðs á hverjum degi að frá henni megi víkja. Sú er raunverulega lýsingin á því sem þetta kerfi muni leiða til. Þessi till. er sorglegt dæmi um að læknisráðið sem boðið er upp á er verra en sjúkdómurinn, sem þó á að heita að það eigi að lækna.

Það er rétt að undirstrika að þessi till. er ekki till. um franskt kerfi, heldur er þetta misskilningur hv. flm. á franska kerfinu. Í Frakklandi er sama kosningaaðferð notuð hvort heldur er verið að kjósa til þings eða forseta. Aðferðin er meirihlutakosning í tveimur umferðum — í einmenningskjördæmum í báðum tilvikum. Í forsetakosningum er það landið allt sem er eitt kjördæmi, en í þingkosningum er landinu skipt í smærri einmenningskjördæmi. Í báðum tilvikum er um að ræða meirihlutakosningu í tveimur umferðum. Þar að auki hefur forsetinn samkv. franska kerfinu þingrofsrétt í Frakklandi. M. ö. o.: hann hefur þann möguleika, ef til þessara árekstra kemur milli framkvæmdavalds og löggjafarvalds, sem að vísu er kosið með sama hætti í Frakklandi, en ekki samkv. till. höfundar, að beita þessu þingrofsvaldi til að senda þingið heim og leysa þannig þá árekstra. En einmitt þetta tæki boðar hv. flm. að hann vilji afnema og sitja þá uppi vopnlaus og varnarlaus gagnvart þeim árekstri framkvæmdavalds og löggjafarvalds sem till. mun leiða til.

Því til viðbótar má geta þess, að höfundur franska kerfisins, Charles de Gaulle hershöfðingi, hafðí enn einn öryggisventil til að afstýra slíkum árekstri í franska kerfinu. Þar vísa ég til 16. gr. frönsku stjórnarskrárinnar, sem heimilar forseta fyrirvaralaust að taka sér alræðisvald og senda þingið heim hvenær sem honum þóknast. Þeir sem þekkja til sögu Frakka og fimmta lýðveldisins vita að ákvæði þessarar greinar var beitt.

Herra forseti. Viðeigum að vísu enn eftir að telja hersveitir hv. 4. þm. Reykv., Vilmundar Gylfasonar, og eftir er að sjá hvernig skikkja hershöfðingjans hæfir honum, þegar hann ber kápuna svo greinilega á báðum öxlum í skilningi sínum á franska kerfinu.

Nú skal það játað að meiningin er nokkuð góð hjá hv. flm. þó að aðferðin sé vitlaus og leiði til þveröfugrar niðurstöðu á við það sem meiningin er. Meiningin er sú að tryggja aðskilnað löggjafarvalds og framkvæmdavalds. Niðurstaða verður hins vegar í staðinn alger árekstur framkvæmdavalds og löggjafarvalds. Hið ómótstæðilega afl framkvæmdavaldsins mun samkv. þessum till. brotna á óbifanlegu bjargi landsbyggðarmeirihlutans, sem mun byggja vald sitt á misvægi atkvæðisréttarins, sem enn á að bjóða upp á. Afleiðingarnar verða að öllum líkindum þær, að það upplausnar- og stjórnleysisástand, sem við nú höfum fyrir augunum og flestir fordæma nema þeir sem fitna á því eins og púki á fjósbita, verður varanlegt og mun að lokum koma í veg fyrir að pólitískar forsendur verði fyrir því að leysa brýnustu vandamál sem greinilega er við að fást á næstu árum.

Ég er algerlega sammála þeirri skoðun að draga verði skarpari skil og skýrari rök milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds. Til þess að svo megi verða þarf hins vegar ekki að afnema þingræðið. Til þess þarf reyndar ekki annað en þingmeirihluta fyrir löggjöf, sem skilgreini og takmarki verksvið og valdsvið hvors aðilans fyrir sig, en það þarf líka samkv. þessum tillögum hv. 4. þm. Reykv. þingmeirihluta til að koma því kerfi á. Þessu markmiði er hægt að ná með því að leiða í stjórnlög eftirfarandi setningu: Alþingismanni er óheimilt að hafa með höndum launuð störf í þágu opinberra stofnana eða einkaatvinnufyrirtækja meðan kjörtímabil hans endist.

