09.03.1983
Neðri deild: 56. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2761 í B-deild Alþingistíðinda. (2667)

187. mál, fólksflutningar með langferðabifreiðum

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég ætla að segja nokkur orð um þetta mál eingöngu til þess að fá það skráð í þingtíðindi. Það er alveg hárrétt, sem hv. frsm. sagði, að nefndin taldi að það hefði þurft að skoða þetta frv. betur en við gerðum í n. En það varð að samkomulagi að flytja það til þess að koma í veg fyrir vandræði, sem gætu af því skapast að frv. yrði ekki samþykkt, enda lagði hæstv. samgrh. mikla áherslu á það að þetta mál gengi fram á því þingi sem nú stendur.

Í nefndinni gerði ég hins vegar aths. við mgr. í 6. gr. og 10. gr. frv., sem ég tel þess eðlis að vart eigi heima í lögum, en get þó fellt mig við það með skírskotun til þeirrar grg. sem hv. frsm. hafði hér uppi fyrir málinu, að það verði tekið upp á nýjan leik á næsta þingi, hvort sem við sitjum hér þá eða einhverjir aðrir. Þess vegna vil ég að það komi fram í þingtíðindum að ég gerði í n. aths. við mgr. í 6. gr., sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Við veitingu sérleyfis til nýs aðila er ráðh. heimilt, að fengnum meðmælum Skipulagsnefndar fólksflutninga, að binda sérleyfið því skilyrði, að hinn nýi sérleyfishafi skuli skuldbundinn að kaupa þær fasteignir og bifreiðar, sem notaðar höfðu verið til reksturs á viðkomandi sérleyfisleið og teljast nauðsynlegar til hans, á verði sem samkomulag verður um milli aðila. Náist ekki samkomulag um verð skal það ákveðið með mati þriggja dómkvaddra manna.“

Sams konar mgr. er í 10. gr. frv. Ég sagði í umr. um þetta mál í n. að ég teldi að slík ákvæði ættu varla heima í lögum, að ráðh. sé heimilt að skilyrða það að menn kaupi eignir annarra manna. Það gengur auðvitað ekki og verður að taka þetta út úr lögunum þegar þau verða endurskoðuð á nýjan leik.

Auk þess vil ég segja það með tilliti til þingtíðinda að ég hefði álitið að mn í þessi lög hefði þurft að koma skýrt ákvæði um skyldu sérleyfishafa til póstflutninga. Það hafði verið fellt út úr þessu frv., það var í gömlu lögunum. Hér er fyrst og fremst á ferðinni samkomulagsfrv. á milli hagsmunaaðila og þeirra manna sem um það fjölluðu í samgn. Nd.