14.03.1983
Efri deild: 71. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 3118 í B-deild Alþingistíðinda. (3127)

211. mál, lán vegna björgunar skipsins Het Wapen

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Hér hefur verið vitnað til fyrirvara varðandi fjvn. Ef nú heldur sem horfir og þing verður rofið í kvöld getur liðið nokkur tími þangað til ný fjvn. verður kosin og tekur til starfa. Mér finnst allsendis ótækt að samþykkja slíka lánsheimild, eins og hér er um að ræða, á jafnhæpnum forsendum og fram koma í þeim þskj. sem hv. þm. hafa hér á borðum sínum, að samþykkja 50 millj. kr. lánsheimild eða ríkisábyrgð í þessu skyni meðan atvinnutæki í þorpum sums staðar úti á landi, togarar, eru að stöðvast vegna þess að þau fá ekki eðlilega lánsfyrirgreiðslu og fólkið í landinu missir þá atvinnu sína. Það er svo sem eftir öðru að þetta skuli að líkindum verða síðasta málið sem afgreitt er á þessu þingi, og ég held að það sé okkur frekar til minnkunar en hitt, því miður, og ég segi nei.

Frv. afgr. sem lög frá Alþingi (þskj. 660).