16.11.1982
Sameinað þing: 17. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 578 í B-deild Alþingistíðinda. (360)

31. mál, afurðalán landbúnaðarins

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi sagði að ég hefði svikist um það í 31/2 ár að framkvæma þá þál. sem spurt er út af. Ég hef ekki setið sem viðskrh. nema í líklega tæp 3 ár (EKJ: Ég nefndi ráðh. Ég nefndi ekki nafn í því tilefni.) þannig að hv. þm. verður að reikna betur í þessu tilfelli sem fleirum.

Hv. 5. landsk. þm. hefur beint til mín fsp. í fjórum liðum. Fyrstu tveir liðirnir varða framkvæmd þál. frá 22. maí 1979 um beinar greiðslur á rekstrar- og afurðalánum til bænda, en tveir hinir síðari lúta almennt að rekstrar- og afurðalánum landbúnaðarins. Ég mun fyrst víkja að spurningunum um beinar greiðslur á rekstrar- og afurðalánum til bænda.

Sú fyrri er svohljóðandi: „Hvaða reglur hafa verið settar um rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins, sem tryggja að bændur fái fjármuni sína í hendur um leið og lánin eru veitt, í samræmi við ályktun Alþingis frá 22. maí 1979?“ Hin síðari hljóðar svo: „Er lokið undirbúningi þess, að ályktun Alþingis frá 22. maí 1979 komi til framkvæmda við veitingu afurðalána í nóv. n.k.?“

Áður en ég svara þessum spurningum efnislega skal tekið fram að spurningum sama efnis hef ég svarað áður, síðast í febrúarmánuði. Má að nokkru leyti vísa til þess svars sem þá var gefið. Ég vil einnig leyfa mér að minna á, að í upphafi svars míns í febrúarmánuði var greint frá því að nefnd, sem landbrh. fól að gera tillögur um framkvæmd á beinum greiðslum til bænda í samræmi við nefnda þál., taldi ályktunina nánast óframkvæmanlega. Í þessari nefnd átti m.a. sæti einn af þm. stjórnarandstöðunnar, hv. þm. Árni Gunnarsson. Skrifaði hann undir þessa niðurstöðu athugasemdalaust. Hið sama gerðu bankastjórarnir Magnús Jónsson í Búnaðarbankanum og Helgi Bergs í Landsbankanum, sem einnig áttu sæti í nefndinni.

Það kom hins vegar fljótt í ljós, að hv. fyrirspyrjandi treysti á engan hátt faglegu mati þessara manna. Vegna sérstaks áhuga fyrirspyrjanda á þessu máli ákvað ég að láta athuga það nánar. Eftir að málið hefur verið skoðað frá ýmsum hliðum og ég kynnt mér það verð ég að lýsa þeirri skoðun minni, að ég tel tæknilega mjög torvelt og ákaflega dýrt fyrir bændur og raunar fleiri, sem eru sauðfjáreigendur, að gera breytingar á núgildandi tilhögun á afgreiðslu afurðalána. Þessa skoðun skal ég skýra nokkru frekar.

Eins og kunnugt er eru afurðalán veitt út á birgðir sauðfjárafurða, mjólkurafurða og ýmissa afurða aukabúgreina til að standa undir þeim kostnaði sem í þær hefur verið lagður. Við skulum fyrst skoða afurðalán sem eru tilkomin vegna mjólkurafurða. Hér er einkum um lán vegna framleiðslu og birgða af smjöri og ostum að ræða og engin leið að gera upp hlut einstakra bænda í fyrirliggjandi birgðum hverju sinni. T.d. er hugsanlegt, að farið hafi fram fullnaðaruppgjör við bændur á mjólk, sem búið er að umbreyta í osta, sem eru í birgðum, og búið sé að greiða fullt verð til bænda fyrir mjólkina. Mér þætti fróðlegt að heyra hvort fyrirspyrjandi sé þeirrar skoðunar, að bændur ættu einnig að fá hluta afurðalána vegna sömu mjólkur. Slíkt væri vitaskuld algerlega óraunhæft, en einmitt vandamál af þessu tagi gæti komið upp ef farið væri að greiða afurðalánin beint til bændanna.

