29.11.1982
Neðri deild: 13. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 884 í B-deild Alþingistíðinda. (595)

57. mál, orlof

Flm. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Hér hefur talað frelsisins frík úr frelsisins flokki og er að fara í kringum það að sjálfstæðismenn hafa í raun og veru, í reynd á síðasta Alþingi og kynnu að vera að undirbúa það aftur, komið í veg fyrir samþykki á þessu litla frv. Því tók ég dæmi til annarrar áttar að ég er að undirstrika hversu ósamkvæmur þessi málflutningur er. Ég er að undirstrika það, að þegar þeir tala um frelsi eigi þeir við hagsmuni og ekkert annað en kalda og bera hagsmuni. Ég tók dæmi af því, að við höfum lagt til að tiltekin lög, og mætti nú gera við þau fleiri raunar, yrðu felld niður, þau yrðu felld úr gildi. Hvað þýddi það, að þessi lög um verslanir, sem við höfum lagt til að yrðu felld úr gildi, hyrfu? Það þýddi að þessi mál færu í frjálsa samninga. Þeir sem vinna við verslanir annars vegar og svokallaðir eigendur þeirra hins vegar semdu sem frjálsir menn. (FrS: Neytendur, sagði ég líka.) Neytendur hefðu líka sitt að segja, sem hv. þm. hefur reynst vera á móti.

Hvaða mál fjallar um frelsi, frjálsa samninga og frelsi til athafna, innkaupa og hvers annars, ef ekki þetta litla mál? Hvað var á móti? Herra forseti. Ég skal útskýra það. Það er að nokkrar stærri verslanir, a.m.k. hér á stór-Reykjavíkursvæðinu, hafa lagst mjög á móti þessu. Þær telja að samkeppnisaðstöðu sinni sé ógnað af hinum smærri. Auðvitað er það allt og sumt. Það er ekki frelsi sem vakir fyrir þeim, heldur hagsmunavarsla. Núna koma mennirnir sem verja lögin um verslanirnar í frelsisins nafni og vilja ekki lög. (Gripið fram í: Ertu að klaga fyrir mér?) Já, mér sárnar að svo ágætur maður sem þú skulir vera í þessum hörmulega flokki. Og þó á hv. 3. þm. Reykv. heima í þessum flokki og hvergi annars staðar, það er ljóst. — Í frelsisins nafni koma þeir núna og vilja frjálsa samninga um orlof. Hvar er samhengið í þessu? Samhengið er aðeins á einum vettvangi. Það eru hagsmunir hinna 200 fjölskyldna sem vilja lög um verslanir — (Gripið fram í: Þær voru franskar.) Já, já, þær voru franskar - en frelsi í orlofsmálum að þessu sinni af því að annað kynni að kosta einhverja peninga einhverra úr baksveitum Sjálfstfl. Þetta verðum við að hafa skýrt og klárt.

Sá sem talaði hér í nafni frelsis skilur ekki frelsi og hann vill ekki frelsi. Frelsi er honum og hans mönnum ekkert mál og hefur aldrei verið. Það er hagsmunavarsla af dapurlegasta tagi sem hér á sér stað og fram fer í nafni frelsis. Ég treysti því, að ætli menn að snúast gegn því litla máli, sem hér hefur verið mælt fyrir, geri menn það með þeim rökstuðningi að það kosti einhver stærri fyrirtæki einhverja peninga, en sveipi sig ekki þessum ódýra hjúpi frelsisins, sem ekkert er og þeir eru ekki sjálfir talsmenn fyrir nema þegar að það hentar þeim. Það er þessi kjarni málsins sem ég hef leyft mér að útskýra fyrir þeim sem á mál mitt vilja hlýða.

Ég verð glettilega vel var við að æ fleiri verða sammála mér og skilja þetta vandamál, skilja að falskir og óheiðarlegir fjölmiðlar hafa haldið á loft rangri goðsögn um þessa frelsisins menn, sem engir eru og ekkert frelsi vilja. Ég spái því að fyrr en síðar verði þetta hagsmunabandalag að hruni komið og falli inn í sig af því að þeir sem það mynda hafa sagt þjóðinni svo rangt til um hverjir þeir eru, fyrir hvað þeir standa og hvað þeir vilja. Það er sá kjarni málsins sem kemur upp hér í hverju málinu á fætur öðru.

Hv. 10. þm. Reykv. má kalla það þráhyggju hjá mér að benda á að Sjálfstfl. sé ónýtur. Sé það þráhyggja hjá mér breiðist hún út að ég held með ótrúlegum hraða.