20.10.1982
Efri deild: 4. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í B-deild Alþingistíðinda. (58)

30. mál, heilbrigðisþjónusta

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Það frv. sem hér hefur nú verið lagt fram af hæstv. heilbr.- og trmrh. um breytingu á lógum um heilbrigðisþjónustu felur ekki í sér neinn heildaruppskurð eða stefnumarkandi breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu. Ég lít svo á að hér hafi fyrst og fremst verið um að ræða ýmsar lagfæringar og hagræðingar á núgildandi lögum.

Heilbrigðisþjónustan er viðamikill málaflokkur. Það eru skiptar skoðanir um ýmsa þætti hans og hvernig að þeim skuli staðið. Væntanlega mun viðkomandi hagsmunaaðilum gefast tækifæri til að koma sínum athugasemdum og skoðunum á framfæri þegar heilbr.- og trn. tekur til starfa og fer að fjalla um þetta frv. Eins og fram kemur í athugasemdum við frv. og hæstv. ráðh. skýrði reyndar hér frá var skipuð starfsnefnd sem vann að endurskoðun laganna. Ég var einn af þeim þm. sem áttu sæti í þeirri nefnd. Ég vil við þetta tækifæri lýsa ánægju minni með það ágæta samstarf sem var innan nefndarinnar. Ég tel að ýmsar lagfæringar sem settar voru í frv. séu til bóta, en að sjálfsögðu geta verið skiptar skoðanir um það.

Þar sem ég á sæti í heilbr.- og trn. Ed. tel ég ekki ástæðu til að fjalla á þessu stigi málsins um efnisatriði frv. Ég fagna því að frv. kemur fram nú í upphafi þings. Það verður þá væntanlega nægur tími til að fjalla um það, a.m.k. ef þetta þing á einhverja lífdaga framundan. En það kemur væntanlega í ljós fljótlega hvort svo verður.