22.11.1982
Efri deild: 11. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 700 í B-deild Alþingistíðinda. (467)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Formaður Alþb. hefur sagt þjóðinni að hún sé að glata efnahagslegu sjálfstæði sínu og flokksmenn hans krefjast hver um annan þveran fórna á fórnir ofan, kjaraskerðinga á kjaraskerðingar ofan. Formaður Framsfl. segir að við séum komnir fram á ystu nöf í efnahagsmálum og fjöldaatvinnuleysi muni dynja yfir á næstu vikum. Liðsmenn hans segja, að ákvæði frv. þess sem hér er til umr. séu ekki nándar nærri nógu róttæk, kjaraskerðingin þyrfti að vera miklu meiri og skattaálögurnar enn þá þyngri. En hæstv. forsrh., blessaður, bjargar þessu öllu saman. Frá hans bæjardyrum horfir þetta allt öðruvísi við. Þar er allt í sómanum, eins og ævinlega þar sem hann kemur nálægt málum. Ekkert nema einingin og bróðernið, virðingin fyrir Alþingi og elskusemin einskær. Það er hreint ekki ónýtt fyrir hnípna þjóð í vanda að eiga svona einingartákn.

Allt væri þetta sprenghlægilegt ef það væri ekki svona skelfilega alvarlegt. Auðvitað er vandinn geigvænlegur. Hann byggist að langmestu leyti á rangri stjórnarstefnu. Við höfum verið að sökkva í skuldafen á mestu uppgripaárum í allri Íslandssögunni. Þó er sjálfsagt að játa að ytri aðstæður hafa að sumu leyti verið samverkandi stjórnarstefnunni. Þannig er t.d. varla hægt að kenna ríkisstj. um það, að skreiðin er líka maðksmogin og Ítalir allt of matvandir. Við uppskerum nú illgresi það sem til var sáð með stjórnarmynduninni.

Þegar brbl. þau, sem nú fyrst eru lögð fram fyrir Alþingi, góðum mánuði eftir að það kemur saman, voru útgefin 21. ágúst s.l. lýsti þingflokkur Sjálfstfl. fyllstu andstöðu við þau og krafðist þess að þing yrði kvatt saman, enda lá þá fyrir að ríkisstj. hafði ekki starfhæfan meiri hl. Á því þingi hefði kjördæmamálið verið til lykta leitt, síðan rofið þing og kosið nýtt. Þær kosningar hefðu þá væntanlega farið fram fyrir nokkrum vikum í blíðskaparveðri um land allt og vonir hefðu a.m.k. til þess staðið að starfhæfur meiri hl. gæti myndast á Alþingi að þeim loknum þannig að sú ógnvænlega mynd íslenskra þjóðmála, sem nú blasir við hverju heimili og hverju atvinnufyrirtæki, væri einungis martröð, sem menn hefðu vaknað upp frá, en ekki blákaldur veruleiki. Og nú segir formaður Framsfl. í fjölmiðlum, að eftir á að hyggja hefði verið besta lausnin, sú sem Sjálfstfl. benti á, að kjósa strax í haust. Hann hefði mátt hugsa fyrr, sá góði maður.

Alþfl. gerði sömu kröfu og formaður þingflokks hans, hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, sagði þá: Engin stjórn á samningskröfu á hendur stjórnarandstöðu. Kannske segir hann það enn eða hvað?

Ef hæstv. forsrh. hefði orðið við þessari ósk Sjálfstfl. hefði hann unnið langmerkasta verk í langri sögu sinni og baráttu innan Sjálfstfl. og fyrir hann. Þá hefði það leitt af sjálfu sér að Sjálfstfl. hefði gengið heill og óskiptur til kosninga. Þær kosningar væru afstaðnar og Sjálfstfl. vafalítið kominn í einhverja aðstöðu til að taka þátt í björgunaraðgerðum út úr því öngþveiti sem allir sjá nú fyrir augum og stjórnarherrarnir lýsa hvað skýrustum dráttum.

Ekki veit ég hvað hæstv. forsrh. gengur til að halda enn saman þessari vonlausustu stjórn allra stjórna, en ég veit hvað kommúnistum gengur til. Þó er kannske líka ljóst hvað vakir fyrir Gunnari Thoroddsen, hæstv. forsrh. Það væri raunar skrýtið ef svar við því vefðist fyrir mönnum, a.m.k. nú eftir að hann hefur slitið tengsl við flokksstarfið í Reykjavík með skætingsbréfi, sem hann sendir fulltrúaráði sjálfstæðisfélaganna að tilefnislausu, annaðhvort af því að hann vill ekki eða þorir ekki að sækjast eftir framboði á vegum flokksins. Og hvers vegna halda menn að hann ljái aldrei máls á því að stjórnin segi af sér og ráðherrar kommúnista og Framsfl. styðji hann dyggilega í þeirri afstöðu, þótt allir tali þeir nú um að til greina geti komið að flýta kosningum? Svarið er svo augljóst að menn hafa ekki komið auga á það. Auðvitað hafa þessir herrar samið um að halda stjórnarsamstarfinu áfram næsta kjörtímabil, ef nokkur lífsins leið er. Höfuðpaurinn, sjálfur formaður kommúnistaflokksins, fer heldur ekkert dult með þetta. Hann krafðist á flokksráðsfundi um helgina kosninga sem fyrst og segir svo: „Í þeim kosningum þyrftum við að leggja áherslu á að núv. ríkisstj. fengi aukinn meiri hluta á Alþingi þannig að unnt væri að stýra eftir meginstefnu hennar áfram.“ Þess vegna lætur formaður Framsfl. líka samþykkja enn þrælslegri ofstjórnarstefnu en áður á þingi flokks síns til að girða fyrir samstarf við frjálslynd öfl að kosningum afstöðnum, eins og nánar verður vikið að síðar. Og þess vegna andmæla kommúnistar varla einu sinni að nafninu til þessari nýju og þrælmögnuðu afturhaldsstefnu Framsfl., heldur þvert á móti, og þriðji aðili ríkisstj. andmælir auðvitað engu.

