02.12.1982
Sameinað þing: 24. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 919 í B-deild Alþingistíðinda. (627)

265. mál, stjórn og starfræksla póst- og símamála

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Þetta á víst samkv. venju að verða örstutt aths. Vegna beiðni hæstv. ráðh. ætla ég að upplýsa hann um það, sem hann mun þó vita — vegna þess að hann mun hafa fsp. í gangi til þess að geta svarað hér fsp. sem fram hefur komið, til dæmis um að tarna, að Póstur og sími neitar að útvarpa veðurfréttum á metrabylgjum, sem þó er kveðið á um að minnstu bátarnir skuli hafa eingöngu, heldur aðeins á miðbylgju, vegna þess að Veðurstofan neiti að greiða sérstaklega fyrir útvarp á metrabylgju til bátanna á veðurfréttum. Einnig það, sem mér er kunnugt um og þar mun ekki stoða að þræta fyrir af hálfu Pósts og síma, og ég bið hæstv. ráðh. um að kynna sér það mál, að stofnunin hefur neitað að láta í té rafhlöður í neyðarsenditæki í Vestmannaeyjum, sem til þess eru ætluð að halda uppi loftskeyta- og talstöðvarsambandi við bátana á þeirri slóð, þegar rafmagn fer af stöðinni í Vestmannaeyjum, — hefur neitað að láta þetta í té á þeirri forsendu að þetta eigi Rafmagnsveiturnar að gera. Sem dæmi um það hvað af þessu hefur leitt vil ég geta þess, að þegar Heimaey rak upp í sandinn fyrir skemmstu, þar sem maður fórst og frægt varð raunar af mistökum, sem urðu í sambandi við björgunarmálin og varðskipin komu inn í, þá vildi svo til, þegar þetta slys varð, að rafmagnslaust var á stöðinni í Vestmannaeyjum og sambandið datt niður. Vegna þess að rafhlöðurnar voru ekki þarna — og eru þarna raunar ekki enn, þá gátu loftskeytamenn á stöðinni ekki haft samband við skipið á úrslitastund. Þessu kem ég hér áleiðis. Yfirstjórn Pósts og síma má þræta fyrir þetta ef hún vill, en það gætu þá orðið vitnaleiðslur í málinu.