Þessi setning er reyndar 9. gr. gildandi stjórnarskrár. Eina breytingin er sú, að í staðinn fyrir orðið forseti hef ég sett orðið alþm. Samkv. nýjum stjórnarskrártill. er hæstaréttardómurum óheimilt að gegna umboðsstörfum. Þeir eru ekki heldur kjörgengir. Þannig er verksvið þeirra skilgreint og takmarkað. Með nákvæmlega sama hætti er hægt að ná því markmiði að draga eðlileg skýr mörk milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds, skilgreina verksvið hvors aðilans um sig með því að lögleiða stjórnarskrárákvæði af því tagi sem ég nú las upp og þegar gildir t. d. um æðsta embætti lýðveldisins, forsetaembættið. Um þetta geta menn verið sammála. Þetta þarf að gera. Hins vegar er mér til efs að fyrir slíkum tillögum sé nú meiri hluti á Alþingi. Þá ber að vinna að því að skapa slíkan meiri hl. með pólitískri baráttu og þeirri baráttu vil ég vissulega leggja lið fyrir mitt leyti.

Ég vek athygli á að þess er krafist t. d. af forseta Bandaríkjanna að hann afsali sér hlutabréfum í fyrirtækjum, sem hann kann að hafa átt aðild að, meðan hann gegnir embætti forseta. Sömu kröfu ber að gera til alþm. Það á að vera hafið yfir grun að þeir láti einkahagsmuni ráða afstöðu sinni eða gerðum í löggjafarstarfi.

Alþingi á að fara með löggjafarvald, fjárveitingavald og eftirlitsvald með framkvæmdavaldi. Um þetta eru allir jafnaðarmenn sammála. Þrátt fyrir þann skæting sem hv. 4. þm. Reykv. hefur gert að kæk að senda sínum fyrri samherjum þegar hann opnar munninn, sem sumum finnst vera helst til oft, hefur hann varla haft við í vetur hér á Alþingi að mæla fyrir tillögum sem ýmsir fyrrverandi samherjar hans þm. Alþfl. hafa flutt með honum hér á þingi.

Nokkur dæmi: Tillögur um aukið vald og verksvið þingnefnda til eftirlits með framkvæmdavaldinu. Annað dæmi: Till. um að takmarka verksvið framkvæmdavaldsins með því að svipta það valdi til útgáfu brbl. Fleiri till. má nefna af þessu tagi, sem fulltrúar Alþfl. í stjórnarskrárnefnd hafa þar komið á framfæri og miða að því að efla sjálfstæði Alþingis gagnvart löggjafarvaldinu og draga skýrari mörk á milli þess og framkvæmdavaldsins. Um þetta hefur enginn ágreiningur verið innan Alþfl. Um þetta geri ég engan ágreining heldur við hv. 4. þm. Reykv.

Tökum sem dæmi Framkvæmdastofnun ríkisins, þessa gróðrarstíu spillingarinnar sem oft er kölluð, þessa stofnun sem hæstv. forseti þessarar deildar var að verja í sjónvarpsþætti í kvöld. Formaður þingflokks Alþfl. flutti á seinasta þingi frv. til l. um að leggja þá stofnun niður, en færa þess í stað áætlunargerð um byggðamál inn í rn. Við hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir fluttum um daginn sólarlagsfrv. um að leggja hana niður eigi síðar en um næstu áramót. Það skal tekið fram, að þessi tillöguflutningur er í samræmi við yfirlýsta stefnu Alþfl.

Þá er spurt: En á ekki Alþfl. fulltrúa í stjórn þar eins og aðrir flokkar? Að vísu. Sú var tíð að Reykjaneskjördæmi var með geðþóttaákvörðun útilokað frá því að sitja við sama borð meðan þetta stjórnsýsluapparat var við lýði og aðrir landshlutar, önnur kjördæmi, að því er varðar lánafyrirgreiðslu til fyrirtækja. Fulltrúi þess kjördæmis situr nú f. h. Alþfl. í stjórn Framkvæmdastofnunar. Það breytir engu um að það er ítrekuð og yfirlýst stefna flokksins að leggja beri þessa stofnun niður, að breyta beri öllu stjórnkerfi fjárfestingar, sem tillögur hafa líka verið fluttar um hér á hv. Alþingi, og gerbreyta um alla stefnu að því er varðar þennan grundvallarþátt efnahagsstefnunnar, sem er stefnan í fjárfestingarmálum.