Nú virðast allir hafa gleymt því, að Gunnar Thoroddsen, hæstv. forsrh., hefur frá stjórnarmyndun og til þessa dags sagt það hverjum sem heyra vildi að hann ætlaði að sitja út kjörtímabilið. Hann segist ætla að vera forsrh. þegar talningu lýkur í von um að núverandi aðilar að ríkisstj. fái styrkleika til að starfa áfram, en ella auðvitað að bera víurnar í þær leifar Alþfl. sem eftir kynnu að verða. Og hann er ekki einn til vitnis um þetta, þvert á móti. Allir aðilar stjórnarsamstarfsins hafa æ ofan í æ gælt við það, meira að segja síðustu vikur og daga, að efna til kosninga til að reyna að auka þingstyrk sinn svo að þeir geti áfram verið í stjórn eða stjórnað til næsta hausts með tilskipunum. Enginn hefur sýnt þar minnsta bilbug né fengist til að lýsa neinu öðru yfir. Þetta er sú óhugnanlega mynd sem við blasir í íslensku þjóðlífi. Atvinnan, lífskjörin, efnahagslegt sjálfstæði og allt það sem nú er ógnað með verður að víkja fyrir metnaði og trúnaðarheitum þeirra sem völd tóku á Íslandi í ársbyrjun 1980.

Ljóst er hvað fyrir kommúnistum vakir. Þeim er ástandið ekki eins leitt og þeir láta. Þeim hefur tekist það ætlunarverk sitt að koma meginatvinnuvegum landsins á vonarvöl. Þeim hefur tekist að brenna upp öllu fjármagni í einka- og félagsrekstri í sjávarútvegi, hneppa landbúnaðinn í lénsviðjar og sverfa svo að iðnaði að þar er stöðugur samdráttur og í besta falli stöðnun. Og nú boðar formaður flokks þeirra, að ætlunarverkið sé að ná gróðanum af versluninni og þjónustu, þar hafi verið heldur lífvænlegra en í undirstöðuatvinnuvegunum svokölluðu. Þar verður því að láta greipar sópa svo að hvarvetna sé sviðin jörð. Það segja þeir a.m.k., þó að reynslan sé sú, þegar þeir ráða, að þeir vilja gjarnan láta braskið blífa ef meginstoðir atvinnulífsins hrynja. Þetta ástand er auðvitað óskastaða kommúnista í baráttu á komandi árum fyrir því að lengur þurfi ekki að spyrja: Sovét-Ísland, óskalandið, hvenær kemur þú?

Þetta er raunar bara önnur hlið málanna. Kommúnistar hafa líka náð öðrum markmiðum ekki síður mikilvægum. Þeim hefur tekist að koma á meira misrétti í íslensku þjóðfélagi en tíðkast hefur í marga áratugi og þeim hefur tekist að sverfa svo að eignarrétti hins almenna borgara að naumast er nokkur kostur fyrir ungt fólk, hversu duglegt sem það er, að byggja eigin íbúðarhúsnæði og standa undir árlegum greiðslum af þeim kostnaði eða þá að ráðast í atvinnurekstur. Þess vegna verður þetta allt saman á félagslegum grundvelli í framtíðinni og fólkið verður náðarsamlegast að búa undir því þaki sem kommissararnir úthluta því. Svo hefur þeim tekist að hreiðra um sig hvarvetna í þjóðlífinu. Og síðast en ekki síst hefur forustumaður úr aðallýðræðisflokki landsins boðið þeim kverkatök á sér. Slíku hafa þrælskólaðir kommúnistaforingjar hingað til hvergi fúlsað við.

En hvað þá með Framsókn, hvað segir hún? Ég er sannfærður um að fjöldi framsóknarmanna fyrirverður sig fyrir það að taka þátt í þeim ljóta leik sem nú er leikinn. Þeir gera sér grein fyrir hvert stefnir til sjávar og sveita. Þeir gera sér grein fyrir að fjöldi ungra og dugmikilla bænda er að kikna undan drápsklyfjum okurvaxta og elskusemi SÍS-valdsins og unga fólkið í bæjunum er að missa íbúðir sínar. Og þeir víta að niðurtalningin svokallaða er farin veg allrar veraldar, enda eintómt bull. Þeir vita að landið er stjórnlaust og allt er byggt á óheilindum. Þeir vita að það er illt verk sem flokkur þeirra vinnur þegar hann hangir áfram við völd, ef völd skyldi kalla. En þeim er skipað að stíga Hrunadansinn til enda. Það veit formaður Framsfl. manna best þótt hann segi nú að kannske væri betra að rjúfa þing og kjósa um hávetur.

Með leyfi forseta læt ég nú varaþm. Framsfl., Harald Ólafsson, lýsa þessu ástandi. Hann segir í grein í Tímanum 20. okt. s.l.

