09.03.1983
Neðri deild: 58. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2834 í B-deild Alþingistíðinda. (2789)

4. mál, lokunartími sölubúða

Frsm. minni hl. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Hér er á ferðinni mál sem hv, alþm. þekkja, að ég hygg, allvel, bæði vegna þess að það var flutt áður á 104. löggjafarþingi og þá fellt og eins vegna hins, að hér fór fram allítarleg umr., þar sem var vítt og breitt farið yfir akurinn, við 1. umr. málsins.

Frv. sem lagt er fram er í raun og veru sáraeinfalt. Það er aðeins lagt til að tiltekin lög nr. 17/1936, um lokunartíma sölubúða, falli niður og þar með sé þeim sem verslunarstörf stunda heimilt að hafa opið svo sem þeir óska eftir.

Herra forseti. Það hafa verið flutt svo mörg og mikil rök bæði með þessu og móti að ég vil ekki vera að tefja tímann svo seint að kvöldi til að yfirfara þau eina ferðina enn. En ég vil þó aðeins vekja athygli á því, að í fskj. 1, sem þessu frv. fylgir, er samantekt sem gerð var af Kaupmannasamtökum Íslands um afgreiðslutíma verslana í nokkrum löndum.

Svo furðulegt var að þau sendu þetta plagg frá sér, að ég held, sem rökstuðning með þeim þvingandi reglum sem í raun hafa gilt hér fyrir tilstilli löggjafans. En sannleikurinn er sá, að þegar menn skoða þetta efnislega er hvergi um viðlíka þvinganir að ræða og hér hafa verið. Og til marks: Annað landið sem nefnt er er Svíþjóð. Þar afnámu jafnaðarmenn slíka reglu árið 1972. Þar er opnunartíminn frjáls. Hitt er svo annað mál, að þeir lýsa þeim meginreglum sem í gildi eru og kemur í ljós að meginreglurnar í löndum eins og Svíþjóð eru ávísun á miklu betri þjónustu en hér viðgengst víða, og er ég þá auðvitað fyrst og fremst að tala um stór-Reykjavíkursvæðið.

Það er augljóst að þetta frv. er ekki síst flutt fyrir neytendur í Reykjavík. Ég vildi biðja hv. alþm. að hafa á því skilning, jafnvel þótt þeir þekki best til í byggðarlögum þar sem þessu háttar með skikkanlegri hætti, sem auðvitað oft er, þar sem návígið er meira og smæðin meiri, fólksfæðin meiri, að þetta er verulegt vandamál hér í Reykjavík. Þetta er vandamál vegna þess að við um það bil 40 ára aldurinn eða svo hefur samskiptamunstur fólks tekið nokkrum breytingum, sem sé þeim, að miklu hærra hlutfall fólks í hjónabandi eða í sambúð af öðru tagi vinnur utan heimilis.

Nú er það svo, og það mun væntanlega nokkuð breytast í þeim kosningum sem eru að koma, að meðalaldur inni á hinu háa Alþingi er allmiklu hærri en meðalaldur úti í samfélaginu. Ég held að menn geri sér ekki til hlítar grein fyrir því að millistríðsmunstrið var töluvert öðruvísi í þessum efnum. En þetta hefur breyst. — En það er hætta á að stofnun eins og löggjafarsamkoma sé alltaf allmikið á eftir í skilningi á nákvæmlega svona málum. Það er vandamál að það skuli vera búið að loka öllum matvörubúðum í Reykjavík kl. 6.

Þetta mál snýst um hreina hagnýta hluti af þessu tagi. Þess utan er það meiri háttar röksemd frá minni hálfu, frsm. minni hl. allshn. og flm. að þessu frv., að í raun mundi samþykkt þessa frv. vernda samkeppnisaðstöðu þeirrar stéttar fólks sem kölluð hefur verið „kaupmaðurinn á horninu“. Við megum aldrei gleyma því, líka í þéttasta þéttbýli, að kaupmaðurinn á horninu gegnir stærra hlutverki en því að vera höndlari með matvöru. Í tilvist hans er fólgið öryggi. Búðirnar eru að hluta til félagsmiðstöðvar. Börn sem koma heim og komast ekki inn til sín, lykillaus eða slíkt, fá að hringja þarna.