Það má bæta við öðru atriði. Hv. 4. þm. Reykv. hefur oft látið að því liggja, þegar hann vill láta líta svo út, að allir stjórnmálaflokkarnir hinir, þ. e. hinir fjórir í því fimm flokka kerfi sem nú er risið, séu undir sömu sök seldir að því er varðar afstöðu þeirra til þessara mála, það sé ekki greinanlegur neinn munur á stefnu þessara flokka. Allir eiga þeir væntanlega nú, að hans sögn, að bera sömu og sameiginlega ábyrgð á því efnahagslega skipbroti lýðveldisins sem við höfum verið að upplifa á s. l. áratug. Það er út af fyrir sig eðlilegt að hv. þm. leiti sér að ágreiningsefnum við sinn fyrri flokk, en um leið óhjákvæmilegt að rifja upp að þetta er málflutningur sem er nýr í hans munni. Meðan hv. þm. var enn innan raða Alþfl. talaði hann um Alþfl. annars vegar og Kröfluflokkana. Hann talaði annars vegar um Alþfl., sem hafði verið utan ríkisstjórnar á verðbólguáratugnum, og hins vegar um þá flokka sem raunverulega hafa farið með völd og borið ábyrgð á efnahagslegum ófarnaði okkar allan þennan tíma.

Meðan við vorum flokksbræður vorum við sammála um að þegar sýnt var að sú tilraun sem Alþfl. gerði í skammlífu stjórnarsamstarfi 1978–79 hefði mistekist hefði það verið flokkunum til sóma að gera það dæmi upp og segja sig úr þeirri ríkisstjórn og vísa þeim ágreiningsmálum til þjóðarinnar. (VG: Hann skal bara fara í stjórnina.) Ég er sammála um það líka. Ég hef orðað það svo, að það hafi verið pólitískt umferðarslys. En alveg eins og hv. þm. Karvel Pálmason skiptir orðið mannkynssögunni í tvennt, þ. e. tíminn áður og eftir að hann gekk í Alþfl., er þar ekki við mig að sakast, hv. þm.

Við skulum leiða hjá okkur þennan órökstudda skæting hv. 4. þm. Reykv., sem hann beinir að sínum fyrri samherjum og er ný plata — skiljanleg út frá því að hann þarf að leita sér að ágreiningsefnum vegna þess að hann yfirgaf Alþfl. án þess að láta nokkurn tíma á það reyna í stofnunum flokksins, eins og t. d. á flokksþingi, hver þessi málefnaágreiningur væri. Hann hefur eftir á reynt að mikla þann ágreining með till. sínum um þetta franska stjórnkerfi, þ. e. með tillögum sínum sem byggjast raunverulega á misskilningi hans á hinu franska stjórnkerfi, sem ég hef gert hér áður að umtalsefni. En einu er ekki hægt að láta ósvarað. Það er t. d. að það er staðreynd að þingflokkur Alþfl. hefur ekki í 4 kjörtímabil eða í 16 ár tilnefnt alþm. í bankaráð í stofnunum framkvæmdavaldsins. Eina undantekningin frá því er Benedikt Gröndal, sem sat í bankaráði Seðlabankans skamma hríð, en Seðlabankinn er hins vegar ekki, eins og menn vita, viðskiptabanki í venjulegum skilningi, heldur er hann ekki hvað síst upplýsingabanki um hagstjórn og um hann gegnir allt öðru máli en stofnanir eins og venjulega viðskiptabanka — ég tala nú ekki um fjárfestingarlánasjóði eða aðrar þær stofnanir þar sem einkafyrirtæki eða kjördæmahagsmunir leita sér fyrirgreiðslu.