„Undarleg eru örlög þessarar þjóðar. Mitt í einhverri mestu velsæld sem þekkist á byggðu bóli blikna harðnaðar stjórnmálahetjur gagnvart „ægilegasta vanda“ sem um getur í sögunni. Og ungir menn og hraustir taka undir þennan harmþrungna óð og bjóðast til að hætta „snakkinu“ og fara að „gera eitthvað“. Það mætti ætla, að yfir væri skollið tímabil áþjánar, pesta, illviðra og nauða. Landsmönnum er sagt, að fiskurinn sé horfinn úr sjónum, enginn vilji kaupa skinnkápur, skreiðin heldur áfram að hrannast upp og Afríkumenn fá ekki að kaupa hana og skuldasúpan þykknar stöðugt. Söngurinn er langur og tilbreytingarlaus og lausnarorðið er eitt og hið sama: ráðstafanir.

Ekki þætti mér ólíklegt, að rannsóknir leiddu í ljós að fá orð vektu fólki lengri og ámátlegri geispa en orðin „ráðstafanir“ og „aðgerðir“. Fyrst voru aðgerðir til að hamla gegn dýrtíðinni í tísku um árabil. Svo var dýrtíðinni breytt í verðbólgu og frá þeirri stundu hafa „aðgerðir“ margfaldast ár frá ári.

Mér stendur þó öllu meiri stuggur af barlómnum og svartsýnisrausinu en öllum þeim aragrúa aðgerða, sem sífellt er verið að gera og hafa allar eitt og sama markmið: að búa í haginn fyrir nýjar aðgerðir og ráðstafanir.

Það eru engir sem halda því fram, að ástandið gæti ekki verið betra. En þrátt fyrir samdrátt í þorskveiðum hefur afli sjaldan verið meiri í sögu landsins. Heyfengur er bærilegur og fallþungi dilka ekki lakari en gengur og gerist. Utanlandsferðir, bílainnflutningur og brennivínsdrykkja er í hámarki. Gífurlegt magn peninga er í umferð. Þjóðin eyðir meiru en hún aflar.

Það sem skiptir mesta máli nú er að gera sér ljóst, að hér ríkir pólitísk kreppa, ekki efnahagsleg, eða réttara sagt: efnahagsörðugleikarnir margumtöluðu eiga sér stjórnmálalegar rætur... Í rúmt ár hefur verið næsta erfitt að sjá hvaða efnahagsstefnu ríkisstj. hefur fylgt eða hvort hún yfirleitt hefur haft nokkra stefnu í þeim efnum. Nú er ákaflega auðvelt að lifa við verðbólgu, ef fólk aðeins hættir að gera áætlanir, heldur reynir að eyða hverri krónu eins fljótt og mögulegt er. Þetta getur orðið vani eins og annað, en þá er ekki lengur um neina stjórn á efnahagsmálum að ræða, heldur bjargar sér hver sem betur getur og heimtar af ríkinu það sem á vantar til að endar nái saman.

Sú pólitíska kreppa, sem hér ríkir, er sú, að ríkisstj. hefur ekki samræmda stefnu í atvinnu- og efnahagsmálum. Hún er afgreiðslustjórn og sem slík getur hún auðvitað setið svo lengi sem stuðningsmenn hennar sætta sig við slíkt stjórnarform.“

Og að lokum segir Haraldur Ólafsson: „Mesti vandi þessarar ríkisstj. er að hún er reist yfir sprungu í stærsta stjórnmálaflokki landsins. Þess vegna er hún næm fyrir hverjum minnsta titringi. Það er í rauninni ekki nema tímaspursmál hvenær þessi stjórn lýkur störfum.“

Það er í rauninni ekki nema tímaspursmál hvenær þessi stjórn lýkur störfum, segir varaþm. Framsfl. og það er rétt, en því miður verður það dýrkeypt að hún hyggst enn hanga í nær hálft ár þótt helsti forustumaður hennar, hæstv. ráðh. Steingrímur Hermannsson, lýsi því yfir að fjöldaatvinnuleysi sé fram undan á næstu vikum og við séum komnir fram á ystu nöf í efnahagsmálum. Hefði hann mátt minnast þess, hvað annar stjórnmálaforingi gerði í hans sporum þessa sömu daga fyrir 24 árum. Hann viðhafði sömu orðin um ástand efnahagsmála og dró réttar ályktanir. Hann sagði af sér fyrir sína hönd og stjórnar sinnar. Hermann Jónasson óx af þeirri virðingu sem hann síðan nýtur og aðrir tóku við að reisa úr rústum það sem aflaga hafði farið. Steingrímur Hermannsson, hæstv. sjútvrh., segir bara: Það verður eitthvað að gera. En hann gerir ekki neitt og situr sem fastast.

Haraldur Ólafsson segir réttilega, að ríkisstj. sé afgreiðslustjórn. Sumir gætu ályktað að afgreiðslustjórn kynni að vera jafnábyrg eða jafngóð og t.d. minnihlutastjórn eða utanþingsstjórn. En því fer víðs fjarri. Haraldur Ólafsson gerir sér glögga grein fyrir þeim reginmun, sem þarna er á, þegar hann segir stjórnina auðvitað geta setið svo lengi sem stuðningsmenn hennar sætta sig við slíkt stjórnarform. Hún verður sem sagt ekki felld af þeim sem telja stefnu hennar og starfsaðferðir svo uggvænlegar að hagur lands og þjóðar krefjist þess að hún víki svo að svigrúm skapist a.m.k. til að reyna aðrar leiðir og leyfa öðrum mönnum að glíma við vandann. Bæði minnihlutastjórn og utanþingsstjórn væru ábyrgar gerða sinna, en samkv. laukréttri skilgreiningu Haraldar Ólafssonar er núverandi afgreiðslustjórn gersamlega ábyrgðarlaus og getur farið öllu sínu fram eða engu sínu fram svo lengi sem stuðningsmenn hennar sætta sig víð slíkt stjórnarform, svo að enn sé vitnað til Haralds.

