16.11.1982
Sameinað þing: 17. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 609 í B-deild Alþingistíðinda. (400)

270. mál, endurbygging Egilsstaðaflugvallar

Fyrirspyrjandi (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka samgrh. þær upplýsingar, sem hann hefur gefið hér, og ég mun ekki halda langa ræðu um þetta mál á þessu stigi. Ég vil aðeins undirstrika mjög sterklega þær óskir Austfirðinga, að málinu verði fylgt eftir og þessi samanburður liggi fyrir um áramót og ég fagna því að þessar hugmyndir séu kynntar fyrir heimamönnum, en fsp. er fram borin til að vekja athygli á hug manna eystra í þessu máli því að það er talið mjög mikilvægt þar. Ég þarf ekkert að endurtaka það sem ég sagði áðan, en ég vil þó ekki láta hjá líða að geta þess að flugsamgöngurnar eru geysimikilvægur þáttur í samgöngukerfinu eystra og Egilsstaðaflugvöllur er þar algert grundvallaratriði.