23.11.1982
Sameinað þing: 20. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 806 í B-deild Alþingistíðinda. (516)

88. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Þessi ríkisstj. skilur eftir sig stærsta þrotabú lýðveldissögunnar. Þess vegna verðskuldar hún vantraust. Erlendar skuldir nema nú 240 þús. á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Viðskiptahallinn samsvarar 3 þús. þriggja herbergja íbúðum, byggingarverði kaupstaðar á borð við Kópavog. Þetta horfðu þeir á aðgerðarlausir allt s.l. ár.

Löngu eftir að þessi ríkisstj. verður gleymd og grafin verður þú, sem orð mín heyrir, enn minntur á hana af því að þú verður látinn borga vanskilaskuldirnar árum saman. Þessi ríkisstj. skilur ekkert eftir sig nema vanskilaskuldir handa bornum og óbornum.

Stjórnarliðar segjast enga ábyrgð bera á þrotabúinu. Það er að þeirra sögn öllum öðrum að kenna en sjálfum þeim. Við viðurkennum hins vegar vandann. Það hefur orðið samdráttur í afla og útflutningstekjum miðað við uppgangsárin 1980 og 1981. Það er hins vegar enginn aflabrestur og heimskreppan hefur enn ekki numið hér land nema að litlu leyti. Okkar vandi er því miður sjálfskaparvíti. Orsökin er óarðbær fjárfesting í atvinnugreinum, sem komnar eru yfir endimörk vaxtar og skila okkur því engum arði.

Ráðherrarnir hlaupast ekki frá ábyrgð, geta það ekki, á fjárfestingarmistökum, sem orðin eru að drápsklyfjum, óðaverðbólgu, sem nálgast að vera tíföld á við viðskiptalönd, hallarekstri og skuldasöfnun atvinnuvega, jafnvel á uppgangsárum. Það eina sem hefur forðað okkur frá hruni atvinnulífs og atvinnuleysi er gífurleg aflaaukning í kjölfar 200 mílna útfærslunnar. Það er ekki þeim að þakka. Það er þorskinum að þakka.

Þessi ríkisstj. er að þrotum komin, það eru þeirra eigin orð. Samt boðar Tómas frá Hánefsstöðum enn niðurtalninguna sina, en nú á hún að byrja á miðju ári 1983. Þangað til ætlar Steingrímur að spila eftir eyranu. Það verður ljótur Framsóknarskottís.

Í fjögur ára hafa kommarnir rekið hér langtímaáætlun gegn lífskjörum þjóðarinnar. Nú boða þeir fjögurra ára neyðaráætlun, eftir að hafa komið hér á neyðarástandi á fjórum uppgangsárum. Svo segir hæstv. forsrh. að stjórnarandstaðan fari með ýkjur þegar hún lýsir afleiðingum stjórnarstefnunnar.

1. desember — dagur reiðinnar — er í nánd. Brbl. boða miðlungslaunamanni að vinna kauplaust einn orlofsmánuð á ári að mati ASÍ. Við vitum að það er verið að borga fyrir Kröflu, Steingrímstogarana, útflutningsbæturnar, viðskiptahallann og skuldasúpuna. En við spyrjum: Er byrðunum réttlátlega skipt? Eru fórnir færðar til einskis? Verður beðið um nýjar fórnir 1. mars, 1. júní og svo koll af kolli eins og venjulega? Vantar ekki viðbitið, sem á að gera formanni Dagsbrúnar kleift að kyngja þessum beiska bita?

Það er spurt um stefnu og afstöðu Alþfl. Ég endurtek: Við viðurkennum vandann, en við viljum ekki að launþegar einir færi fórnir. Við viljum ekki að þær fórnir verði færðar til einskis. Við segjum: Stöðvið togarainnflutninginn, afnemið útflutningsbæturnar, hættið að bruðla með fjárfestingarfé þjóðarinnar í arðlausa vitleysu, skilið húsnæðislánakerfinu tekjustofnum þess, hættið að láta ríkið eyða um efni fram.

Forsrh. Þér spurðuð. Hér eru svörin um afstöðu Alþfl. og skilyrði. Komið þið fram með fylgifrv. sem áttu að fylgja brbl. Er það til of mikils mælst? Félagi Dagsbrúnarformaður, hvar ertu?

Síðast en ekki síst krefjumst við afkomutryggingar þeirra fjölskyldna sem hafa eina fyrirvinnu, njóta engra yfirborgana, vinna enga yfirtíð og hafa ekkert til að lifa af nema hungurtaxta verkalýðsfélaganna. Þessar fjölskyldur hafa ekki haft efni á því að lifa um efni fram eins og ríkið. Þær bera ekki ábyrgð á skuldasöfnun, viðskiptahalla og fjárfestingarsukki ráðherra sósíalistanna. — Herra iðnrh. Þessar fjölskyldur fylltu Broadway á s.l. helgi, 1500 manns. Þær búa ekki við amerískan lífsstíl, því miður, og það er m.a. þér að kenna. Herra þingflokkur, Vilmundur Gylfason. Þetta fólk, þrátt fyrir að það er hart keyrt, borgar enn sjálft sinn aðgöngueyri.

