06.12.1982
Neðri deild: 14. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 964 í B-deild Alþingistíðinda. (683)

123. mál, tollskrá

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Um þetta leyti fyrir réttu ári mælti ég fyrir frv. til l. um breytingu á tollskrá, en með þessu frv. var tillaga gerð um að lagt yrði sérstakt gjald á innflutt hús þar sem tollur af innfluttum húsum var ekki talinn sambærilegur við þau gjöld sem lögð yrðu á innlenda húsaframleiðslu. Þótt frv. væri seint fram komið, þ.e. skammt væri eftir til jóla, tókst þá að skapa samstöðu um það í þinginu að hér væri nauðsynjamál á ferðinni og frv. var afgreitt skömmu fyrir jól og tók gildi um s.l. áramót. Lögin sem hér um ræddi voru hins vegar tímabundin og giltu einungis til ársloka 1982.

Lengi hefur staðið fyrir dyrum heildarendurskoðun tollskrárlaga, en þá mun m.a. væntanlega verða lagt til að felldir verði niður að meginstefnu til tollar og önnur aðflutningsgjöld af hvers konar efnivöru tilinnlendrar framleiðslu. Verði þær tillögur lögfestar bresta forsendur fyrir gjaldtökunni sem hér um ræðir. Þess vegna var ákveðið að um yrði að ræða tímabundna gjaldtöku. Heildarendurskoðun tollskrárlaga stendur enn yfir og óvíst hvenær henni verður lokið, en ég hef þó gert mér vonir um að henni gæti lokið á næsta ári. Ríkisstj. flytur því frv. um að þessi lög, sérstakt álag á innflutt hús, verði framlengd um eins árs skeið.

Ég mæli hér fyrir þremur þingmálum, sem öll snerta tollskrána, en ég vil sérstaklega taka það fram að einungis þetta mál þarfnast skjótra viðbragða og þarf að fá afgreiðslu fyrir jól. Hin málin eru þess eðlis að lengri tími gæti gefist til að skoða þau nánar.

Herra forseti. Ég orðlengi ekki frekar um þetta mál, en leyfi mér að leggja til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. fjh.- og viðskn.