Haraldur segir svo margt fleira spaklegt í örstuttri grein sinni að ég get þar litlu við bætt. Hann segir stjórnina næma fyrir hverjum minnsta titringi, þar sem hún sé reist yfir sprungu í stærsta stjórnmálaflokki landsins. Hann gerir sér grein fyrir því nú, og hefur kannske gert það frá upphafi, að aðferðirnar við stjórnarmyndunina voru ósæmilegar og gátu ekki leitt til heilbrigðs og trausts stjórnarforms, heldur hlutu þær að leiða til óeiningar og upplausnar, og því spyr hann, eins og ég og meginþorri flokksbræðra okkar beggja, hvenær í ósköpunum linni, hvenær tímaspursmálinu verði svarað.

Það er margt fleira sem ég er sammála þessum varaþm. Framsfl. um, t.d. skoðunum hans á barlóminum og svartsýnisrausinu þrátt fyrir allt og svo auðvitað hinu, að erfitt sé að sjá hvaða efnahagsstefnu ríkisstj. hefur fylgt eða hvort hún yfirleitt hefur haft nokkra stefnu í þeim efnum, svo að enn sé vitnað í þessa merku grein hans. Aðeins vildi ég setja orðið ógerlegt í staðinn fyrir erfitt. Ráðherrarnir sitja valdalausir, áhrifalausir og stefnulausir í illa fengnum stólum. Enn eru þeir líka ábyrgðarlausir, en hindra samt aðra í því að axla ábyrgðina og bjarga því sem bjargað verður. En þjóðin mun draga þá til ábyrgðar í fyllingu tímans.

Annars er sjaldgæft í þeirri lágkúru, sem pólitískum poturum hefur tekist að innleiða í íslensk stjórnmál, að maður sem að forminu til a.m.k. styður þessi öfl skuli segja sannleikann um þau. Í því er í öllu falli fólginn vonarneisti. Á meðan fleiri eða færri aðstandendur stjórnarinnar gera sér grein fyrir því eitraða andrúmslofti sem stafar frá þessari stjórn og þeim skaðvænlegu áhrifum sem það hefur á heilbrigð samskipti manna á meðal er von til þess að af braut óheilindanna verði snúið. Atlögunni var beint að Sjálfstfl., kjölfestu íslensks þjóðfélags. Enn hefur aðförin ekki tekist og eitrið situr fast í þeim sem henni stjórnuðu og við því tóku til millifærslu. Enn reyna þeir að auka glundroðann og skjóta sér undan dómi kjósenda. Á meðan eykst mengunin í þjóðlífinu og stjórnmálaflokkunum öllum nema Sjálfstfl., sem þegar hefur gengið í gegnum sína eldskírn. Þar er mannvígum lokið, enda nóg að gert.

Óeirðirnar í Alþb. mega mér að meinalausu magnast. En það er ekkert gleðiefni, þegar lýðræðissinnar berast á banaspjótum í samtökum sínum, hvort heldur er í Alþfl. eða Framsfl. Á stjórnleysið og stefnuleysið er svo sannarlega ekki bætandi og þó er alltaf verið að því. Einingartáknið óttast ekkert, það bíður reiðubúið til áframhaldandi björgunarstarfa, ástsælt eins og Þórarinn Þórarinsson segir.

Öllum er nú ljóst orðið að brbl., sem hér eru til umr., bjarga engu. Það er að vísu rétt, að raunveruleg verðbólga verður kannske ekki meiri en 70–80% næstu vikurnar í stað 100% eða svo, en það skiptir sáralitlu máli. Hvort tveggja er jafnvonlaust. Ég sagði raunveruleg verðbólga, því að þær tölur sem fólkinu eru upp gefnar eru alltaf falsaðar vísitölur. Vörur þær sem inn í þá útreikninga ekki ganga eru hækkaðar miklu meira en annað. Þetta gera stjórnarherrarnir vísvitandi, m.a. með þessum brbl. þar sem hið svokallaða tímabundna vörugjald er stórlega hækkað, því að þar eru tíndar til þær vörutegundir sem yfirleitt falla ekki inn í gamla vísitöluútreikninginn. Vinstri stefnunni, sem mörkuð var haustið 1978, er nákvæmlega framfylgt og stöðugt hert á svindlinu. Ásælni er aukin í vasa skattborgaranna samhliða kjaraskerðingum, blekkingum og fölsunum. Kjörorð stjórnarherranna er: Fjármagnið frá fólkinu.

Alveg er ljóst, að ríkisstj. ætlast ekki til þess að brbl. fái venjulega þinglega meðferð. Þau eru nú fyrst rædd þegar aðeins lifir vika nóvembermánaðar og kjaraskerðingin tekur gildi 1. des. Lofað hafði verið að þessi umr. færi fram s.l. miðvikudag, en það var auðvitað svikið. Raunar vissu allir frá upphafi að þessi mundu verða vinnubrögð stjórnar Gunnars Thoroddsens eða gátu vitað. Hann hefur í nærfellt hálfa öld verið með stjórnarskrána á samviskunni og nauðsynina á að breyta henni. Þess vegna túlkar hann orðin „brýn nauðsyn“ enn sem áður þannig, að óþarft sé að leita álits Alþingis þó að rúmlega hálfur annar mánuður sé til þess á reglulegu Alþingi. Hann hefur sérstaka nautn af því að níðast á stjórnarskránni. Í því sést stjórnviskan og manndómurinn best.

