11.03.1983
Neðri deild: 62. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2959 í B-deild Alþingistíðinda. (3012)

248. mál, samkomudagur Alþingis

Páll Pétursson:

Herra forseti. Eins og komið hefur glögglega fram í máli manna hér á þinginu í dag og í umr. undanfarna daga, þá er hér á ferðinni mjög furðuleg till. og einstæð á borðum þm. og málsmeðferð öll með nokkuð sérkennilegum hætti. Við verðum að skoða þetta í samhengi og með tillíti til forsögunnar. Í því þrefi sem stóð við undirbúning stjórnarskrármálsins kom upp á síðari stigum málsins, eftir því sem prófkjör þróuðust með flokkum og stjörnurnar hröpuðu, viss tilhneiging til að reyna að hnýta aftan við stjórnarskrármálið ákvörðun um tvennar kosningar. Þetta var ákvæði til bráðabirgða um kosningar í sumar og þá eftir nýjum kosningalögum, þar sem hægt væri a.m.k. að vonast til að þeir sem stríðslukkan hafði snúið baki við í prófkjörum yrðu endurreistir vegna fjölgunar þingsæta. Við framsóknarmenn gátum ekki fallist á þetta ákvæði til bráðabirgða. Ekki það, að við sæjum ekki að þjóðinni væri mikið tjón og mikill skaði að verða að vera án nokkurra núv. alþm. um einhvern stuttan tíma, heldur sýndist okkur ástæðulaust og ófært að ákveða næst- næstu kosningar nú þegar, og rétt væri að prófa hvort ekki væri hægt að fá stjórnmálamenn, nýkjörna þm., þá sem kjörnir yrðu í apríl, til þess að herða upp hugann og reyna að takast á við efnahagsmálin, reyna að bægja frá þeim bráða háska sem yfir vofir og hvert mannsbarn hlýtur að sjá glögglega.

Við lifum í verðbólgu sem eykst frá viku til viku hröðum skrefum. Við horfum fram á það, að við erum alveg komnir á síðasta snúning. Við erum komnir langt yfir hættumarkið. Við erum komnir á það stig, að það getur hver verið síðastur að snúa við. Stærri þjóðir en við hafa ekki ráðið við verðbólgu upp á kannske 100% og við erum sannarlega farnir að sjá framan í þvílíka ófreskju. Við vildum sem sagt prófa hvort næsta Alþingi væri ekki í færum að gera það sem gera þyrfti, a.m.k. einhverjar bráðabirgðaráðstafanir, sem gætu skapað næði, og þá væri hægt að kjósa á hentugum tíma. Auk þess finnst okkur óeðlilegt og óviðfelldið að binda hendur ókjörins Alþingis. Við vitum að það verða mikil mannaskipti á þinginu. Við vitum ekki nákvæmlega hug þeirra manna, sem hingað koma til með að verða kjörnir nýir, kannske í heilum fylkingum. En síðan yrði hægt að kjósa á hentugum tíma, þegar búið væri að gera þær ráðstafanir sem ekki yrði undan vikist. Og við mundum meta það meira, þó ekki tækist nema að bremsa þessa stórhættulegu þróun, við mundum meta meira ef það væri hægt heldur en að endurheimta félaga okkar, sem tímabundið hverfa væntanlega hér af vettvangi.

Það varð endirinn að málið var lagt fram án þess ákvæðis til bráðabirgða. Og það var vegna kröfu okkar framsóknarmanna sem það var tekið úr, því við ætluðum ekki að standa að málinu öðruvísi. Síðan kemur það hér til meðferðar í Alþingi og það er kosin stjórnlaganefnd til þess að fara með málið, lausanefnd í Alþingi. Ég átti sæti í þeirri nefnd sem fulltrúi hér úr hv. deild fyrir minn flokk. Strax á fyrsta fundi nefndarinnar byrjuðu menn að klifa enn á því að taka inn í frv. ákvæði til bráðabirgða um kosningar í sumar. Við mótmæltum því harkalega framsóknarmenn, og ég lét í ljós þá skoðun mína, að ég gæti ekki staðið að nál. með öðrum flokkum ef þetta ákvæði yrði tekið inn. Við urðum að skila sérstöku nál.