Afurðalánin vegna aukabúgreina verða einnig að ganga til þess aðila sem hefur vinnslu eða sölu vörunnar með höndum. Annað yrði illframkvæmanlegt. Framleiðendur á hrossakjöti eru t.d. bæði margir og smáir og sumir hverjir þéttbýlisbúar. Beinar greiðslur afurðalána til þessara framleiðenda, jafnvel út á 1–2 hross svo að dæmi sé tekið, mundu leiða til allt of mikils kostnaðar og skriffinnsku.

Lán vegna sauðfjárafurða eru mestmegnis veitt út á sláturafurðirnar og falla þær til á haustmánuðum ár hvert. Framleiðsluráð landbúnaðarins hefur sett þá meginreglu, að sáturleyfishafar greiði bændum a.m.k. 80% af verðmæti afurðanna á haustin. Á þessum tíma er meginhluti afurðanna ennþá í birgðum og sláturleyfishöfum ekki mögulegt að inna áðurnefnda greiðslu af hendi fyrr en afurðalánin hafa verið veitt. Seðlabanki Íslands og viðskiptabankarnir veita afurðalán út á sauðfjárafurðir, sem eru á bilinu 71–75% af kostnaðarverði afurðanna án sjóðagjalda. Þessi lánveiting er forsenda þess, eins og áður er nefnt, að sláturleyfishafar geti greitt bændum tilskilinn hluta afurðaverðsins samkv. tilmælum Framleiðsluráðs landbúnaðarins.

Það má öllum vera ljóst, að sláturleyfishafar yrðu að lækka útborgunina um það sem lánafyrirgreiðslunni nemur ef þeir fengju ekki afurðalánin og þau greiddust beint til bænda. Það hlýtur einnig öllum að vera ljóst, að bændum væri óþökk gerð með því að ætla þeim að sækja haustútborgun sauðfjárafurða að hluta til bankakerfisins í formi afurðaláns og að hluta til sláturleyfishafans, en það mundi einmitt leiða af framkvæmd þál. um beinar greiðslur á afurðalánum til sauðfjárbænda. Ef afurðalánin yrðu greidd beint til bænda yrðu þeir væntanlega að greiða lánin til baka eftir því sem birgðir minnkuðu. Ætlast fyrirspyrjandi til að hver bóndi fari að fylgjast með birgðahaldi hjá sláturleyfishafa? Það yrði vitaskuld mikið óhagræði fyrir bændur, svo að ekki sé meira sagt. Ég held að hv. fyrirspyrjandi verði að íhuga þetta ögn betur efnislega og hvernig möguleg framkvæmd á þessu gæti orðið.

Fyrst ég er farinn að tala um óhagræði bændanna af beinni greiðslu afurðalánanna vil ég biðja menn að rifja það upp að Stéttarsamband bænda hefur lýst sig andvígt greiðslu á rekstrar- og afurðalánum til bænda án milligöngu sölufélags. Stéttarsambandið telur slíka tilhögun flókna og erfiða í framkvæmd og mjög kostnaðarsama fyrir bændur. Í svipaðan streng hafa viðskiptabankarnir, Landsbankinn og Búnaðarbankinn, tekið.

Þær röksemdir fyrir afstöðu minni, sem nú hafa verið taldar, mundu nægja og er vísað að öðru leyti til svars míns frá því í febrúar. Erfiðleikarnir við þetta mál eru kannske mest bundnir við að bankarnir, sem lána þetta fé, hafa gert þá kröfu að þeir yrðu að taka veð og fá veðskjöl frá öllum aðilum sem selja sínar afurðir. Í mörgum tilfellum eru þetta margir aðilar á einu og sama sveitaheimilinu. Þess vegna þyrfti að útbúa veðskjöl í þessu sambandi, sem kostar verulegt fé. Það þyrfti að greiða stimpilgjöld og lántökugjöld, sem einnig kostar verulegt fé, og af þessu væri talsverð fyrirhöfn. Þegar um þessi mál er rætt verður að hafa í huga að viðskiptabankarnir hafa gert þessa kröfu.