Við sjálfstæðismenn höfum, eins og áður segir, lýst mjög eindreginni andstöðu okkar við þessi lög, þar sem þau eru beint framhald og fullkomnun þeirrar efnahagsendaleysu sem fylgt hefur verið í fjögur ár með alkunnum afleiðingum.

Við höfum verið ásakaðir fyrir ábyrgðarleysi vegna þess að við vildum ekki leggja lið 10–12% kjaraskerðingu. Þessar ásakanir hefði að sjálfsögðu mátt ræða í alvöru, ef þessi gífurlega kjaraskerðing hefði einhverju bjargað. En yfirlýst er af ráðherrunum sjálfum að hún bjargi engu, verðbólgan æði áfram og bullandi atvinnuleysi muni skella yfir á næstu vikum, eins og hæstv. ráðh. Steingrímur Hermannsson segir. Þetta gerist allt hvort sem sjálfstæðismenn eru með eða móti brbl., enda er það margyfirlýst að þau eigi ekkert að koma til atkv., heldur taka að fullu gildi nú eftir viku. Þetta áréttaði hæstv. forsrh. í aðalmálgagni sínu, Þjóðviljanum, í síðustu viku. Það sem eftir stendur er því að brbl. bjarga engu, enda eru framsóknarmenn byrjaðir að kalla á enn frekari kjaraskerðingar.

Í annan stað er í brbl. um að ræða tvöfalda kjaraskerðingu, í fyrsta lagi þá sem lítt er dulbúin og hins vegar mikla hækkun vörugjaldsins, sem leggst ofan á þá nauðsynjavöru, sem lítið eða ekkert hefur verið í vísitölunni. Af þessum ástæðum höfum við sjálfstæðismenn brugðist hart við. En fleira kemur til. Sérstaklega höfum við bent á að rétt sé að fresta því að lengja orlof og eðlilegra hefði verið að hafa kjaraskerðinguna þeim mun minni, því að vissulega veitir fólki ekki af aurunum sínum og raunar vandséð að menn geti samhliða stórfelldri kjaraskerðingu tekið sér lengri frí, ef atvinna verður þá fyrir fólkið í landinu, en formaður Framsfl. gerir raunar ekki ráð fyrir því. Kannske sé því sama hvort launin séu nokkrum hundraðshlutum hærri eða lægri, þau verði hvort sem er engin nema þá atvinnuleysisbætur, ef þær verður hægt að greiða, en hjá Atvinnuleysistryggingasjóði er víst allt uppurið og innansleikt eins og öðrum sjóðum.

Í þessu sambandi er rétt að vekja á því athygli, að breyting orlofs þýðir minni fiskverðshækkun og þar með beina kjaraskerðingu fyrir sjómenn, enda hafa kjör þeirra rýrnað einna mest og því talið sjálfsagt að plata þá áfram.

Við sjálfstæðismenn munum að sjálfsögðu vinna að máli þessu í fjh.- og viðskn. Ed., ef það verður þá einhvern tíma tekið þar fyrir, sem fer nú að verða ástæðulítið, enda í samræmi við nefndarstörfin almennt, því að enginn fundur mun enn hafa verið haldinn í neinni nefnd í Ed. nema fundir til að skipta verkum með nefndarmönnum. Þannig eru nú vinnubrögðin á heimilinu því og þannig er komið forustunni í íslenskum þjóðmálum og virðingunni sem stjórnarherrarnir bera fyrir Alþingi. Hvað ætli sé þá um aðra?

En ef málið fær nú fyrir náð að koma til 2. umr. munum við sjálfstæðismenn að sjálfsögðu leitast við að ná fram einhverjum breytingum og sérstaklega munum við reyna að fá fram lækkanir á vörugjaldinu til að lina eitthvað á óðaverðbólgunni og knýja á um frekari skattalækkanir, þótt við gerum okkur að vísu ekki vonir um mikinn árangur.

Við umr. um önnur brbl. hér í hv. Ed. fyrir tæpum tveim árum eða nánar tiltekið 2. febr. 1981 gerðum við sjálfstæðismenn rækilega grein fyrir stefnu okkar með gjörbreyttum stjórnarháttum, þar sem linað yrði á skattáþján og ríkið tæki þátt í óhjákvæmilegum ráðstöfunum til að kveða verðbólguna niður. Við kröfðumst þess þá að ríkið slakaði á klónni. En stjórnarherrarnir töldu sig hafa ráð undir hverju rifi og væru nú búnir að ná slíkum tökum á verðbólgunni að hún mundi bókstaflega gufa upp. Ríkið, það er ég, sögðu þeir, og fólkið er í umsjá okkar. Þeir virtust trúa því að auknar álögur á vöruverð mundu lækka það og allt væri í himnalagi bara ef ríkissjóður rambaði á núllinu, sem hann raunar hefur ekki gert árum saman því að við hlið fjárlaganna er lánsfjáráætlun sem erlent eyðslufé streymir í gegnum.

