09.11.1982
Sameinað þing: 14. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í B-deild Alþingistíðinda. (257)

Um þingsköp

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég leyfi mér að vekja athygli á því, að hér hafa legið fyrir hv. Sþ. fsp. í nokkurn tíma. Fsp. er almennt ekki svarað nema á þriðjudögum, en það kemur fyrir þriðjudag eftir þriðjudag að þeir ráðherrar sem stendur til að svari hér fsp. ýmist biðja um leyfi eða eru veikir, og ber auðvitað að virða það. Hér henti það í gær í hv. Ed., að frsm. voru ekki viðstaddir þannig að fella varð niður fund í deildinni. Ég vil mótmæla þessu. Mér finnst þetta virðingarleysi við þm. Venjan er sú, að ef menn bera fram fsp. um örlög frumvarpa sem unnið hefur verið að um skeið, þá hlýtur það að liggja í hlutarins eðli að nokkur áhugi er oft á að slíku máli séu gerð einhver skil áður en endanlega er gengið frá fjárlögum. Ég vil þess vegna beina því til hæstv. forseta, að nokkru meiri háttur verði hafður hér á og þm. og hæstv. ráðherrar megi vera að því að sinna hér þingstörfum.