Þá vil ég víkja að rekstrarlánunum. Áður en ég lýsi afstöðu minni til framkvæmdar á þál. er nauðsynlegt að fara nokkrum orðum um núgildandi veitingu og greiðslu á lánunum.

Seðlabanki Íslands veitir landbúnaðinum rekstrarlán. Rekstrarlánin eru veitt vegna framleiðslu sauðfjárafurða á vorin og fram eftir sumri og endurgreiðast með afurðalánunum að hausti, þegar sláturtíð er lokið og veðsetning birgða kindakjöts hefur farið fram. Af þessu leiðir að sláturleyfishafar hafa tekið þessi lán og ábyrgjast endurgreiðslu þeirra. Spurningin er sú, hvort þeir fjármunir sem Seðlabankinn veitir til þessa nái til bændanna sjálfra eða dagi uppi í kassa sláturleyfishafanna.

Í því sambandi er vert að minna á hverjir eru sláturleyfishafar í landinu. Það eru kaupfélögin með alhliða viðskipti við bændur, sláturfélög og slátursamlög auk einkaaðila eða hlutafélaga sem reka sláturhús án annarra viðskipta við bændur. Af þessari upptalningu má ljóst vera, að möguleikar bænda til að rekstrarlánin komi til fjármögnunar á rekstri þeirra eru mismunandi eftir því hvaða aðili á í hlut.

Sé rekstur kaupfélaganna skoðaður er enginn vafi á að þau veita sauðfjárbændum mun meiri lánsviðskipti frá vordögum og fram á haust en rekstrarlánum frá Seðlabankanum nemur. Að sjálfsögðu er lánsviðskiptaþörf bænda misjöfn eftir efnahag. Stéttarsamband bænda hefur því vakið athygli á, að greiddust þessi lán bændum beint væri hugsanlegt að margir bændur mundu ekki taka lánin af einni eða annarri ástæðu. Þá yrði minna til að miðla hinum efnaminni af, sem einkum hafa þörf fyrir lánafyrirgreiðslu þar til afurðainnlegg fer fram.

Þeir sláturleyfishafar sem ekki hafa alhliða viðskipti við bændur hafa takmarkaðri möguleika til að láta rekstrarlánin ganga til fjármögnunar í búrekstri sauðfjárbænda gegnum viðskipti. Þó er það svo, að í mörgum tilfellum hafa þeir séð um að greiða áburðarkaup bænda og einnig eru dæmi um að þeir leysi út víxla fyrir bændur með ávísun á sauðfjárinnlegg að hausti. (Forseti hringir.) Herra forseti. Ég á ekki langt eftir, en spurningarnar eru fjórar þannig að ég vona að mér fyrirgefist þó að ég nýti hér 2–3 mínútur til viðbótar til að svara þeim. — Í þeim tilfellum fá einstakir bændur meiri fyrirgreiðslu hjá þessum sláturleyfishöfum en svarar haustinnleggi bóndans.

