16.11.1982
Sameinað þing: 17. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 599 í B-deild Alþingistíðinda. (383)

261. mál, beinar greiðslur til bænda

Egill Jónsson:

Herra forseti. Það voru einkum ummæli hæstv. landbrh., sem hann viðhafði hér áðan, þar sem hann sagði að kjarnfóðurgjaldið hefði komið í veg fyrir framleiðsluaukningu og þannig á vissan hátt orðið til að bæta hag bændanna, komið í veg fyrir að framleidd yrði sú búvara sem ekki væri pláss fyrir á markaðnum á nothæfu verði, sem ég vildi aðeins vekja athygli á því að þessi skýring hæstv. ráðh. er ekki rétt. Kjarnfóðurgjaldið hefur ekki verkað með þessum hætti.

Fyrir þessu eru þau rök að það hefur ekki dregið úr afurðasemi, meðalnytin hefur t.d. ekki minnkað. Í öðru lagi hefur ekki dregið úr kjarnfóðurnotkun. Ég hef nýlega farið yfir niðurstöður sem hafa verið teknar eftir búreikningum og þá kemur í ljós að kjarnfóðurnotkun hefur ekki minnkað, hvorki í sauðfjárrækt né heldur nautgriparækt. Og þriðja veigamesta staðreyndin í þessum efnum er sú, að kjarnfóður er ekki dýrara. Það kostar ekki meira miðað við afurðaverð en það hefur gert á síðasta áratug, þegar yfir það er litið.

Aftur á móti — (Forseti hringir.) Herra forseti. Ég er alveg að ljúka mínu máli. — verður ekki komist hjá því að vekja á því athygli að kjarnfóðurgjaldið hefur í rauninni leitt til gagnstæðra áhrifa vegna þess að það hefur verið notað til að borga hluta af landbúnaðarverðinu, sem markaðurinn hefur ekki skilað. Það hefur þannig verkað sem fölsun á útborgunarverði á landbúnaðarvörum.