09.03.1983
Neðri deild: 56. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2763 í B-deild Alþingistíðinda. (2673)

30. mál, heilbrigðisþjónusta

Frsm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 517 um frv. til l. um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 57 frá 1978 með síðari breytingum. Nefndin hefur fjallað um frv. ásamt þeim brtt. sem samþykktar voru í hv. Ed. Ingimar Sigurðsson, deildarstjóri í heilbr.- og trmrn., kom á fund n. og svaraði fsp. nm.

Tvær brtt. hafa verið lagðar fram á þskj. 504 við frv. eins og það kom frá Ed. Að öðru leyti varð n. sammála um að mæla með samþykkt þess.

Fyrri brtt. er um að kvartanir eða kærur, er varða samskipti almennings og heilbrigðisþjónustunnar, berist til landlæknis, en ekki sjálfkrafa til þeirrar nefndar sem gert er ráð fyrir að verði skipuð til að skera úr um ágreiningsmál, ef ekki tekst að leysa úr ágreiningnum. Í hv. Ed. var gerð breyting á upphaflegri gerð frv. Landlæknir benti okkur á að það mætti skilja þá grein þannig að hver kæra eða kvörtun færi sjálfkrafa til þeirrar nefndar sem skipuð yrði. En hann benti á að í jafnvel 9 af hverjum 10 tilvikum gæti embætti hans leyst úr þessum ágreiningi þannig að ekki þyrfti að koma til kasta nefndarinnar.

Hins vegar var önnur breyting gerð á umræddri grein. Hún er í þá veru, að nefndinni þótti ekki eðlilegt að landlæknir væri sjálfur formaður þeirrar nefndar sem skera skal úr ágreiningi er varðar þá þjónustu sem hann hefur sjálfur umsjón með. Að öðru leyti er greinin óbreytt eins og hún kom frá Ed.

Hin brtt. er nánast leiðrétting á prentvillu eða alla vega gleymsku, en sú leiðrétting er til samræmis við önnur ákvæði laganna þ. e. að hjúkrunarforstjórar séu skipaðir af ráðh., eins og gert er ráð fyrir, að fenginni umsögn ekki einungis hjúkrunarráðs samkv. lögum nr. 8/1974, heldur einnig að sjálfsögðu að fenginni umsögn stjórnar viðkomandi sjúkrahúsa, eins og gildir um yfirlækna og aðra sem skipaðir eru af ráðh.

Annað fundum við ekki athugavert við frv. eins og það kom frá Ed. Okkur hafði verið bent á ákvæði, sem inni er í lögunum, um að þar sem ekki fáist hjúkrunarfræðingur til starfa sé sveitarfélaginu heimilt að krefja ríkið um laun sjúkraliða. Um þetta mun hafa verið eitt dæmi sem nú er leyst og fenginn hjúkrunarfræðingur í það starf. Okkur þótti satt að segja þetta ákvæði ekki skipta því máli að við sæjum ástæðu til að gera brtt. þess vegna, en ég væri fús til að samþykkja það ef sú brtt. kæmi fram. Ég persónulega held að þetta atriði skipti engu máli. Það segir sig sjálft að þar sem hjúkrunarfræðingur fæst er hann að sjálfsögðu ráðinn umfram sjúkraliða. Þess vegna varð nefndin sammála um að mæla með samþykkt frv. að þessum brtt. tveimur gerðum. Höfum við ekki frekari aths. við frv.

Ég vil þakka nm. fyrir aðstoð við skjóta og góða afgreiðslu þessa máls, sem er tiltölulega nýkomið til Nd., og vænti þess að þessar tvær brtt. verði ekki til að tefja málið lengi nú, en það hlýtur að fara aftur til Ed.