Við skulum alveg átta okkur á því, að í raun er þetta hagsmunamál þar sem hinir stærri kaupmenn eru að takast á við hina smærri kaupmenn. M.ö.o.: þeir sem vilja loka kl. 6 eru þeir sem hafa allmikinn hluta af kostnaði sínum byggðan á launavinnu annarra. Um hina, sem eru að reka hin smærri fjölskyldufyrirtæki, gilda önnur lögmál. Og ástæðan fyrir því að t.d. Kaupmannasamtökin hafa svo mjög krafist þess að meiri hl. Sjálfstfl. í borgarstjórn Reykjavíkur láti loka kl. 6 er krafa í raun frá hinum stærri kaupmönnum sem horfa í þann launakostnað sem fylgir yfirvinnu í þessum efnum. Þetta vita guð og menn, hvað svo sem menn segja. En með litlu fjölskyldufyrirtækjunum, og ég dreg enga dul á þá almennu lífsskoðun mína. hef ég innbyggða samúð og ekki aðeins vegna þess að smátt er fagurt í öllum grundvallaratriðum, heldur hins, að slík fyrirtæki mynda félagslegt öryggisnet. Þau eru ávísun á mannúðlegra samfélag. (Gripið fram í.) Að þessu leytinu til geri ég það.

M.ö.o.: heimspekin að baki þessu frv. er sú. að þarna fara saman hagsmunir nútímalegra neytenda annars vegar og hinna smæstu eininga í atvinnurekstri hins vegar og fyrir slíka er þetta frv. flutt.

Ég var að gamna mér við það að að velta mönnum upp úr því hve afstaða til frelsisins er stundum beggja blands. Það er furðulegt að þeir sem helst og oftast mæla hér fyrir afstæðu frelsi skuli ekki styðja svona mál, skuli vilja hafa opið, heldur hamlanir á því hvenær einhver karlmaður eða einhver kona fer að höndla matvörur. En látum það allt vera. Það vita allir að slík frelsisrök eru oftar en ekki grín og eiga ekkert skylt við kenningar af einu eða neinu tagi, heldur hreina hagsmuni. Ég skal ítreka að t.d. þeir hv. þm. Sjálfstfl. sem æ ofan í æ hafa fellt þetta mál eru auðvitað ekki að tala um neitt frelsi, hvorki afstætt né með öðrum hætti, heldur eru þeir að verja hagsmuni og það eru hagsmunir hinna stærri kaupmanna. Stærð þeirra er út af fyrir sig ekki mæld í umfanginu, heldur í hinu, hve margir tengjast þeirra atvinnurekstri í launavinnu.

Það er vel skiljanlegt að það þurfi að setja sérstök lög til varnar verslunarfólki árið 1936 og þar á undan árið 1917, vegna þess að þá var verkalýðshreyfingin svo lítil og vanmegnug. Þetta ætti að hafa gerbreyst. Þetta sérstaka verkalýðsfélag er því miður með linara móti og fyrir því er löng og harmi slegin saga að vísu frá bæjardyrum verkalýðshreyfingarinnar skoðað. En engu að síður er sú röksemdafærsla röng að hér sé verið að leggja til einhverjar sérstakar kvaðir á verslunarfólk. Í landinu eru í gildi lög af ýmsu tagi, t.d. um vinnutíma og annað slíkt, til varnar launafólki. Slík lög gilda auðvitað eftir sem áður um verslunarfólk eins og alla aðra. Það sem við segjum er það, að engin ástæða er til að taka það fólk út úr sem við verslanir starfar.

Herra forseti. Um þetta mál mætti hafa langt mál. Svo gæti ég auðveldlega ögrað hv. 7. þm. Reykv. t.d., sem hefur verið erkiíhaldsmaður í þessu máli, eins og fleiri málum raunar. En vegna þess hvernig háttar til um störf þingsins og annað slíkt sé ég ekki ástæðu til þess að sinni.

Rök með og móti í þessu máli eru vel þekkt. Ég vek athygli á fskj. 1 og 2, sem prentuð eru með þessu frv. til l., og ég vil aðeins enda á því að undirstrika að við erum auðvitað ekki að tala um afstæða hluti, heldur hreina hagsmuni. Þetta eru hagsmunir a.m.k. yngri kynslóða, neytenda í þéttbýli, og smárra eininga í þessum atvinnurekstri, sem jafnframt því að gegna verslunarhlutverki gegna einnig bæði félags- og öryggishlutverkum og hafa átt í vök að verjast. Þetta frv. fjallar efnislega um að rétta samkeppnisaðstöðu þeirra af gagnvart hinum stærri einingum.