Á landsfundi Sjálfstfl. í fyrra voru samþykktar ítarlegar ályktanir um efnhags- og atvinnumál, þar sem áréttuð eru sjónarmið frjálslynds fólks og úrræði þess í baráttunni við stjórnleysisöflin. Fjölmargir hafa þannig unnið að stefnumörkun, sem þó hefur stöðugt þurft að aðlaga þeim breyttu og versnandi aðstæðum sem framkvæmd ofstjórnarstefnunnar hefur leitt yfir þjóðlífið. Við sjálfstæðismenn vitnum hér til þessara umr. og ályktana og áréttum þá meginskoðun okkar að ríkið verði að lina á skattheimtu sinni til þess að unnt verði að kljást við verðbólguvandann. Ríkið eigi raunar að ganga á undan, því að nægilega hafi þegar verið sorfið að landslýðnum. Við teljum að skattalækkanir verði að vera svo ríflegar að verðlagshækkanir stöðvist um sinn eða svo verulega dragi a.m.k. úr þeim að vextir verði jákvæðir þótt þeir lækki stórlega eins og þeir verða að gera. Koma þar til greina lækkanir söluskatts, launaskatts, tímabundna vörugjaldsins og bensínskatta — eða hvaða vit er í því að ríkið taki alltaf sama hundraðshlutann af olíuvörunum þó að þær margfaldist í innkaupsverði og stórgræði þannig á olíuverðshækkunum? Tekjuskattsstigar mundu svo auðvitað lækka, a.m.k. sem næmi verðhjöðnuninni.

Mikilvægasta úrræðið til þess að brjótast út úr vítahringnum er að ná verðbólgunni niður fyrir vaxtafótinn. Þá þrýstir hann henni niður í stað þess að sparka henni stanslaust upp. Þetta má auðveldlega gera, en allt annað er að okkar mati vonlaust eins og nú er komið. Vöxtum verður ekki komið upp fyrir verðbólgu. Þess vegna verður að koma henni niður fyrir vaxtafótinn.

Umræðurnar um vaxtamálin að undanförnu ættu að hafa fært mönnum heim sanninn um hve núverandi peningamálastefna er vonlaus. Bankakerfið er hrunið. Vextirnir æða upp, en ná þó aldrei verðbólguhraðanum. Þvert á móti keyra þeir verðbólguna áfram með sívaxandi hraða. Hin raunalega vaxtapólitík kratanna, sem þeir kölluðu raunvaxtastefnu, var fólgin í því að lögbinda að vextir skyldu elta verðbólguna um langt skeið án þess að ná henni nokkurn tíma. Þó ætla ég þeim ekki að hafa viljað það sem þeir sögðu og gerðu. Þeim gekk áreiðanlega gott til, þótt hvorki þeir né aðrir skildu hvað þeir voru að fara og hvernig dæmið yfirleitt gæti gengið upp. Það gat verið vit í því að ákveða 45% vexti þegar verðbólgan var 40%, en það er ekkert vit í 60% vöxtum þegar verðbólgan er 80%. Menn verða að fara að gera sér grein fyrir að raunvöxtum verður ekki náð við núverandi verðbólgustig, hvað þá þegar verðbólgan æðir stjórnlaust áfram í stjórnlausu landi. Menn ná ekki vöxtunum upp fyrir verðbólguna nema með þeim hætti að setja allt atvinnulíf á hausinn og svipta menn yfirráðum yfir íbúðum og bújörðum. Einasta leiðin út úr vítahringnum er sú að ná verðbólgunni niður fyrir vextina, en ekki gagnstætt. Þetta getur sterk og samhent ríkisstj. auðveldlega gert með því að gefa eftir á hinum ógnvænlegu neyslusköttum, sem hér eru hærri en þekkist á nokkru byggðu bóli. Núv. ríkisstj. getur hins vegar ekkert gert og vill heldur ekkert gera nema hanga og eitra allt þjóðlífið með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Því er að vísu haldið fram, að verulegur halli kynni að verða á ríkissjóði ef eitthvað yrði linað á skattaáþjáninni. Vel kann að vera að einhver halli yrði um skeið, en hann mætti auðveldlega greiða með innlendu lánsfé, sem streyma mundi inn í bankakerfið þegar sæmilegir raunvextir væru á komnir, enda yrði verðtryggingu sparifjár haldið áfram á meðan menn væru að sannfærast um að aðgerðirnar tækjust. Hitt er svo annað mál, að alls ekki er víst að um verulegan halla yrði að ræða á ríkissjóði þó að neysluskattarnir yrðu lækkaðir. Í öllu falli er það ljóst að það eru ekki bara tekjur ríkisins sem minnka þegar gefið er eftir á neyslusköttum til að lækka verðlag, heldur líka útgjöldin, þegar launahækkanir og gengisbreytingar verða minni, enda er meginhluti ríkisútgjaldanna auðvitað launagreiðslur annars vegar og gjaldeyrisnotkun hins vegar.

Auðvitað væri einhver áhætta því samfara að gera slíka tilraun og kannske yrði hallinn á fjárlögum það mikill að einhverja nýja skatta þyrfti að taka upp eftir eitt eða tvö ár, þegar verðbólgan hefði verið kveðin í kútinn og hagur atvinnuvega og einstaklinga hefði batnað svo að undir yrði risið.

Þótt við sjálfstæðismenn lofum að sjálfsögðu ekki neinu um fullnaðarárangur af aðgerð á borð við það sem að framan er um rætt verða menn að gera sér grein fyrir því, að við vandann verður ekki ráðið nema ríkið slaki á klónni gagnstætt því, sem vinstri menn hafa nú gert í fjögur ár, að herða sífellt á henni. Mergurinn málsins er sá, að útgjöld ríkisins lækka auðvitað stórlega alveg eins og tekjurnar þegar að verðbólgu er vegið með skattalækkunum þannig að launagreiðslum er haldið í skefjum án kjaraskerðinga og verð gjaldeyris helst nokkuð stöðugt.