Nú skal þess getið, að fleiri og fleiri kaupfélög hafa tekið upp þá stefnu að greiða rekstrarlán ótilkvödd inn á reikninga bænda um leið og lánin eru veitt. Er sú lánsfjárhæð, sem hver bóndi fær, miðuð við sláturfjártölu síðasta árs og heildarfjárhæð lána frá Seðlabankanum. Á s.l. sumri nam þessi fjárhæð 162 kr. á dilk. Raunar væri eðlilegt að kaupfélögin fengju að þróa þetta fyrirkomulag í friði, en vegna hins sérstaka áhuga fyrirspyrjanda á þessu máli hef ég ritað bankastjórn Seðlabankans bréf, þar sem ég óska þess að bankinn breyti reglum um greiðslu rekstrarlánanna á þann hátt að framleiðendur sem þess óska geti fengið lánin greidd út h já sláturleyfishöfum eða lögð inn á reikning sinn. Sláturleyfishafar verða þó eftir sem áður lántakendur. Er bankanum uppálagt að hafa það fyrirkomulag, sem tíðkast hjá Kaupfélagi Borgfirðinga, til hliðsjónar. Breytingar á reglum skulu gerðar í samvinnu við sláturleyfishafa og Samband ísl. samvinnufélaga og á jafnframt að gefa sláturleyfishöfum hæfilegan aðlögunartíma að hinum breyttu reglum.

Þannig má segja að nokkuð hafi miðað í áttina í samræmi við þál. Hún setur ekki tímamörk og þó að langur tími sé liðinn frá því að hún var samþykkt er þetta mál flókið og alls ekki einfalt. Það sem mér finnst vera langsamlega mest umhugsunarefni í þessu máli er að ef þetta væri skilyrðislaust framkvæmt af bönkunum mundi það leiða af sér verulegan kostnað fyrir fólk í sveitum, vegna þess að bankarnir gera þá kröfu að veðsetning verði að fara fram þannig að þeir fái veð hjá hverjum aðila.

Tveir síðari liðir fsp. lúta almennt að rekstrar- og afurðalánum landbúnaðarins. Fyrri liðurinn er svohljóðandi:

„Hve mikil voru rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins á s.l. ári og hve mikil verða þau í ár?“

Erfitt er að meta hversu mikil rekstrar- og afurðalánin voru á s.l. ári þegar á heildina er litið. Samkv. upplýsingum Seðlabankans námu endurkeypt rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins rétt um 431 millj. kr. hinn 30. nóv. 1981. Viðbótarlán viðskiptabankanna námu á sama tíma ca. 369 millj. kr. Þetta gerir samtals 800 millj. kr. Í ár má gera ráð fyrir að 30. nóv. verði lánin 60% hærri en á sama tíma í fyrra að teknu tilliti til verðhækkana og magnbreytinga. Það þýðir að lánin munu samtals nema 1280 millj. kr.

Í síðari liðnum er spurt hvaða vexti afurðasölufyrirtækin greiði af rekstrar- og afurðalánum og hvaða vexti kaupfélög taki af bændum.

Afurðasölufyrirtæki greiða nú 29% ársvexti af endurkeyptum rekstrar- og afurðalánum, en 39% vexti af svonefndum viðbótarlánum, sem viðskiptabankarnir veita. Síðari hluti spurningarinnar er óljós, því að ekki kemur fram við hvaða vexti sé átt. Af þeim hluta rekstrarlánanna, sem greiddur er inn á reikning bænda, eru vextirnir 29%, sem eru sömu vextir og Seðlabankinn tekur. Afurðalán, sem kaupfélög hafa tekið og greiðast bændum sem fyrsta greiðsla haustgrundvallarverðs, eru að sjálfsögðu ekki vaxtareiknuð bændum sérstaklega.

Eins og hv. fyrirspyrjandi sér hefur verið unnið verulega í þessum málum og reynt að kanna með hverjum hætti sé mögulegt að framkvæma þál. eins og hún er orðuð. Hún er náttúrlega ekki lög hún er þál. Ég fæ ekki betur séð en með tilliti til afstöðu viðskiptabankanna muni skilyrðislaus framkvæmd á þessa leið hafa í för með sér veruleg útgjöld fyrir bændur og aðra sauðfjáreigendur auk fyrirhafnar sem er og verður veruleg í sambandi við þetta. Þrátt fyrir þetta vil ég endurtaka að þál. setur ekki tímamörk og minni á það ennþá einu sinni, þó að langur tími sé liðinn frá því að hún var samþykkt.