16.11.1982
Sameinað þing: 17. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í B-deild Alþingistíðinda. (372)

31. mál, afurðalán landbúnaðarins

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð vegna orða hv.pm. Sverris Hermannssonar, bankastjóra Byggðasjóðs. Ég ber ekkert meiri virðingu fyrir bankastjórum en öðrum mönnum. Hins vegar ber ég virðingu fyrir séráliti þeirra og sérþekkingu. Það er það sem skiptir máli í þeirri umr. sem hér fer fram.

Ég sagði það og vil endurtaka að vandinn í þessu máli er sá, að það skortir fjármuni. Þeir liggja ekki á lausu, þessir fjármunir. Ef hins vegar þingið treystist til þess að gera þá kröfu til bankanna með lagabreytingu að þeim beri að legg ja fram afurðalánin upp í 100 %, þá er það allt önnur saga, allt annað mál.

Ég vil líka að það komi skýrt fram að nefndin, sem fengin var til þess að kanna möguleikana á fullri greiðslu á afurðalánum, að bændur fengju sína fjármuni þegar í stað eftir að þeir hafa skilað inn sínum afurðum, komst einfaldlega að þeirri niðurstöðu að tæknilega væri þetta óframkvæmanlegt, því miður. Enginn maður í þeirri nefnd hafði þá afstöðu í málinu að hann hefði ekki viljað að það væri hægt, ekki nokkur maður. (Gripið fram í: Hver er sérstaða refabænda?) Nú veit ég ekki um sérstöðu refabænda. Þar held ég að sé um að ræða upphæðir sem eru ekki það háar að þær skipti umtalsverðu máli. Hins vegar eru upphæðirnar sem við erum að tala um, þegar kemur að dilkakjötsframleiðslunni, þvílíkar, að bankakerfið stynur auðvitað undan því að þurfa að greiða þetta allt saman og lána þetta allt saman. Það gefur auga leið, herra þm. Ég vil bara segja það, svo að það skiljist, að við erum ekki að tala hér um nokkrar millj. Við erum að tala um 100 millj. kr. Hvar á að taka þessa peninga? Hvar ætla menn að taka þá núna eins og efnahagsvandinn er? Halda menn að bankakerfið sé aflögufært um fjármuni til þessara hluta núna? Ég held að það sé tómt mál að tala um. Eins og ég sagði áðan, þá verða menn að greina á milli þess sem er alvaran í þessu máli, sem er líklega sú, að menn sjá eftir þeim fjármunum sem ganga inn til samvinnuhreyfingarinnar vegna þessa. En það er allt annað mál og um það verður að ræða öðruvísi og á öðrum vettvangi.