Vegna samviskusemi og sérstakrar lipurðar formanns n., hv. 1. þm. Vestf.. Matthíasar Bjarnasonar, tókst okkur framsóknarmönnum í n. að varna því að þetta ákvæði yrði tekið inn og þess vegna gátum við með góðri samvisku staðið að afgreiðslu nefndarinnar óklofinnar um málið. En fulltrúar Sjálfstfl., Alþfl. og Alþb. tilkynntu okkur í n, að þeir mundu þá verða að flytja þetta mál með öðrum hætti. Þeir tilkynntu okkur það að þeir mundu flytja það sem frv. í þinginu um samkomudag Alþingis. Þannig kæmust þeir að markinu, þannig gætu þeir strax eftir þessar kosningar afgreitt kosningalögin og boðað til nýrra kosninga.

Nefndarstarfinu lauk og við gátum sæmilega unað við okkar hlut. Okkur hafði tekist að varna því að ákvæði til bráðabirgða yrði tekið inn. Við vissum að í farvatninu var málatilbúnaður frá hinum flokkunum um nýjar kosningar og þá kom til Teits og Siggu. Satt að segja varð ég undrandi þegar ég sá hver þróunin hafði orðið. Þeir höfðu komið sér saman, Alþb. og Sjálfstfl. og Alþfl., sem hafði þó nokkra sérstöðu að einu leyti, Alþfl. leggur ekki eins mikla áherslu á það að fá kosningar strax eins og hinir flokkarnir, eða tvennar kosningar strax. En þeir höfðu tekið saman höndum um það að ákveða samkomudag Alþingis.

Úr því að þetta mál var ekki flutt í frv.-formi og þál.leiðin var valin, þá var auðvitað sjálfsagt að flytja málið í Sþ. Það var hin þinglega aðferð. En hún var ekki valin. Í Morgunblaðinu stóð það svart á hvítu að málið væri ekki flutt í Sþ. vegna þess að þar væri forseti framsóknarmaður. Það er ómaklegt mjög að vega svo að hæstv. forseta Sþ. að honum sé ekki treystandi fyrir þáltill. Ég get ekki hugsað mér forseta sem rækir starf sitt af meiri skyldurækni, lipurð og samviskusemi heldur en hæstv. forseti Sþ. að öðrum forsetum ólöstuðum. Lipurð hans er rómuð hér í þinginu. Nei, það þurfti að tortryggja hann. Það þurfti að hafa annan hátt á. Málið skyldi flutt sem þáltill. í deildum. Þá var auðvitað eðlilegt að málið væri flutt sem þáltill. í Nd. af formanni Nd.-nefndarinnar, hv. 1. þm. Vestf., Matthíasi Bjarnasyni. En ekki gekk það nú alveg upp.

Þeir eru miklir fyrir sér sumir hérna í þinginu, og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson vildi gjarnan vera 1. flm. að þessu máli. Þess vegna er það fáránlega ráð tekið að flytja samhliða í báðum deildum sama mál. Þetta er fáheyrt og ég veit reyndar ekki um nein fordæmi fyrir því. Auðvitað var það stórkostlega fræðandi fyrir hv. Ed.-menn að hlýða á framsöguræðu hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar, en þó held ég að þeir hefðu getað numið spekina þó að búið hefði verið að mæla fyrir málinu hér í Nd., og hv. þm. Ólafur Ragnar hefði getað flutt sína snjöllu ræðu yfir Ed.-mönnum sem almennur ræðumaður.

En æðibunugangurinn var nú meiri en svo að þetta væri nóg. Það var ekki einu sinni hægt að hafa hina þinglegu meðferð á þskj. Nei, nei. Hv. þm., formaður þingflokks Alþb. tekur sig til, dreifir ljósriti af þskj. sem ekki var búið að bóka, ekki var búið að leggja fram, og dreifir því til fréttamanna sem hér voru staddir í húsinu. Ég sá hjá fréttamönnum þetta ljósrit af handritinu 21/2 klukkutíma áður en hv. 1. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, lagði þáltill. inn á skrifstofu til skjalavarðar til bókunar. Það var ekki hægt að bíða eftir því að starfsmenn þingsins fengju málið til réttrar meðhöndlunar. Nei, nei, það varð að auglýsa það fyrir þjóðinni að þetta væri á leiðinni og þarna væru nú aldeilis menn á ferð.

Ég lýsi fullri ábyrgð á hendur þeim meiri hl. sem myndast hefur, og þarf náttúrlega ekki vitnanna við, því að svo er nú orðið tilhugalíf Alþb. og Sjálfstfl. hér í þinginu, ekki einasta um þetta mál, vísitölumálið, brbl. á lokastigi, þar sem Alþb. hélt í höndina á Sjálfstfl. eftir því sem unnt var, og í fleiri málum sem of langt yrði upp að telja. Þetta tilhugalíf getur náttúrlega ekki bent til annars en að náin samskipti eru á næsta leiti. Það liggur við að við framsóknarmenn þurfum að fyrirverða okkur fyrir að vera þarna fyrir og þeir fái ekki að njótast strax. Ég lýsi sem sagt ábyrgð á hendur þeim meiri hl. sem hér hefur myndast. Framsóknarmenn vilja ekki taka þátt í því að boða til seinni kosninganna fyrr en útséð er um að næsta Alþingi hafi ekki manndáð til að vinna þau verk sem óhjákvæmilegt er að vinna.

