11.03.1983
Neðri deild: 62. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2956 í B-deild Alþingistíðinda. (3009)

248. mál, samkomudagur Alþingis

Flm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Vegna orða hæstv. sjútvrh. vil ég aðeins taka fram að með flutningi þessarar till. er Sjálfstfl. ekki að lýsa yfir stjórnarsamstarfi með einum eða öðrum. Þessi till. fjallar um það, eins og fram kemur í efni hennar, að tryggja það að Alþingi lýsi yfir að hið nýja þing verði kvatt saman eigi síðar en 18 dögum eftir næstu kosningar. Sjálfstfl. er ekki þeirrar skoðunar, að Framsfl. og Gunnar Thoroddsen eigi að stjórna landinu með brbl. fram eftir öllu sumri. (Forseti: Það á að ávarpa ráðh. sem hæstv.)

Erfiðleikar atvinnuveganna eru miklir. En hvernig hefur ráðh. í ríkisstj. sjálfri lýst þeim úrræðum sem ríkisstj. hefur framkvæmt: Of seint, of lítið. Þetta eru þeirra eigin orð. Það er einmitt þetta sem er um að ræða. Hvað er með viðmiðunarfrv., vísitölufrv.? Var leitað samstarfs við stjórnarandstöðuna um afgreiðslu þess? Því er kastað fram á síðustu dögum fyrir 1. mars. Við stjórnarandstæðingar í Sjálfstfl. mættum á fund í nefndinni áður en frv. var vísað til nefndar, en einn stjórnarflokkanna dró sinn fulltrúa til baka og vildi ekki mæta. Það voru engar viðræður hafðar við Sjálfstfl. áður en frv. var lagt fram. Það sýnir að það var ekki vilji fyrir því að koma þessu máli fram. Brbl. frá því í haust náðu hvergi tilgangi sínum. Þau komu sex mánuðum of seint. Þess vegna voru áhrif þeirra svo lítil. Ríkisstj. hefur setið síðan aðgerðarlaus með öllu. Það er fyrst og fremst þeim að kenna, sem í þessari hæstv. ríkisstj. sitja, að engar ráðstafanir hafa verið gerðar í efnahagsmálum. Ríkisstj. hefur setið þegjandi og aðgerðarlaus til þessa og Framsfl. vill halda áfram að sitja aðgerðalaus og stjórna með brbl. eftir næstu kosningar, á meðan fram fer myndun nýrrar ríkisstj.