02.12.1982
Sameinað þing: 24. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 927 í B-deild Alþingistíðinda. (638)

64. mál, umferðaröryggisár

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Það eru bara örfá orð. Hv. þm. Sveinn Jónsson og hv. 5. þm. Vesturl. hafa báðir kvartað yfir því að seint hafi verið farið af stað í þessum málum. Hv. 4. þm. Norðurl. e. upplýsti það að hann á sæti í þeirri norrænu nefnd sem fjallað hefur um undirbúning norræna umferðaröryggisráðsins. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka honum fyrir góð störf í þeirri nefnd og ég verð að segja það að af nokkrum kynnum er mér kunnugt um að íslenskir alþm. hafa a.m.k. núna á síðustu árum starfað vel í þeim norrænu nefndum þar sem þeir hafa átt sæti.

Það var að sjálfsögðu ekki neinn vafi á því í mínum huga eða þeirra ráðh., sem þessi mál snerta, að við ættum að taka þátt í og leggja okkar af mörkum á norrænu umferðaröryggisári. Það er kvartað yfir að umferðarráð hafi farið seint af stað til þess að virkja ýmis félagasamtök o.s.frv. og það er rætt um áhugaleysi hjá sjónvarpi og jafnvel víðar í þessum efnum. Ég er auðvitað mjög þakklátur hv. alþm. fyrir það að leggja sitt af mörkum til þess að vek ja áhuga á þessu máli. Það er rætt um að fjárveitingar séu knappar. Nú höfum við ekki ennþá afgreitt fjárlög fyrir þetta umrædda ár, 1983, svo að enn gefst hv. alþm. tækifæri til þess að leggja þar hönd á plóginn.

Ég vil svo aðeins að síðustu geta þess að þó árið 1983 sé sérstaklega nefnt sem norrænt umferðaröryggisár, þá verðum við að muna eftir því að daglega starfa hér á landi fjölmargir aðilar að öryggismálum í umferðinni, þó að eftirtekjan sé ekki betri en raun ber vitni. Umferðarráð er sístarfandi, löggæslan er sístarfandi og slysavarnafélagið alltaf á verði. Þannig mætti lengi telja. Þess vegna vil ég láta það verða mitt lokaorð í þessari umr. að þó að við verðum að gera sérstakt átak á næsta ári þá eru í raun og veru öll ár umferðaröryggisár, og umferðarráð og aðrir aðilar, sem að þessum málum vinna, eru sístarfandi.