Þar að auki — sem er nú kannske rúsínan í pylsuendanum — hefur þessi till. náttúrlega ekki neitt stjórnskipulegt gildi og er út af fyrir sig alveg óþörf, alveg óþarft vantraust og ómaklegt vantraust á næsta Alþingi. Ef hér myndast eftir kosningarnar meiri hluti, þá tekur hann að sjálfsögðu við völdum. Það er hin rétta aðferð, að menn komi sér saman um hvernig þeir ætla að stjórna landinu eða láta því óstjórnað, taki saman höndum með lýðræðislegum hætti og gangi frí málunum, myndi ríkisstj. sem — ef hún hefur sómatilfinningu til — reynir að reisa rönd við þeim háska sem að okkur steðjar í efnahagsmálum. Ef hún hins vegar hefur ekki dug til þess, þá er að demba sér út í nýjar kosningar. En í því viljum við framsóknarmenn ekki taka þátt. Við afsegjum að standa að samþykkt svona till. af því að við vitum að á bak við liggur að mennirnir eru bara að hugsa um að kjósa og reyna að styrkja með því stöðu sína og tefla í hættu efnahagslegri velferð þjóðarinnar e.t.v. um langan tíma. Svo belgir hæstv. heilbrmrh. sig út hér í ræðustól um það, að hann ætli að kveðja saman Alþingi til þess að taka rækilega á efnahagsmálum. Eftir þau kynni sem við framsóknarmenn höfum haft af þessu samstarfi við Alþb., gætum við giskað á að honum væri eitthvað ofar í hug en að taka á efnahagsmálum. Hv. þm. Halldór Ásgrímsson, 3. þm. Austurl., gerði þetta atriði að umtalsefni með glöggum hætti hér áðan. Mér sýnist ekki þörf þar um að bæta, en get ekki annað en látið í ljósi sérstaklega mikla furðu mína á hinum digurbarkalegu orðum hæstv. heilbrmrh. um þetta efni. Hann hefur haft tækifæri til allt síðan 8. febr. 1980 að taka á efnahagsmálum í samstarfi við okkur framsóknarmenn. En flokkur hans hefur ekki verið sérlega fús til þeirra verka.

Ég þarf ekki að orðlengja þetta mál öllu meira. Mér sýnist rétt að hinir samhæfðu kraftar Sjálfstfl. og Alþb. fái að taka saman og njóta sín í þjóðfélaginu. Þá bæru þeir líka ábyrgðina á því hvernig landinu yrði stjórnað. Við framsóknarmenn bjóðum okkur fram til að stjórna landinu eftir kosningar. En við viljum reyna að stjórna því með árangri. Við viljum stjórna því til þess að hér verði betra að búa, til þess að hér verði traustari efnahagur, til þess að hér verði blómlegra atvinnulíf, en ekki verið að leggja alla áherslu á að slást í kosninguna. (Gripið fram í: Hvað ætlið þið að gera fram að kosningum?) Við ætlum að reyna að stjórna landinu með þeim burðum sem við höfum. Við munum fara til þjóðarinnar og biðja um aukið traust til að koma betur fram stefnu okkar og gera okkur meira gildandi í .stjórnmálalífi þjóðarinnar. Við munum reyna að standa fyrir því, að hér sé það þjóðfélag sem við viljum hafa, með blómlegu atvinnulífi og allir hafi nóg fyrir sig að leggjá. Við viljum reyna að forðast atvinnuleysi. Við viljum stemma stigu við hinni stórhættulegu skuldasöfnun í útlöndum o.s.frv., sem ég kem til með að rekja í löngu máli á framboðsfundum fyrir norðan og þarf ekki að flytja hér fyrir hv. 3. þm. Reykn. í ítarlegra máli.

Ég legg til að þessi till. verði felld. Hinn nýi meiri hl. getur að sjálfsögðu neytt aflsmunar og samþykkt till. þó að við greiðum atkv. á móti henni. Það er hans réttur. Það er nefnilega réttur meiri hl. að gera þær vitleysur sem hann kemur sér saman um að gera.