Herra forseti. Réttlæting hv. 4. þm. Reykv. Vilmundar Gylfasonar á þeirri till. að halda áfram að svipta meiri hl. þjóðarinnar atkvæðisrétti til alþingiskosninga er í meira lagi kyndug. Hún er sú, að ef þm. sitji ekki lengur í sjóðakerfinu eða sæki ekki lengur í sjóðakerfið skipti atkvæðisrétturinn að því er varðar þingkosningar ekki lengur neinu máli. Fyrst er nú þá aths. að gera, að til þess að koma þeim lögum í gegnum þingið, hvort heldur það er geit í venjulegum lögum eða í stjórnskipunarlögum, að þingflokkar og þm. afsali sér valdi skömmtunarstjóra allra heimsins gæða í sjóðakerfinu, þarf þingmeirihluta. Til þess þarf m. ö. o. fullgild atkvæði þéttbýlisbúa á þingi. Til þess þarf meiri hl. sem endurspeglar raunverulegan þjóðarvilja. Þegar af þeirri ástæðu er auðvitað nauðsynlegt að allir borgarar í ríkinu hafi óskertan atkvæðisrétt, hvort heldur kosið verður til löggjafarþings eða framkvæmdavalds.

Ég skal rifja upp að þrátt fyrir allt gerir hv. 4. þm. Reykv. ekki ráð fyrir að afnema þingræðið með öllu, þó að hann geri það í vissum skilningi, eins og ég vék að áðan. Eftir sem áður þarf hinn þjóðkjörni forsrh. að leita til þingsins. Þingið á eftir sem áður að hafa mikið vald, bæði fjárveitingavald, löggjafarvald og eftirlitsvald. Ef það á að koma á þeirri skipan að þm. verði óheimilt að sitja í stofnunum framkvæmdavaldsins, sem ég er sammála, þarf til þess þingmeirihluta. Sá þingmeirihl. er t. d. ekki fyrir hendi á Alþingi nú, því Alþingi sem endurspeglar ekki réttan þjóðarvilja þar sem meiri hl. alþm. er hingað kjörinn með atkv. sem vega miklum mun þyngra en atkv. annarra. M. ö. o.: það er viðurkennd staðreynd að sá meiri hl. landsbyggðarmanna, sem hér er ráðandi á þingi, styðst ekki við atkv. meiri hl. þjóðarinnar.

Ég endurtek: Á það er að líta að samkv. till. hv. 4. þm. Reykv. á Alþingi eftir sem áður að fara með löggjafarvald og fjárveitingavald. Alþingi mun eftir sem áður ráðstafa fjármunum í stórum stíl. Alþingi mun taka ákvarðanir um þá fjármuni sem eiga að fara til sjóðakerfisins. Alþingi mun taka ákvarðanir um framlög til verklegra framkvæmda í kjördæmum. Alþingi mun taka þessar ákvarðanir í gegnum fjárlög og lánsfjárlög. Þetta þýðir að kjördæmatogstreitan mun halda áfram að fullu. Naumt skammtaður atkvæðisréttur, sem hv. þm. vill áfram skammta meiri hl. þjóðarinnar, mun áfram tryggja minni hl. úrslitavald á Alþingi og forræði þar með yfir fjárframlögum, yfir fjárlögum, yfir lánsfjárlögum og yfir hverjum þeim öðrum lögum sem veita fjármunum í samræmi við þennan hráskinnaleik togstreitunnar milli kjördæma og byggðarlaga. Og ég endurtek: Eigi að koma í veg fyrir að þm. sitji sjálfir í stofnunum framkvæmdavaldsins þarf til þess þingmeirihl. og það verður að leiða í lög á Alþingi. Þetta ætti að nægja til þess að sýna fram á að tillögur hv. 4. þm. Reykv., sem hann kennir ranglega við franskt kerfi, ganga ekki upp.