Þingflokkur Sjálfstfl. hefur unnið mikið starf við margháttaða útreikninga varðandi verðbólguvandann og notið til þess aðstoðar fjölmargra áhugamanna. Á tugum funda og í stöðugum einkaviðræðum fjölda manna höfum við verið að leita nýrra leiða, því að allir vita víst nú orðið að þær gömlu duga ekki, nauðsynlegt er að brjótast úr gömlum viðjum. Meginniðurstaðan er sú, að um langt skeið hafi stjórnmálamenn með hjálp embættismanna gengið svo freklega fram í hvers kyns fölsunum og kjaraskerðingum að fullkominn trúnaðarbrestur hafi skapast milli stjórnvalda og alþýðu og um þverbak hafi keyrt í störfum núv. ríkisstj. Þess vegna verði að leita gerólíkra lausna, þar sem allt sé fyrir opnum tjöldum og engin tilraun gerð til að blekkja fólk og falsa tölur. Við höfum sannfærst um að vísitölufalsanir margra ríkisstjórna og lögboðnar kjaraskerðingar eru ekki einungis gagnslausar, þegar þær eru orðnar vanabundnar, heldur beinlínis skaðlegar.

Við sjálfstæðismenn viljum opið heiðarlegt þjóðfélag frjálslyndis — andstæðu hins lokaða og maðksmogna samfélags stjórnhyggju og svikráða sem við nú búum við. Við munum setja fram heilsteypta stefnu í efnahagsmálum og fylgja henni fram án þess að lofa gulli og grænum skógum. Í meginefnum má kannske segja að í skattamálum, peningamálum og efnahagsstjórn almennt viljum við gera flesta hluti þveröfugt við það sem vinstri menn hafa nú framkvæmt um fjögurra ára skeið með augljósum afleiðingum.

Vinstri stefna hefur gengið sér til húðar og það hlýtur að verða kappsmál okkar sjálfstæðismanna að ná í komandi kosningum svo miklum áhrifum að við getum gerbreytt efnahagsstefnu landsins og reist við fjármálakerfið og atvinnulífið í heild. Hitt er því miður ljóst, að enn örlar ekki á því að þeir sem að núv. hæstv. ríkisstj. standa hyggist breyta til. Þvert á móti vilja þeir halda líftórunni í stjórninni og stjórnarstefnunni eins lengi og nokkur kostur er og því miður eru Alþfl.-menn líka veikir fyrir, eins og viðbrögð þeirra síðustu dagana hafa sýnt. Þess vegna ríður nú á miklu að allir frjálslyndir menn geri sér glögga grein fyrir því að eina leiðin til að snúa af braut stjórnlyndis og ofstjórnar er að efla Sjálfstfl. verulega.

Einn liðurinn í efnahagslegri endurreisn er auðvitað að taka upp nýjan og réttan vísitölugrundvöll og hætta öllu vísitölusvindli. Ríkisstj. hafði raunar boðað að pólitísk samstaða væri um að tekið yrði upp nýtt viðmiðunarkerfi fyrir laun, eins og hæstv. viðskrh. orðaði það í viðtali við Morgunblaðið 24. ágúst s.l., en þar mun nú hver höndin upp á móti annarri, eins og raunar í flestum eða öllum málum öðrum. En þegar það er hugleitt, að fólk hefur kannske ekki nema fjórðung tekna sinna til ráðstöfunar, þar sem meginhlutinn er bundinn í sköttum, húsnæðisútgjöldum, rafmagni, hita, síma, sjónvarpi, útvarpi, bifreiðum o.s.frv., þá spyrja menn: Getur fólk greitt tíundina?

Ríkisstj. hagaði því þannig, að verðlagshækkunum var dengt yfir í októbermánuði til þess að þær kæmu sem mest inn í vísitöluna 1. des. og verðbæturnar yrðu skertar um helming og þó liðlega það. Þannig á fólk nú að missa meira en tíunda hluta tekna sinna eða hartnær helming þess fjár sem það hefur í reiðufé til matarkaupa og fatnaðar ásamt öðrum daglegum útgjöldum og þessu er svo snilldarlega fyrir komið að skerðingin á að skella á í jólamánuðinum, væntanlega til heiðurs hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni.

Það er hreint ekki út í bláinn að spyrja spurningarinnar: Getur fólk greitt tíundina, hina nýju, til valdhafanna og vill fólkið greiða tíund til að halda þeim við völd sem sjálfir segja að efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar sé að glatast? Já, vill fólk greiða tíundina og getur fólk greitt tíundina? Getur nokkur ætlast til þess að einhver stjórnarandstöðuþm. greiði tíundinni atkv. sitt og framlengi þar með lífdaga ríkisstj. og kolvitlausrar stjórnarstefnu kannske heilt kjörtímabil, kannske heilan áratug? Á enginn í þessu landi að standa upp gegn ofstjórnarstefnunni, sem þegar hefur sýnt að hún leiðir til glötunar? Svari hver fyrir sig.

Nú vitna ég enn til Haralds Ólafssonar. Ég er nefnilega svo innilega sammála honum um að Ísland á mikinn auð og hann er hægt að nýta ef rétt er á málum haldið. Fjárlög ársins 1983 eiga að verða síðustu kreppufjárlögin, eins og hæstv. fjmrh. Ragnar Arnalds nefnir þau réttileg;a, og fer vel á því að Alþb. ber ábyrgð á þeim.

