22.11.1982
Neðri deild: 11. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 758 í B-deild Alþingistíðinda. (502)

78. mál, söluskattur

Flm. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð vegna hinnar einkennilegu ræðu sem hv. þm. Hannes Baldvinsson var að enda við að flytja áðan.

Ég vil byrja á að þakka honum stuðning við málið, en ég vil hins vegar benda honum á að hann fer með rangt mál er hann segir að ég hafi hindrað framgang þess í fyrra. Ég verð, með leyfi forseta, að fá að lesa örfáar línur úr ræðu sem ég flutti í umr. í fyrra. Þá sagði ég, herra forseti:

„Ég held að hér sé um gott og réttmætt mál að ræða. Það er bágt að afla ríkistekna með þeim hætti að einbeita sér að harðindaplássum sem verða fyrir sérstökum útgjöldum vegna snjóþyngsla.“ Síðar í sömu ræðu sagði ég: „En allt um það. Ég held að þetta sé gott mál, og ég vil gjarnan fyrir mitt leyti stuðla að því að þetta mál nái fram að ganga, svo framarlega sem hæstv. fjmrh. leggur ekki stein í götu frv.“

En ég hafði í millitíðinni bent á að þarna væri ennþá eðlilegra að hæstv. fjmrh. Ragnar Arnalds flytti málið sem stjórnarfrumvarp en varamaður hans flytti það.

Frumvarpið var hins vegar ekki í hinum fullkomnasta búningi hjá hv. þm. Hannesi Baldvinssyni og þó að hann segi að ég hafi ekki fellt út úr sínu frv. nema eitthvað af forsetningum, atviksorðum og nafnorðum, þá geta þau skipt máli því það skiptir dálitlu í texta hvernig orðunum er raðað og hversu mörg þau eru.

Ég læt mér í léttu rúmi liggja tal hans um ónytjungshátt minn eða hugmyndahnupl. Mér hefur hins vegar tekist að endurbæta stórgáfulega hugmynd frá sjálfum Hannesi Baldvinssyni og er bara stoltur af.

Ég þakka jafnframt hv. þm. Hannesi Baldvinssyni fyrir að hreyfa réttmætu nauðsynjamáli á Alþingi varðandi viðlagatrygginguna. Við vorum að enda við að ræða við forráðamenn sveitarfélaga að norðan, sem greinilega höfðu fengið sömu hugmynd og hv. þm. Hannes Baldvinsson. Veit ég ekkert hver stal af hverjum eða hvort menn eru almennt svona vel vakandi, en ég skal styðja að því að þessi hugmynd nái fram að ganga því hún er réttmæt líka og raunar sjálfsögð. Að vísu þykist ég eiga nokkuð undir mér hér á hv. Alþingi, en ég hefði haldið að ennþá öflugra væri ef hv. þm. Hannes Baldvinsson hefði beðið hæstv. fjmrh. að leggjast á eina sveif með mer. Ég þakka honum það traust sem hann sýnir mér er hann biður mig að fylgja eftir fsp. sinni, en vil jafnframt biðja hann að tryggja stuðning hæstv. fjmrh. við málið.