25.11.1982
Sameinað þing: 21. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 857 í B-deild Alþingistíðinda. (565)

44. mál, endurreisn Reykholtsstaðar

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Hér er til umr. till. til þál. um endurreisn og uppbyggingu Reykholtsstaðar í Borgarfirði. Flm. eru allir þm. Vesturlands. Þetta er því þingmannatillaga. Um endurreisn og uppbyggingu Reykholtsstaðar eru þm. Vesturlands að sjálfsögðu allir sammála og vilja virðingu Reykholtsstaðar sem mesta í nútíð og framtíð.

Það er svo, að jörðin Reykholt í Borgarfirði er fyrst og fremst kirkju- og prestssetursjörð. Þetta er frægur sögustaður, m.a. vegna búsetu Snorra Sturlusonar þar mestan hluta ævi sinnar. Að Reykholti leggja margir erlendir ferðamenn leið sína, einkum að sumarlagi, og ekki síst Norðmenn, sem líta á Reykholt sem helgan stað. Þar er einnig skólasetur. Þar hefur Reykholtsskóli verið byggður og rekinn í marga áratugi og vonandi verður þetta veglegur skólastaður í framtíðinni.

En um málefni Reykholts er það að segja að öðru leyti, að þau hafa ekki legið nógu ljóst fyrir á undanförnum árum og áratugum. Þar hafa þrjú rn. látið til sín taka, dóms- og kirkjumrn., menntmrn. og landbrn. Þess vegna er mjög brýnt að skýra línur í þessum efnum í Reykholti, ákveða hverjir í raun og veru hafi þar húsbóndavald og forræði, skipuleggja staðinn og margt fleira til þess að hægt sé að byggja hann upp með þeirri reisn sem honum sæmir.

Að því er skólann varðar þarf hann að sjálfsögðu að fá þarna nægilegt landrými. Það er gleðiefni að nú virðist röðin komin að Reykholtsskóla því að hann er efstur á blaði héraðsskóla að því er varðar uppbyggingu og endurbyggingu.

Um þetta erum við þm. allir sammála, en það sem ég vildi aðeins benda á er þetta: Á árinu 1980 var sett nefnd til að athuga þessi mál öll af dómsmrn. og menntmrn. Formaður þeirrar nefndar er Rúnar sýslumaður í Borgarnesi. Það er hlutverk þessarar nefndar að skoða Reykholtsmál öll og gera tillögur um hvernig málum verði best skipað í Reykholti í framtíðinni í samráði við heimamenn og viðkomandi rn. Eitt fskj. sem prentað er með þessari till., fskj. I, er einmitt áfangaskýrsla Reykholtsnefndar. Það kann að lita svolítið einkennilega út að birta áfangaskýrslu með þessari till., þar sem nefndin hefur ekki lokið störfum, en hins vegar lögð mikil áhersla á að hún ljúki störfum. — Ég vildi aðeins taka þessi atriði fram til að fyrirbyggja misskilning.

Þess má geta, að á undanförnum árum og áratugum hafa starfað ýmsar nefndir að þessum málum án þess að um verulegt átak yrði að ræða í áttina að settu marki í þessum efnum. En það er lögð áhersla á að nefndin, sem athugar nú öll þessi mál í samhengi, skili endanlegu áliti. Þegar hún hefur gert það mun það verða skoðað í rn. og þá sérstaklega dómsmrn., sem ótvírætt hefur höfuðyfirráð á þessum stað. Þegar nefndin hefur lokið störfum mun verða fjallað um álit hennar og reynt að hraða því að öll málefni Reykholts verði tekin til endanlegrar skipunar, ef svo má segja, — staðurinn skipulagður og annað eftir því.

En ég þarf ekki að orðlengja meira um þessa till. því að um hana erum við flm. allir sammála og vegna mikilvægis málsins höfum við allir lagst á eitt um að fylgja henni fram.