Víst er það rétt að hver einasti sjóður er þurrausinn og í bullandi vanskilum, víst er það rétt að lánstraust er á þrotum erlendis, bankakerfið hrunið og heimilin og fyrirtækin á hausnum, en sem betur fer er þetta mestmegnis heimatilbúinn vandi og því í okkar valdi að snúa blaðinu við. Það getur stórhuga og samhent ríkisstj. gert á örskömmum tíma.

Sú stjórn verður auðvitað að beita sér fyrir orkunýtingu og iðnvæðingu í stað þess að þvælast fyrir framförunum, eins og núv. ríkisstj. hefur gert með iðnrh. í broddi fylkingar, sem nærri hafði tekist að koma í veg fyrir Blönduvirkjun þannig að Alþingi varð á liðnu vori að taka ráðin af honum og ríkisstj. til að tryggja framgang þess stórmáls. Samt þvældist hann fyrir í allt sumar og framfylgdi ekki ákvörðunum Alþingis um að fela Landsvirkjun framkvæmdir fyrr en komið var fram á haust.

Ný stjórn verður að gæta hagsmuna okkar í hafréttarmálum í stað þess að láta allt reka á reiðanum. Hún á ekki að líða kommúnistum að ráða ferðinni eins og t.d. í flugstöðvarmálinu.

Ný stjórn verður að eftirláta borgurunum meira af aflafé sínu þannig að þeir geti ekki einungis risið undir íbúðarbyggingum og minni háttar eða meðalstórum atvinnurekstri til sjávar og sveita, heldur líka bundist samtökum um stofnun og starfrækslu meiri háttar fyrirtækja, almenningshlutafélaga, til að stórauka þjóðarauð og bæta lífskjör. Þar kemur fiskræktin m.a. til. Dæmi þess skal ég nefna:

Í Lónum í Kelduhverfi hafa nú í tvö ár staðið tilraunir við laxeldi í samvinnu við Norðmenn. Þær hafa borið þann árangur, að varla fer lengur milli mála að á Íslandi eru allar aðstæður hinar ákjósanlegustu til stórreksturs á þessu sviði. Gerð hefur verið frumáætlun um sjóeldi á Reykjanesi, þar sem ræktuð yrðu 1–2 þús. tonn af laxi árlega, og eru þær athuganir nú í endurskoðun með það fyrir augum að rækta allt að 10 þús. tonn af laxi árlega eða álíka mikið og Norðmenn flytja nú út. Þessi atvinnugrein getur tiltölulega fljótt skilað gjaldeyri og arði. Tækifæri eru ótæmandi, þegar ofstjórninni og óstjórninni linnir og frjálslynt fólk tekur við af stjórnhyggjumönnunum.

Eftir fjögurra ára vinstri stefnu, ofstjórnarstefnu, hefði mátt ætla að foringjar lýðræðisflokks gerðu sér grein fyrir nauðsyn stefnubreytingar. En því er nú ekki að heilsa í boðskap formanns Framsfl. á flokksþingi. Hann er að vísu hættur að tala um niðurtalningu, en talar nú um að setja allt niður frá 1983 til miðs árs 1984 með lögbindingu í bak og fyrir, þar sem markmiðið yrði að verðbólgan færi ekki yfir 30%: Lögboðið verði 30% þak á verðbætur, sömuleiðis á launahækkanir bænda og á tekjuaukningu sjómanna í gegnum fiskverð. Verðtrygging inn- og útlána verði í eitt ár bundin við 30% og vextir í samræmi við það. Hámark á hækkun vöruverðs og þjónustu verði bundið 30% nema vegna hækkana erlendis. Grunnkaupshækkanir verði engar, en kaupmáttur lægri launa varinn eftir mætti.

Þessi nýja speki þeirra framsóknarmanna, þar sem boðað er að allt eigi að setja niður, er auðvitað enn þá haldlausari og vitlausari en niðurtalningin, sem um þetta leyti átti að hafa gengið af verðbólgu dauðri. Þessi niðursetningur Framsfl. kemst aldrei á legg, enda hefði hann þá orðið þeim baldinn hvernig sem hann hefði verið barinn.

Til viðbótar niðursetningnum boðar flokksþing Framsóknar stórfelldar tollahækkanir á þær vörur sem ekki teljast til nauðsynja. Hver skyldi nú eiga að ákveða hvort t.d. tannkrem eða appelsínur yrðu í lúxusflokki nr. 2 eða nr. 3? Það er óskiljanlegt hvernig mönnum, sem ættu að vera reynslunni ríkari, getur hugkvæmst það snjallræði að stórhækka enn neysluskatta-og að því er helst verður skilið að taka nú langstærstu skrefin þegar megináherslu á að leggja á að draga úr dýrtíð. Ráðleysið er sorglegt — þráin við að hanga valdalaust í „virðingarstöðum“ grátlegur.

Við höfum gengið veg vinstri stefnunnar, ofstjórnarstefnunnar, á enda. Auðvitað hefur afleiðingin orðið sú sem frjálslyndir menn spáðu frá upphafi og þó kannske enn þá alvarlegri. En þótt við höfum glatað gullnum tækifærum er engin ástæða til að örvænta. Veturinn verður heimilunum og atvinnuvegunum auðvitað erfiður og ábyrgð þeirra er mikil sem því valda, en með vorinu kjósum við nýtt sumar í íslensku þjóðlífi.