Sjálfur viðurkennir tillöguhöfundur í grg. sinni að á Íslandi eigi misvægi atkv. og þar með mismunandi geta byggðarlaga til þess að koma ár sinni fyrir borð gagnvart almannasjóðum þyngsta sök að því er varðar efnahagslega óstjórn. Þetta kemur mér ekki spánskt fyrir sjónir. Þessari skoðun hef ég haldið sjálfur fram oft og iðulega og ég er sammála henni. Engu að síður gerir tillögumaður ráð fyrir að áfram skuli haldið þessu misvægi atkvæðisréttar, sem veldur því að Alþingi endurspeglar ekki þennan þjóðarvilja þrátt fyrir þá staðreynd að vilji hann koma á aðskilnaði löggjafarvalds og framkvæmdavalds þarf hann að leiða slíkt í lög með meiri hl. á Alþingi. Tillögur hans breyta engu um það. Því ástandi sem við viljum báðir breyta verður því ekki breytt meðan misvægi atkvæðisréttar kemur í veg fyrir að Alþingi endurspegli raunverulega meirihlutavilja með þjóðinni.

Herra forseti. Við skulum aðeins rifja upp. Samkv. þessum tillögum mun forsrh. með sína sjálfskipuðu ríkisstjórn að öllum líkindum styðjast við raunverulegan þjóðarmeirihluta. Þar með eru allar líkur á að hann muni leita eftir lagaheimildum fyrir gagngerum breytingum, fyrir umtalsverðri stefnubreytingu, í mjög mörgum málum og málaflokkum. Það eru mjög mikil líkindi á því að slíkur forsrh. með meiri hl. kosinn meirihlutakosningu, með meiri hluta þjóðarinnar í þéttbýlinu að baki sér, muni leita eftir því að taka upp gerbreytta stefnu í efnahagsmálum og hagstjórn.

Setjum sem svo sem dæmi að slíkur forsrh. og ríkisstjórn hans vilji varpa oki landbúnaðarkerfisins af herðum neytenda í þéttbýli, leggja fram tillögur um lagabreytingar t. d. um að verja þeim tíunda hluta ríkisútgjalda sem nú fer í niðurgreiðslur og útflutningsbætur á þjóðhagslega hagkvæmari hátt. Þetta er, svo að ég nefni aðeins eitt dæmi, eitt af eilífðardeilumálum í íslenskri pólitík á undanförnum áratugum. Ég spyr: Er líklegt að massífur meiri hluti hér á Alþingi, sem er tilkominn í krafti misvægis atkvæðisréttar þar sem minni hl. þjóðarinnar mun samkv. þessu kerfi hafa áfram meiri hl. á Alþingi, muni veita forsrh. slíka lagaheimild? Reynslan kennir okkur að líkurnar á því eru hverfandi.

Nú nefni ég hér aðeins eitt dæmi. Við getum nefnt ótal mörg dæmi um slík eilífðardeilumál, sem ekki hafa fengið lausn hér vegna þess að þau hafa strandað á þingmeirihl. sem hér ríkir og hefur ríkt í skjóli þessa misvægis atkvæðisréttarins. Hvað gerist þá?

Fyrr í þessum umr. hefur hv. þm. brugðið á það ráð að segja: Þetta eru kreppusjónarmið. Þegar slíkir árekstrar koma, verða menn að semja. En svarið við því er ósköp einfalt. Það hefur ekki tekist að semja um þessi deilumál, ekki á s. l. áratug, ekki s. l. tvo áratugi og sum slík deilumál hefur bókstaflega ekki tekist að leysa með neinu samkomulagi á undanförnum áratug. Hvað á þá að gera? Ja, hafa þjóðaratkvgr. samkv. þessum tillögum því að um þingrofsréttinn er ekki lengur að ræða. Framkvæmdavaldið getur ekki samkv. þessum till., eins og gerist í franska kerfinu, beitt þingrofsvaldi til að senda þingið heim, en þjóðaratkvgr. er hægt að beita. Nú er ég sammála því að þjóðaratkvgr. eru af hinu góða þegar þær eiga við. Það er ein af tillögum stjórnarskrárnefndar, sem ekki hafa fengist afgreiddar hér enn, að þjóðaratkvgr. beri að viðhafa í stórum málum, sé þess óskað með skriflegum undirskriftum miðað við fimmtung þjóðarinnar. Þó er ekki gengið lengra í þá átt en þjóðaratkvgr. skuli vera ráðgefandi. Engu að síður geta þær haft mikil áhrif. Þjóðaratkvgr. er ágætt að viðhafa, þegar um er að ræða stór mál, sem þó eru þess eðlis að hægt er að leggja þau fyrir þjóðina og leita svara með skýrum og afdráttarlausum hætti, já eða nei. En ef efna á til þjóðaratkvgr. um öll þau óteljandi ágreiningsefni, stór og smá, sem yfirgnæfandi líkur eru á að upp kæmu milli svo skipaðs framkvæmdavalds sem þessar tillögur gera ráð fyrir og löggjafarvalds sem saman er sett samkv. óbreyttri kjördæmaskipan og óbreyttu vægi atkvæða, sem kosið er með svo gerólíkum hætti, þá er hætt við að því þjóðaratkvæðagreiðsluákvæði þurfi að beita svo oft og um mál af því tagi að þessi aðferð til að skera úr um ágreiningsefni verði ónothæf með öllu. Þjóðaratkvæðagreiðslur um fjárlagafrv., þjóðaratkvgr. um einstaka þætti fjárlagafrv., þjóðaratkvgr. um skattamál, þjóðaratkvgr. um lánsfjarlög eða einstaka þætti lánsfjárlaga, þjóðaratkvgr. um framlag til verklegra framkvæmda, þjóðaratkvgr. um framlög til sjóða, þjóðaratkvgr. um öll slík hugsanleg og óhugsanleg deilumál í það endalausa hljómar vel á pappírnum, en gengur ekki upp.