Ég hef svarað því hvað við jafnaðarmenn viljum í stað brbl. En við viljum meira. Við viljum ekki að launþegar séu látnir færa fórnir án þess að það færi þeim von um bjartari framtíð. Bjartari framtíð felst í því að hætta að fjárfesta í fortíðinni, að fjárfesta í framtíðinni. Leggjum Framkvæmdastofnun niður. Sameinum fjárfestingarsjóði atvinnuveganna. Látum þá starfa með arðsemismat að leiðarljósi. Eflum innlendan sparnað. Tryggjum 30 þús. ungum Íslendingum arðbær störf í framtíðargreinum íslensks iðnaðar. Stöðvum erlendar lántökur í óarðbærar framkvæmdir. Nýtum erlent áhættufé í orkufrekum iðnaði. Látum stjórnmálamennina hætta að leika skömmtunarstjóra fjármagns og útlána. Þeim er ekki treystandi fyrir fé.

Þm. Alþfl. hafa á þingi flutt lagafrv. um 15 þessara mála. Á óskalista ríkisstj. er að finna 7. Þeim sem sjálfir eru fátækir í anda er ekki of gott að leita í smiðju annarra. En það virðist lítill hugur fylgja máli. Stjórnarliðar hafa ýmist fellt öll þessi mál eða svæft. Svo segja stjórnarliðar að Alþfl. geri sig sekan um ábyrgðarleysi og þeir lýsa eftir okkar tillögum. Mitt svar er: Þær eru á borðum ykkar. Lesið þið þskj.

Við Alþfl.-menn viljum að þm. þjóðarinnar hætti að vera vandamál. Þeir eiga að leysa vandamál. Þingið á að endurspegla þjóðarviljann. Þess vegna höfum við dr. Gylfi Þ: Gíslason, — ég endurtek: dr. Gylfi Þ. Gíslason, — fulltrúar Alþfl. í stjórnarskrárnefnd, lagt fram tillögur um jöfnun atkvæðisréttar án fjölgunar þm. Yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar styður þessar tillögur. Sá þjóðarvilji þarf að birtast í verki.

Styður sjálfstfl. þessa kröfu okkar? Því miður hefur hann nú sett heimsmet í tvískinnungi. Sjálfstfl. ber fulla ábyrgð á þessari ríkisstj. Sjálfstæðismaður veitir ríkisstj. forstöðu. Sjálfstæðismenn sitja þar á ráðherrastóli. Sjálfstæðismenn hafa hingað til firrt ríkisstj. vantrausti. Stjórnarliðar jafnt sem stjórnarandstæðingar taka nú sameiginlega þátt í prófkjörum og hyggjast bjóða sig fram sameiginlega í nafni sama flokksins. Þetta kalla þeir að leiða einn flokk til ábyrgðar. Þetta minnir mig meira á bíómynd sem hét „Hin sjö andlit Evu.“

Við höfum fengið nóg af flokkum og stjórnmálamönnum sem hafa tungur tvær og tala sitt með hvorri. Kjörorðið er ekki Einn flokk til ábyrgðar. Það er: Ábyrgan flokk til valda.

En sýnir ekki liðhlaup Vilmundar að líkt sé komið fyrir Alþfl. og Sjálfstfl.? Svarið er nei. Á seinasta flokksþingi Alþfl. voru allar stefnuyfirlýsingar samþykktar shlj., enginn málefnaágreiningur. Vilmundur vildi bara vera varaformaður í flokknum sem hann var að lýsa hérna áðan. Flokkar klofna ekki út af engu. Brottför Vilmundar var einkaákvörðun hans. Hún er einkamál, ekki stjórnmál. Dögum saman hafa fjölmiðlar leitað dauðaleit að nafngreindum Alþfl.-mönnum, sem fylgi Vilmundi yfir í hið óstofnaða bandalag stjórnleysingja og Maóista, sem hann telst vera væntanlegur formaður fyrir. Sá Alþfl.-maður er ófundinn enn.

En það er ólíku saman að jafna brottför Vilmundar eða þrásetu sjálfstæðismannanna. Vilmundur er farinn, en ráðherrar Sjálfstfl. eru bæði farnir og rétt ókomnir. Þeir sækjast eftir sameiginlegum framboðum stjórnarsinna og stjórnarandstæðinga. Eiga kjósendur Sjálfstfl. virkilega að kjósa bæði með og móti þrotabúi Gunnars Thoroddsens, rétt eins og þeir væru bara réttir og sléttir framsóknarmenn? Þeir vita það ekki. Það veit það enginn. Það verður ekki vitað, vegna þess að það er ekki vitglóra í slíkum framboðum.

Herra forseti. Góðir hlustendur. Alþfl. er ábyrgur í andstöðu, en hann mun verða róttækur í ríkisstj. Fram undan eru erfiðir tímar. Við sögðum ykkur það fyrir árið 1979. Nú dugar ekki lýðskrumið lengur. Þá þarf þjóðin á Alþfl. að halda.