11.03.1983
Neðri deild: 62. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2941 í B-deild Alþingistíðinda. (2973)

230. mál, almannatryggingar

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Á s.l. þingi fluttu Jóhanna Sigurðardóttir og fleiri sams konar frv. og hér er til umr. Ég var þá heldur mótfallinn því að stíga þetta skref, ekki af því að þetta væri ekki æskilegt, heldur af því að útgjöld ríkisins til tryggingamála og heilbrigðismála eru komin í tæplega 40% af heildarútgjöldunum og því taldi ég ekki varlegt annað en hugleiða þetta mál vel og gera sér grein fyrir því hvað það kostar í raun og veru.

Það kom fram hér um daginn að hæstv. heilbr.- og trmrh. hafði ráðlagt flm. þessa frv. að fara aðrar leiðir. Því flutti hún frv. um breyt. á lögum um tekju- og eignarskatt, sem hlaut þá undarlegu meðferð að vera vísað til heilbr.- og trn., sem afgreiddi svo málið frá sér með nál. En þá gerist það að hæstv. heilbr.- og trmrh. stígur hér í stólinn og tilkynnir útgáfu reglugerðar, þar sem heitið er 20% greiðslu á öllum tannlæknakostnaði umfram það sem heimilt er samkv. 43. gr. laga um almannatryggingar. Sú grein er eingöngu miðuð við greiðslur til barna, til ellilífeyrisþega, til öryrkja og vangefinna og aftur ákvæði inni, þar sem má breyta út frá því og víkka þessar greiðslur, en ekki almennt.

Eftir að þessi yfirlýsing kom var það sjáanlegt að hæstv. ríkisstj. hafði tekið þessa ákvörðun, eftir því sem hæstv. heilbr.- og trmrh. sagði, og enginn ráðh. mótmælti svo að það verður að líta svo á að þetta mál hafi verið samþykkt þar. Þá sá ég ekki ástæðu til annars fyrir flm. þessa frv. en leggja frv. fram. Og fyrst búið var að taka þessa ákvörðun, þá neitaði ég því ekki að vera einn af flm. frv., því ég taldi það nauðsynlegt að hafa stoð í lögum um þessar greiðslur.

Því miður var ég á öðrum fundi þegar heilbr.- og trn. afgreiddi þetta frv. Ég hefði fyrst og fremst viljað fá eitthvað betra yfirlit um það hvað þetta kostaði, hvort Tryggingastofnunin eða einhverjir aðrir aðilar gætu lagt á þetta eitthvað raunhæfara mat en hæstv. heilbr.- og trmrh. er að bera á borð. Við verðum að fara varlega í þessum efnum. Ég tek alveg undir þau orð hv. 3. þm. Austurl. sem hann sagði hér áðan. Hins vegar er hann ein styrkasta stoð hæstv. ríkisstj. hér í þingsölunum og hann ætti að reyna að halda svolítið aftur af henni, því þetta er kraftmikill þm., svo að hún taki ekki svona ákvarðanir í einum hvelli og hugsunarlaust, meira að segja ákvarðanir sem ekki eiga sér stoð í lögum. Því er ekki óeðlilegt að þm., sem láta sig almannatryggingar miklu varða, grípi til þess ráðs að flytja frv. sem þetta.

En allt hefur þetta í för með sér að leggja þarf aukna skatta á þjóðina. Alltaf eru skattafrv. á dagskrá, alltaf er verið að bæta á herðar landsfólkinu. Það kemur aftur í ljós síðar á þessum fundi að þarna er verið að leggja á nýja skatta. Fyrir þessu þarf líka að leggja á nýja skatta, þegar þar að kemur, og þá verða menn að gera það upp við sig hvor er nú betri brúnn eða svartur, hvort er nú betra að bæta við útgjöldin eða að lækka skattana. Ríkisstj. hefur varðað veginn í þessum efnum. Hún hefur farið hér mjög geyst af stað. En það hefði verið skemmtilegra af hv. heilbr.- og trn. að fara nokkru nánar út í þennan kostnað og flýta sér hægt, flýta sér mun hægar en hæstv. ráðh. og ríkisstj. hefur gert.