Herra forseti. Ég þykist hafa sýnt fram á að till. sú sem hér hefur verið lögð fram um franskt kerfi er í raun og veru rangnefni. Hér er ekki verið að setja fram till. um franskt kerfi. Hér er verið að setja fram till. sem er í raun og veru í grundvallaratriðum misskilningur hv. flm. á hinu franska kerfi.

Munurinn á þessu tvennu er í veigamiklum atriðum alveg skýr og ótvíræður. Franska kerfið gerir ráð fyrir að framkvæmdavaldið og löggjafarvaldið séu í grundvallaratriðum kosin samkv. sams konar kosningaaðferð, sem er meirihlutakosning í einmenningskjördæmum í tveimur umferðum, — meirihlutakosning alveg ótvírætt að því er varðar forseta, meirihlutakosning í landinu sem einu kjördæmi. Þessar tillögur gera ráð fyrir allt annars konar kosningakerfi. Þessar tillögur gera ráð fyrir að framkvæmdavaldið sé kosið samkv. einni kosningaaðferð, sem leiðir til pólitísks meiri hl. sem viðurkennt er í grg. að styðjist við þéttbýlismeirihl., en Alþingi verði á sama tíma kosið með óbreyttum aðferðum, með óbreyttu og vaxandi misvægi atkvæðisréttar, sem mun leiða til allt annarrar niðurstöðu og allt annars konar meiri hl. á þingi. Í öðru lagi gerir flm. ráð fyrir að afnema þingrofsréttinn, sem er þó öryggisventillinn í franska kerfinu til þess að leysa eða binda endi á árekstur sem hugsanlegur er í því kerfi. Áreksturinn er hugsanlegur í franska kerfinu, en hann er því sem næst gersamlega fyrirsjáanlegur í því kerfi, sem hér er boðið upp á, og miklum mun líklegri en í franska kerfinu vegna hinna ólíku kosningaaðferða. Þetta dæmi gengur því ekki upp, herra forseti. Misskilningur hv. 4, þm. Reykv. á franska kerfinu gengur ekki upp.

Patentlausnin er jafnvel ennþá vitlausari en núverandi ástand og er þá langt til jafnað. Patentlausnin, sem átti að binda endi á stjórnleysið, endar í stjórnarskrártillögum, sem enda í stjórnskipulegri sjálfheldu og gera böl stjórnleysisins að varanlegu ástandi. Hér er þess vegna um að ræða patentlausn sem endar í reynd í platlausn. Eftir á að hyggja sýnist mér því þörf ábending til fimmta flokksins, sem kennir sig við jafnaðarstefnu, að það sé sennilega vitlaust vörumerki fyrir þessa hugmyndafræði. Spurningin er hvort það væri ekki nær að kalla þetta pólitíska fyrirbæri „Stjórnleysingjasamtökin“ og þau gætu þá skammstafað sig SS. — [Fundarhlé.]