09.11.1982
Sameinað þing: 14. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í B-deild Alþingistíðinda. (265)

267. mál, bann við því að bændum sé greitt fullt verð fyrir afurðir

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég fæ ekki skilið þá ályktun Framleiðsluráðs landbúnaðarins, að ekki hafi verið bann lagt við því að sláturleyfishafar greiddu bændum fullt verð. Orðalagið í skeytinu, sem hæstv. ráðh. las upp, er alveg ótvírætt. Fyrst er þess getið, að slátursleyfishafar bæru ábyrgð á þessum greiðslum. — Látum vera að þeir séu ábyrgir fyrir því árum saman, en auðvitað er það fáránlegt, eins og hv. síðasti ræðumaður gat um. — En síðan segir að þeir megi ekki borga bændum þeirra peninga. Það er lagt við því bann. Það fer ekkert milli mála.

Það er auðvitað alveg ljóst, sem hv. síðasti ræðumaður vék að áðan, að aðalvandi landbúnaðarins, kannske sá eini, er sölukerfið. Það er ekki lítið vandamál í kannske allt upp í 100% verðbólgu þegar menn fá ekki sina peninga fyrr en kannske eftir 1–11/2 ár endanlega. Það eru til sláturleyfishafar sem borga grundvallarverð strax í nóv., fullt verð í peningum á réttu verðgildi miðað við hvenær kjötið er til neyslu. Þeir eru til, bæði í Skagafirði og á Vestfjörðum. Á Vestfjörðum greiddu þeir raunar 10% ofan á þegar þeir gerðu upp í Arnarfirðinum núna á þessu ári, — gerðu það að vísu ekki fyrr en í júní, en gróðinn var það mikill að þeir gerðu upp með 10% viðbót. Mér er sagt einmitt af þessum sömu mönnum þarna vestur frá, að bændur í Arnarfirði hafi kannske 30–40% betri lífskjör en sauðfjárbændur annars staðar á Vestfjörðum einfaldlega vegna þess að þeir fá sina peninga, en það er ekki verið að valsa með þá í sölukerfinu.

Hæstv. landbrh. upplýsti hér áðan, að SÍS tæki lánin fyrir marga sláturleyfishafa í þeirra umboði. Þetta hefur verið vitað mál. SÍS hefur valsað með þessa peninga. Sláturleyfishafarnir fá þá ekki fyrr en eftir dúk og disk. En það hefur ekki einu sinni mátt greina frá því hve mikil lánin væru. Það er einmitt þessi spurning sem ég má vist ekki ræða hér núna, en sem verður rædd á þriðjudaginn kemur, og ég vona að ýmislegt til viðbótar því sem þegar hefur verið upplýst upplýsist þá, því að vandi landbúnaðarins er kannske bara SÍS.